05.06.1941
Efri deild: 72. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í B-deild Alþingistíðinda. (1141)

18. mál, áfengislög

Ingvar Pálmason:

Ég sé mér ekki fært annað en taka til máls, því að eiginlega skil ég ekki nema helminginn af því, sem sagt er. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum að hlusta á ræðu hv. þm. S.-Þ. Eins og hans var von og vísa, byrjaði hann mjög skynsamlega á því að rifja upp sögu bindindis og banns. En þá kom það. í ljós, að hann var orðinn algerlega uppgefinn á þeirri starfsemi, sem hann hafði einu sinni barizt mjög fyrir. Hann virtist orðinn alveg trúlaus á, að hægt sé að útrýma áfenginu, og held ég þó, að hann hafi haft þá trú, og það hlýtur að vera takmark hvers, sem vill ekki vera hálfur í baráttunni gegn drykkjuskapnum. Ég álít, að hver, sem hverfur frá þessu markmiði, sé í rauninni horfinn frá allri bindindisstarfsemi, sem varanleg áhrif hefur. Þannig er um takmark flestra hugsjóna. Menn verða að stefna að takmarkinu, hvort sem þeir ná því eða ekki, án takmarks er viðleitni til einskis eða verra en það. Það er um tvenns konar sjónarmið að ræða í þessu efni, annað að við viljum alls staðar vera á verði gegn aukinni áfengisneyzlu, hitt, að hvar sem við sjáum stein í götu útrýmingar áfengis, viljum við velta honum burt og ekki láta setja þar nýja steina í staðinn, því fleiri steinarnir, því meiri hætta á, að gatan verði aldrei rudd.

Okkur er það ekkert nýnæmi, þótt við heyrum sagt, að drykkjuskapur sé böl. En gallinn er sá, að það er aldrei tekið nógu hreint á málinu. Mér finnst það því einungis vera krókódílstár, sem stuðningsmenn áfengisneyzlunnar gráta yfir böli drykkjuskaparins.

Mín lífsreynsla er sú, að það sé engin leið önnur til út úr áfengisbölinu en að neyta aldrei áfengis. Þannig hef ég farið að og óska meðbræðrum mínum hins sama. Ég vil ekki sætta mig við það, að mönnum sé veitt áfengi hér á landi, íslenzkum, brezkum né frönskum né nokkurrar þjóðar, jafnvel þótt ríkissjóði gefist af því staðgóðar tekjur í bili.

Það eru mér mikil vonbrigði, að sessunautur minn (JJ), sem manna kröftugast barðist fyrir bindindi á sínum tíma, skuli nú mæla hér eindregið með bruggun áfengs öls, til sölu innan lands og útflutnings. Þessi stefna hans er gagnstæð því, sem ég tel, að hljóti að vera grundvöllur undir allri starfsemi í þjóðbætandi átt.

Við vitum, að menn fást til að verzla með allt, ef hagnaðarvonin er mikil. Við þekkjum þess dæmi, að verzlað sé með lifandi vöru, ef það gefur peninga. Við Íslendingar höfum heyrt talað um hvítt mansal. Það gefur peninga, og jafnvel þótt sé rekið í smáum stíl. — Og þótt þessi ölbruggun sé sögð í smáum stíl og aðeins fyrir útlendinga enn, þá er hugsunarhátturinn sá sami: Að vilja selja erlendum þjóðum það, sem formælendur þessa frv. telja skaðlegt og böl okkar eigin þjóð.

Það varð bannlögunum að fótakefli, að bindindismennirnir voru of umburðarlyndir og léðu um of eyru mótbárum andbanninga. Bannmenn töldu atkvgr. 1908 svo sterka, að hægt væri að setja bannlög. En það kom í ljós, sem ýmsa grunaði, að minni hl. var of sterkur, sem á móti stóð og hafði staðið. Stærsta yfirsjón margra bindindis- og bannmanna var sú, að þeir töldu öllu borgið með setningu bannlaganna og slökuðu því á bindindisfræðslunni og baráttunni yfirleitt. Árveknin minnkaði um að vera á verði um bannlögin. Læknabrennivínið flóði yfir landið og spönsku vínin komu. En bindindismenn náðu ekki síðan að hamla upp á móti á róðri hinna, sem vildu veita víninu yfir. Og þó fullyrði ég, að tíminn frá 1915 og þangað til

spönsku vínin komu, sé minnsta drykkjuskapartímabil síðan bindindisstarfsemi hófst hér á landi. Við vitum það, sem lifðum hina fyrri brennivínsöld.

