05.06.1941
Efri deild: 72. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 529 í B-deild Alþingistíðinda. (1136)

18. mál, áfengislög

Frsm. meiri hl. (Sigurjón Á. Ólafsson) :

Það var fátt, sem ég þarf að svara í ræðu hv. frsm. minni hl. Hann tæpti á nokkrum ummælum mínum og taldi, að engar sannanir lægju fyrir um, að innlendir menn hefðu smakkað á réttunum hjá þeim brezku. Ég veit nóg dæmin, allt of margir menn hafa sagt mér frá því persónulega, að þeir hafi drukkið ölið og vita vel, hvernig það er á bragðið. Hann talaði um nokkurt fundið fé, en ég lýsti yfir, að það fundna fé mætti liggja kyrrt í jörð, þar sem það er grafið. Hæstv. forsrh. talaði af persónulegri tilfinningu í málinu, og það kom fram, sem ég vissi raunar áður, að hann er einn hinn sterkasti formælandi þess að leyfa bruggun áfengs öls handa innlendum mönnum, og liggur það að baki samúð hans með þessari ölbruggun. Það sannast nú þegar ótti okkar í meiri hl. n., að bruggunin á sterku öli yrði ekki lögð niður síðar. Það er rétt, að frv. gefur ekki ástæðu til þess ótta, en þessi ræða hefur aukið tilefni til hans.

Það hefur verið talað um, að of lítið væri af skipum til að flytja að hinn enska guðadrykk þeirra, áfenga ölið, svo að við værum siðferðilega skyldugir til að bæta úr. Þetta er ekki með öllu rétt um skiprúmið. Oft hafa, a. m. k. síðastl. sumar, komið hingað hálftóm skip frá Bretlandi. Auk þess hefur verið flutt inn öl, því að þessi nýja framleiðsla hér hrökk of skammt. Ég sé ekki betur en þeir hefðu mátt flytja inn þá smáskammta líka, sem hér voru kokkaðir. Brezku hermennirnir eru úr öllum stéttum þjóðfélagsins og með ýmsar lífsskoðanir, en það þori ég að segja, að meðal alþýðumanna þar er mjög almennur bindindisvilji og vafalaust óskir um, að við gerum ekkert til að auka áfengisneyzlu hersins, ekki sízt þar sem mjög er margt unglinga í setuliðinu, sem læra mundu að drekka á þessu öli. Er það rangt eða óhyggilegt að mæta fremur óskum þessara manna, sem auk þess sýna bezta framkomuna í okkar garð, en hinna, sem opna vilja hér nýja flóðgátt til að svala áfengisþorsta sínum og vekja hann í öðrum? Hæstv. ráðh. skýrði frá þeirri hættu, sem virtist af því stafa að leyfa hermönnum aðgang að vínbúðum okkar, en gerði ekkert úr hættu af ölinu. Ég hef reynslu fyrir því frá yngri árum. Ég gat drukkið mig ölvaðan af öli. Ráðh. taldi. ölið einu leiðina til að koma í veg fyrir ölvun hinna erlendu hermanna og árekstra, sem af henni geta leitt. Verði honum að von sinni, en önnur hefur reynsla okkar Íslendinga verið af svo sterkum drykk sem „stríðsöl“ getur orðið. — Við vitum ekki einu sinni, ef atkvæðagreiðsla færi fram meðal ensku hermannanna, nema þeir yrðu fleiri þar, sem vildu ekki leyfa þetta öl, heldur láta sér lynda hið indæla vatn okkar, sem ég veit þeir lofa og prísa, við þeim þorsta, sem á suma þeirra kynni að sækja þrátt fyrir okkar svala, tæra loft. Hinir, sem heimta áfengið, fá það og það án tolls, segir ráðh. Rétt mun það. En þá er líka margt annað, þarft og óþarft, flutt inn handa hernum án þess að ísl. ríkið fái toll af, þótt háir tollar séu á þeim vörum til innlendra manna. Má nefna matvæli eins og niðursoðna ávexti eða nautnavörur eins og vindlingana, sem ætluðu að verða ríkisstj. mest hneykslunarhellan, vegna þess hve mikið af þeim laumaðist í vasa Íslendinga um skeið, sennilega við vægu verði. Nú er verið að efna til hins sama með sterka ölið, og ráðh. lætur fyrirfram í ljós áhuga sinn fyrir því, að landsmenn fái síðar meir löghelgað leyfi til að neyta þessa öls. Má nærri geta, hve vonin og fyrirheitið um löghelgunina torvelda mótstöðu gegn lagabrotum í þessu efni nú á næstunni, og má vera, að frá sjónarmiði nokkurra formælenda áfengis hér á landi þyki það vel farið, en auðvitað er það ekkí hugsun hæstv. ráðh.

