05.04.1940
Sameinað þing: 14. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í B-deild Alþingistíðinda. (90)

1. mál, fjárlög 1941

*Eiríkur Einarsson:

Ég mælti í gærkvöldi nokkur orð með þeim brtt., sem ég er bendlaður við, og skal ég ekki ítreka það nánar, en það, sem nú gefur mér tilefni til að rísa úr sæti, er brtt. á þskj. 372, II, sem útbýtt hefir verið hér á elleftu stundu. Það er styrkur til Jón Thorarensens prests í Hruna til ritstarfa. Ég beið svo lengi með þessa till. mína, því að ég bjóst við, að aðrir myndu verða til þess að bera fram þessa styrkbeiðni.

Ástæðan fyrir því, að ég tel rétt, að sr. Jón hljóti þennan styrk, er sú, að ég álít, að hann hafi umfram aðra stéttarbræður sína, að þeim ólöstuðum, því ritfimi, að óhætt er að fullyrða, að hann sé rithöfundur að eðlisgáfum, rithöfundur af guðs náð. Hann er mjög áhugasamur og hefir sýnt mikla kostgæfni í að safna ýmsum þjóðsögum og ísl. fræðum og er sérstaklega natinn að finna, hvað feitt er á stykkinu. Auk þessa verð ég að telja, að sr. Jón sé snillingur í framsetningu. Sé það skrumlaust, sem ég hefi hér sagt og ég ætla, þá hefir slíkt alltaf verið mikilsmetið hér á landi, og því meir sem er á liður, eins og allt, sem hefir varanlegt gildi. Ég hefi heyrt glögga menn segja, að rithætti sr. Jóns mætti líkja við rithátt Gísla Skúlasonar á Breiðabólsstað, er skrásett hefir margar beztu sögurnar í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar, og við rithátt Brynjólfs Jónssonar á Minna-Núpi. En um þetta geta þeir sannfært sig, er lesa Rauðskinnu. Sr. Jón hefir gefið út 3 væn bindi af þessu safni og hefir það fjórða í smíðum. Fái hann ekki styrkinn, verður hann að byggja þar af sínum vanefnum, því að hann er fátækur maður.

Sr. Jón naut nokkurs styrks til ritstarfa í fjárl. undanfarin ár, en þegar menntamálaráð úthlutaði styrkjum í vetur, varð hann afskiptur, veit ég til þess, að mörgum þótti það ekki maklegt. Hvað sem um það má segja, hvort úthlutun styrkja til skálda og listamanna eigi að vera í höndum menntamálaráðs eða í höndum Alþ., vil ég fullyrða, að öllum getur yfirsézt. Fyrir tveim árum lét ég fyrstur manna í ljós þá skoðun mína, að það væri ógerlegt fyrir þm. að hafa úthlutun þessara styrkja með höndum. Þetta er enn mín skoðun, en þar með er ekki sagt, að menntamálaráði geti ekki yfirsézt. Ég tel ýmsar ráðstafanir þess ekki réttar. Álít ég og hentast, að þeir, sem þessa úthlutun hafa með höndum, séu þess meðvitandi, að vakað sé yfir því, að hún fari sem réttlátlegast fram. Þegar sá er afskiptur, sem maklegur er styrks, er sjálfsagt að draga það fram í dagsljósið. Hitt getur engum dulizt, að í þeim mikla fjölda manna og kvenna, sem um þessa styrki sækja, eru margir, sem eru miður verðugir, og allt niður í fúskara á þessum sviðum. Það er sitt hvað, að styrkja með einhverjum upphæðum fátæka menn, sem þegar hafa sýnt, að eru góðum rithöfundahæfileikum gæddir og þurfa ekki framar skólunar við, eða að vera að gefa undir fótinn með styrkveitingum fólki, sem aldrei kemst lengra en svo, að því er hjálpað eftir skólabekkjum, þar sem námið getur ekki orðið annað en tilraun til þess að verða rithöfundur.

Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þennan lið. Ég treysti því, að hv. þm. skilji, að sr. Jón Thorarensen er maklegur þessa styrks, enda hefir hann áður notið styrks á fjárl. verði út hlutun styrkja til skálda og listamanna í höndum menntamálaráðs, má það gjarnan sjást, að þessi till. hafi verið borin hér fram, hvort sem hún nær samþykki eða ekki. Læt ég svo staðar numið, þar sem ég vil ekki verða þess valdandi að spilla hinum dýrmæta hvíldartíma manna með lengri töfum.