Ég get ekki látið hjá líða að benda á það, að rök andbanninga hafa alltaf stangazt og engin rök verið 1922, þegar Spánarundanþágan var á döfinni, var því haldið fram, að það væri um að gera að fá léttu vínin, þá mundi löngunin í hina sterku drykki hverfa. En sú tilslökun leiddi af sér heimabruggið, eins og hv. þm. S.-Þ. viðurkenndi.

1934 var því haldið fram, að öll bölvunin stafaði af spönsku vínunum, í skjóli þeirra hefði bruggið þróazt, því væri eina ráðið til að útrýma því að fá nú sterku vínin inn í landið.

Og svo fékkst meiri hl. fyrir því að afnema bannið. En það var dálítið einkennilegur meiri hl. Hann fékkst í Reykjavík og nágrenni hennar, þar sem áróður andbanninga var mestur. En allar hinar sýslurnar voru á móti. Allur meginhluti þjóðarinnar var þá á móti því, að áfengisflóðinu væri á ný veitt yfir landið. Sá hluti þjóðarinnar, sem ekki var orðinn gegnsýrður af hinum spillta hugsunarhætti Reykjavíkur. Og svo mun enn vera. Ég tek óhikað undir það, sem hv. þm. Hafnf. sagði, að þjóðin vill ekki sjálf leyfa tilbúning né sölu á sterku áfengu öli.

Þegar því hv. d. sker úr í afgr. þessa máls, þá er ekki allt, sem veltur á því, hvort ríkissjóður fær 30 þús. kr. í toll af því, sem Bretar drekka hér, heldur er hér um að ræða ágreinings- og stefnumál tveggja flokka, tveggja gerólíkra lífsskoðana, sem við vitum, að berjast um þessi mál hér í þjóðfélaginu.

Okkur er sagt, að ef við gefum upp bannleiðina, þá sé ekki nema rétt og sanngjarnt, að ríkissjóður leggi 50 þús. kr. af hagnaði áfengisverzlunarinnar til að ala þjóðina upp í bindindissemi. Það verður vitanlega ekki hægt án uppeldis, en það þarf meira en 50 þús. kr. eða peninga yfirleitt. Það, sem fyrst og fremst þarf, er góður og einlægur vilji meiri hlutans af leiðandi mönnum þjóðarinnar til þess að binda enda á óöld drykkjuskaparins. En það verður ekki gert meðan hið opinbera hefur megintekjur af sölu áfengis til þjóðarinnar.

Svo er nýtt atriði, sem ég hef ekki heyrt fyr r en í þessum umr., að verja eigi þessum 30 þús. kr. til líknarstarfsemi eða rannsóknarstarfsemi. Kannske drykkjumannahælis? Hvar er þá hagnaður ríkissjóðs af tolltekjunum kominn?

En svo ég snúi aftur að hinu, sem mér finnst vera hámark allra óheilinda í sambandi við áfengismálin : Fyrst eru brugguð vín og seld hverjum, sem hafa vill. En síðan er það kölluð göfug menningarstarfsemi að verja örlitlu broti af hagnaðinum til þess að stofna drykkjumannahæli fyrir nokkra af þeim aumingjum, sem orðið hafa áfengisbölinu að bráð. Þetta er þokkaleg afsökun! En það er líka til önnur leið í þessu máli. Og hún er létt og hún er fær, og hún kostar engan neitt fé, engin 50 þús. eða 100 þús. Sú leið er að fara að vilja þjóðarinnar og binda enda á áfengisausturinn. Sú leið er ein fær.

Þegar gengið verður til atkv. um þetta frv., verður um tvö sjónarmið að ræða, tvenns konar afstöðu. Öðrum megin standa þeir, sem vilja velta björgum í leið bindindisstarfsins í landinu. Þeir greiða atkv. með þessu frv. Hinum megin standa þeir, sem vilja halda vörð um bindindisstefnuna og velta hverri völu úr vegi, er á leiðinni verður. Þeir greiða allir atkv. á móti þessu frv. — Ég vona, að þeir verði fleiri, svo fall þessa frv. flýti ferð bindindismanna til sigurs að leiðarenda.