04.04.1940
Sameinað þing: 13. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í B-deild Alþingistíðinda. (74)

1. mál, fjárlög 1941

*Jörundur Brynjólfsson:

Það er ærið þunnskipað hér í Sþ. og má vera, að það stafi nokkuð af því, að menn hafi ekki búizt við, að fundarhöld yrðu, en því á hæstv. forseti enga sök á.

Ég hefi leyft mér að flytja hér 2 brtt. á þskj. 327. VII og X. Fyrri till. er um að veita Jóni Þorleifssyni málara 2000 kr. styrk. Orsökin til þess, að ég hefi borið fram þessa till., er sú, að ef Alþ. ákvarðar að úthluta sjálft listamannastyrkjunum, eins og vel getur átt sér stað, þá taldi ég, að meða þeirra listamanna og skálda, sem fengju styrkinn, yrðu þau að vera, Þórunn Magnúsdóttir skáldkona og Jón Þorleifsson málari, enda eiga þau það fyllilega skilið fyrir sín störf. Ég skal jafnframt taka fram, að ég mun eins og á siðasta þingi vera því fylgjandi, að menntamálaráð úthluti þessu fé. Ég hefi oft fundið til þess, að þegar rætt hefir verið um þessa persónustyrki hér á Alþ., þá hefir það ekki ætíð farið á þann veg sem rétt var. Þess vegna taldi ég að bezt færi á því, að dómbærir menn utan þingsins hefðu þessa úthlutun með höndum. Nú tókst svo til hjá menntamálaráði, þegar það úthlutaði styrknum til skálda og listamanna, að hvorki Jón Þorleifsson eða Þórunn Magnúsdóttir fengu styrk. Ég tel alveg víst, að það hafi ekki verið fyrir þær sakir, að menntamálaráð hafi ekki fundizt þau verðug styrksins, heldur vegna þess að það hafði mun minna úr að spila en áður hefir verið, og þess vegna þröngur stakkur skorinn með þessa úthlutun. En ég tel samt sem áður, að þetta megi ekki niður falla, og vonast eftir leiðréttingu al þessu, hvort sem menntamálaráð eða Alþ. úthlutar styrknum.

Þá skal ég víkja stuttlega að hvorri brtt. um sig. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þær, því að bæði Jón Þorleifsson og Þórunn Magnúsdóttir eru vei þekkt af öllum landslýð. Jón er, eins og kunnugt er, prýðilega að sér í sinni mennt. Hann bjó sig vel undir þetta starf, kostaði nám sitt af eigin rammleik og hefir orðið að heyja þá baráttu, sem íslenzkir listamenn eru neyddir til, sökum þess hve fáir hafa ráð á að kaupa listaverk hér á landi. Þess vegna er eðlilegt, að listamenn okkar lands eigi við svo þröngan kost að búa sem raun ber vitni um. Ég hygg eftir því, sem ég hefi séð af verkum Jóns og ritdómum um þau, að hann sé mjög vel fær í sinni mennt. Mér hefir verið tjáð af þeim, sem sáu um Íslandsdeild New York-sýningarinnar, að það, sem Jón hafi lagt hönd að verki við undirbúning sýningarinnar, hafi borið vott um sérstakan listasmekk og vandvirkni. Kemur það engum á óvart, sem þekkja til hans. Ég vona, hvort sem þing eða menntamálaráð úthlutar styrknum, þá verði Jóni veitt sú upphæð, sem þessi brtt. fer fram á.

Síðari brtt. mín fer fram á að veita Þórunni Magnúsdóttur skáldkonu 1200 kr. styrk. Íslenzka þjóðin hefir ætíð unnað þjóðlegum fræðum og sagnfræði og hefir mikinn smekk fyrir þesskonar bókmenntum. hað er því engin tilviljun. þó að meðal íslendinga séu margir menn skáldhneigðir. Þjóðinni er það í blóðið borið, og þess gætir mjög víða, ekki einungis meðal fólks, sem hlotið hefir góða menntun, heldur einnig meðal alþýðufólks. Það er vitað, að á öllum öldum hafa verið uppi alþýðuskáld, sem þjóðin hefir unnað fyrr og síðar og gert verk þeirra ógleymanleg. Þessi unga kona hefir skrifað margar bækur, sem allar bera vott um glöggt auga fyrir skáldskap. Persónurnar, sem hún dregur upp í bókum sinum, eru einkennilega skýrar og vel mótaðar. Hún hefir mjög góðan smekk fyrir íslenzku máli, og frásögnin er skýr og lifandi. við eigum mjög fáar skáldkonur, en þær hafa flestar verið góðum hæfileikum gæddar, og ég tel, að Þórunn Magnúsdóttir sé ein meðal þeirra helztu. Þetta er ung kona, sem orðið hefir að vinna fyrir sér við dagleg störf til þess að draga fram lífið. Það, sem eftir hana liggur á bókmenntasviðinu, er því allt unnið í hjáverkum. Menn geta farið nærri um það, hve erfið slík aðstaða er, og þar að auki er mér sagt, að þessi kona muni ekki vera sérlega heilsusterk, og þá er það auðvitað því meiri vandkvæðum bundið, að geta lagt alúð við mikla frístundavinnu. En þrátt fyrir það liggur ekki lítið eftir þessa konu, og mörg atriði í bókum hennar bera þess vott, að hún eigi það skilið, að Alþ. sýni henni þann sóma, að veita henni lítinn styrk. Það gæti orðið til þess, að hún gæti gert betur en hingað til og gefið sig fremur að þessum störfum en áður. Það hefir sýnt sig, að mikils má vænta af þessari ungu konu um framfarir, framsetningu og mái. Það er auðséð af bókum hennar; jafnvel fyrstu bækur hennar báru þess glögg merki, að þessi kona hefir gott auga fyrir íslenzku máli og góðum stíl. Ég vil vænta þess, að Alþ. fallist á að greiða þennan lítilfjörlega styrk. Raunar mætti segja um þessa till., að hún væri mest aðfinnsluverð fyrir þær sakir, hve smátækur ég er og lítilþægur fyrir hönd þessarar konu, að hafa ekki farið fram á meira. En ég vil vona, ef hv. þm. þykir það á skorta, að þá verði einhver til þess að bæta mér þá yfirsjón, og mun ég þá fús til að ljá rífari till. lið. Enda þótt upphæðin sé ekki hærri en þetta, vil ég vænta þess, að sú upphæð dragi þessa konu nokkuð, og að hún geti orðið til þess að hún geti lagt meiri stund á að sinna hugðarmálum sinum hér eftir en hingað til, og virðist það geta orðið mörgum íslenzkum konum og körlum til ánægju að lesa það, sem frá henni kemur. Ég vil vænta þess, að hv. þm. sýni nú höfðingsskap sinn í því að fylgja þessari till. Það er ekki fyrir mig gert, aðeins ræktarsemi við þá konu, sem sýnt hefir mikla hæfileika og dugnað í þeim verkum, sem komið hafa frá hennar hendi.

Ég ætla ekki að fjölyrða um fjárl. né þær till., sem fyrir liggja ég tel það til lítils, þar sem hér eru svo fáir hlustendur, og veit raunar ekki, þótt fleiri þm. hefðu verið viðstaddir, hvort ástæða hefði verið til að fara hér um fleiri orðum.