04.04.1941
Neðri deild: 31. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í B-deild Alþingistíðinda. (1227)

76. mál, sandgræðsla og hefting sandfoks

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson) :

Landbn. flytur þetta frv., og vil ég geta þess í upphafi máls, að einstakir nm. hafa óbundnar hendur til að bera fram brtt. við frv.

Gildandi sandgræðslulög eru frá 1923. Nokkrar minni háttar breytingar voru gerðar 1927, en síðan hafa þau verið óbreytt.

Í þau 18 ár, sem liðin eru frá því 1. þessi gengu í gildi, hefur mikið verið starfað að sandgræðslu hér á landi. Ég hygg ekki ofmælt, að meiri árangur sjáist af því fé, er varið hefur verið til sandgræðslu, heldur en af flestum öðrum framlögum til nytjamála hér á landi. Sá árangur er fyrst og fremst því að þakka, að óvenju duglegur og árvakur maður hefur veitt sandgræðslumálunum forstöðu. Hefur honum því orðið ótrúlega mikið úr því litla fé, sem hann hefur haft handa í milli. Heilum sveitum hefur verið bjargað frá að leggjast í eyði. Allmargar jarðir hafa nú verið byggðar upp að nýju, sem áður voru orðnar örfoka og lagðar í auðn. Þetta sýnir, að framkvæmdir hafa verið miklar í þessu efni, enda hefur þetta mál verið í góðum höndum hjá sandgræðslustjóra, sem er þekktur að dugnaði og skyldurækni.

Þetta frv. er byggt á þeirri reynslu, sem hann hefur öðlazt í fleiri áratuga starfi í þágu sandgræðslumálanna. Um áramót í vetur fól forsætisráðherra þremur mönnum, sandgræðslustjóra, Magnúsi Torfasyni fyrrv. alþm. og búnaðarmálastjóra, að semja frv. til laga um sandgræðslu. Þessir menn endurskoðuðu síðan sandgræðslulögin og sömdu nýtt frumvarp. Frumvarpið var síðan lagt fyrir búnaðarþing, sem athugaði það rækilega og mælti eindregið með samþykkt þess. Forsætisráðherra hefur síðan óskað eftir, að landbn. flytti frv. Hefur nefndin gert nokkrar brtt. við það, en flytur það þó í meginatriðum í því formi, sem það hafði.

Í þessu frv. felast 3 meginbreytingar frá eldri lögum.

Sú fyrsta er, að gert er ráð fyrir eignarnámi þeirra landa, sem taka þarf til sandgræðslu. Þó er gert ráð fyrir, að bændur geti óskað eftir, að landið sé tekið til græðslu, þótt það verði ekki tekið eignarnámi. Þessi breyting er gerð vegna þess, að oft hefur komið upp ágreiningur um sandgræðslulönd, þegar löndin voru að byrja að gróa. Bændur vildu þá fá löndin aftur, áður en sandgræðslustjóri taldi tíma til kominn. Þess vegna er það álit sandgræðslustjóra og einnig bæði búnaðarþings og n., að heppilegast sé, að höfuðreglan sé sú, að Sandgræðslan taki löndin eignarnámi. Hins vegar töldu þeir hyggilegt, að bændur gætu fengið lönd sín endurheimt, þegar uppgræðslunni er lokið. Í flestum tilfellum eru löndin lítils eða einskis virði, þegar þau eru tekin til ræktunar.

Þá er annað nýmælið, sem fjallar um að gefa sandgræðslustjóra heimild til að ráðstafa sauðfé, sem þráfaldlega gengur inn á sandgræðslusvæðin og veldur þar tjóni. Það hefur komið fyrir, að kindur stökkva inn í girðingar, þar sem nýbúið er að sá melgrasi, og valda þær oft allmiklum skemmdum. Sandgræðslustjóri á samkvæmt frv. að fá heimild til þess að taka þetta fé og afhenda hreppstjórum, og þeim gefið vald til að lóga því, ef þörf krefur, en auðvitað með því móti, að eigendur fengju fullt gjald fyrir. Hér er ekki átt við aðra gripi en þá, sem þráfaldlega sækja á girðingarnar. Vitað er, að til eru sauðkindur, sem eru þannig, að engar girðingar halda þeim, og verður að vera til heimild til þess að lóga þeim, svo að fáar skepnur geti ekki eyðilagt þær.

Þá er þriðja nýmælið, sem er að finna í 14. —15. gr. frv. og ég tel eitthvert þýðingarmesta nýmælið. Þar er heimilað, með ýmsum takmörkunum þó, að gera ítölu í lönd og jarðir, sem álitnar eru verða fyrir ofbeit og örtröð kvikfénaðar. Í ýmsum sveitum hér á landi er ofsett á löndin af kvikfé. Eigi má þó beita ákvæðum þessum nema með varúð og þar, sem brýna nauðsyn ber til. Það er vitanlega of dýrt að láta löndin eyðast fyrst og svo græða þau á eftir með ærnum kostnaði. Í þessu tilfelli ber að byrgja brunninn, áður en barnið er dottið ofan í.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meir um þetta, en vil leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr?)

1) Ritarinn hefur skrifað svo miklar vitleysur í ræðuna, en hins vegar sleppt svo mörgu, sem ég tók þar fram, að ómögulegt er að leiðrétta að fullu. StgrSt.