Ég færði rök að því áðan, að ölið væri sennilega minna skaðsamt en aðrir áfengir drykkir, sé það drukkið einsamalt, en þar sem það er tiltölulega ódýrt, er það hentugt til að læra að drekka og auk þess blandað enn sterkari drykkjum, til þess að þeir renni betur niður og menn vari sig ekki á, fyrr en þeir eru ofurölvi. Ofdrykkjan er því langtíðast meira. og minna af öldrykkju sprottin. (BSt: Ekki var það nú í gamla daga.) Ég man vel eftir því, að gamli Carlsberg var vel kunnur hér og mikið drukkinn, og menn byrjuðu á honum. (ÞÞ: Margir á brennivíninu). Það þurfti ekki alltaf brennivín til að fylla uppvaxandi æskumenn, „því gamli, gamli Carlsberg þeim gerði beztu skil“, eins og kveðið var. Þá var ölið gert landrækt með víninu á sínum tíma. Nú á það að vera sönnun fyrir skaðleysi ölsins, að drykkjumenn vilja blanda það sterkari drykkjum, svo að það hrífi betur. Ég held við vitum, að vínhneigðir menn taka „kogarann“, brennslusprittið, þegar annað þrýtur, — engin takmörk fyrir því, hvað þeir geta látið í sig. Hinir hófsamari fara gætilegar. En fíkn sumra manna í sterka áfengið bætir ekkert málstað ölsins, það er jafnskaðlegt fyrir því. Mér skildist á hæstv. ráðh. (HermJ), að með reynslu frá lögreglustjórn sinni hér í bæ í huga teldi hann vínnautn ekki æskilega: Því síður skil ég hann, þegar hann vill stuðla að henni og telur eyðslu manna til þeirra hluta æskilegan tekjustofn fyrir ríkið. Þann tekjuauka vitum við, að það borgar margföldu verði fyrr eða síðar. Hann hélt, að tekjurnar samkv. þessu frv. yrðu einar 200 þús. kr. á ári eða upp undir það, en þó urðu þær ekki nema um 80 kr. á dag. En ríkissjóður mundi sem stendur standa jafnréttur, þótt tekjuvonin, sem hann missti, væri eins mikil og hæstv. ráðh. hélt. Í svo stóru framtíðarmáli er sú upphæð smámunir, miðað við aðrar upphæðir, sem við reiknum nú með, og auk þess a. n. l. sýnd veiði en ekki gefin, þótt færð hafi verið í ísl. krónur að nafni til.

Ég held ég hafi svarað öllum aðalatriðum í ræðu hæstv. ráðh. Sú lífsskoðun, að vínnautn spilli mönnum og mannfélagi, og auðmagn, sem í áfengisframleiðslu er bundið, leiði til ófarnaðar í okkar þjóðfélagi sem víðar, getur ekki haggazt af stundarástæðum, slíkum sem hann bar fram. Verði frv. samþ., mun reynslan því miður skera átakanlega úr því, hvorir hafa réttara fyrir sér. Ég legg til, að málið verði fellt og þar með úr sögunni.