06.03.1941
Sameinað þing: 3. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í B-deild Alþingistíðinda. (139)

1. mál, fjárlög

Þorsteinn Briem :

Herra forseti! Margur kannast við sögu skipbrotsmannanna. Skip sökk úti á hafi. En skipverjar komust í bátana. Á tveim bátum tóku menn með sér vistir og vatn og bönnuðu allan farangur annan. En á þriðja bátnum voru gullnemar, nýkomnir frá Klondyke, eða einhverri annarri gullnámu. Tóku þeir með sér eins og báturinn bar af gullsandi, en gleymdu vatni og vistum.

Eigi voru þeir langt komnir, er þeir sáu mistök sín.

„Einn poka af gulli fyrir brauð !“ kölluðu þeir til hinna bátanna.

Ekkert svar.

„Tvo poka gulls fyrir brauðhleifinn,“ hrópuðu þeir aftur. .

Ekkert svar

„Allt gullið fyrir hálft brauð og vatnssopa !“ hrópuðu þeir síðast.

„Eigið þið sandinn sjálfir,“ var svarið. Sagan er af sama toga og munnmælin gömlu um, að einhverju sinni hafi maður selt „Garðinn fríða“, Grund í Eyjafirði, fyrir eitt sauðarlæri, — en bóndinn á Stóra-Kroppi látið af hendi óðal sitt fyrir kindarkropp.

— Eigi að síður flytja þessar sögur oss tímabæran lærdóm. Þær sýna, hvernig allt mat á verðmætum getur breytzt.

Vér höfum hætt viðskiptum „eftir gömlu lagi“ og miðum verðmætin við seðlapappír, en ekki við vættir, álnir og fiska, eins og áður fyrr.

Því fylgir alltaf nokkur áhætta að miða verðmætin við pappírinn, en eigi við nauðsynjar lífsins. Þar af kom hið alranga hlutfall milli pappírsins og þeirra nauðsynja, sem framleiddar voru til lands og sjávar, áður en gengisbreytingin fyrsta komst á fyrir tveim árum, í aprílmánuði 1939.

Allt gerist nú í stökkum. Vér, sem áður stóðum á fjárhagslegum glötunarbarmi, teljum oss nú stórgróðaþjóð.

Útflutningur síðasta árs er talinn nema. 132 milljónum, en innflutningur 72 milljónum, „og þá eru 60 milljónir, í afgang, auk „setuliðsfjárins“, segja þeir, sem mest finnst til um „gróðann“.

Rekstrarafkoma ríkissjóðs er kölluð góð. Verkafólk hefur næga atvinnu og 50% kauphækkun.

Sjómenn fá stundum 100–200–300 króna róðrarhlut og allt eftir þessu.

„Kallarðu þetta peninga,“ sögðu drengirnir við jafnaldra sinn, sem ekki hafði fengið „nema“ 800 króna hlut frá haustnóttum til jóla.

Þeim lærist furðu fljótt að líta venjulega fjármuni smáum augum, sem horfa á stórupphæðirnar. Og sá er nú að verða hugsunarhátturinn meðal þessarar „nýríku“. þjóðar. Eru því margir ósparir á brigzlyrði um kotungshugsunarhátt í garð þeirra manna, sem ekki hafa enn getað áttað sig á ríkidæminu nýja.

Við, sem erum í þeirra flokki, spyrjum nú í mestu einfeldni: Er ekki þetta nýja ríkidæmi vort býsna áþekkt sandinum í sögunni? Vér höfum að vísu ekki gullsald, heldur seðlasand. Í byrjun heimsstyrjaldarinnar fyrri nam seðlaútgáfan 4–5 milljónum. En Íslandsbankinn gamli fékk leyfi til að auka hana smám saman upp í 11 milljónir. Nú í stríðsbyrjun voru 12–13 milljónir í umferð, en á síðastl. ári var seðlaútgáfan aukin upp í 25 milljónir eða rúmlega það. Fordæmi gamla Íslandsbanka hefur verið fylgt trúlega, svo vel sem það gafst, þegar verðhrunið kom.

Ekki vantar því „sandinn“. Þjóðin hefur tvöfalt meiri „peninga“ handa í milli en hún hafði áður. En menn gæta þess ekki, að pappírspeningar eru ekki fjármunir í sjálfu sér, heldur ávísun á fjármuni. En ef fjármunirnir, sem á er vísað, hafa ekki aukizt, minnkar raunverulegt verðgildi seðlanna að sama skapi sem seðlaútgáfan eykst.

Hafa þá fjármunir þjóðarinnar vaxið að sama skapi sem þeir pappírspeningar, er menn hafa fengið milli handa síðastl. ár?

1. Hafa jarðirnar verið bættar umfram venju, eða bústofn aukinn?

2. Hafa húseignir þjóðarinnar aukizt meira en venjulega?

3. Hefur skipastólinn verið bættur eða aukinn sérstaklega síðastl. ár?

4. Eru vörubirgðir landsmanna meiri nú en áður?

5. Eða hafa aðrir fjármunir þjóðarinnar aukizt á árinu?

Svörin við 1.–4. spurningunni liggja beint við :

1: Jarðabætur hafa stórlega minnkað og raunverulegt verðmæti jarðanna því vaxið minna en í venjulegu árferði, ef unnar jarðabætur á s. 1. ári gera þá víða mikið betur en að jafnast á móti fyrningu eldri jarðabóta. En um bústofninn er kunnugt, þó að engar skýrslur séu til.

2. Húsabyggingar hafa nálega stöðvazt bæði til sveita og við sjó, nema þar, sem menn hafa verið áður búnir að afla sér erlends efnis, og er þar því ekki um innflutt verðmæti að ræða á s. l. ári.

Hins vegar er það upplýst, að ef þjóðin hefði getað aflað sér byggingarefnis og annarra nauðsynja í sama mæli sem undanfarin ár, þá mundi verzlunarjöfnuðurinn fyrir það eitt vera 30 milljónum lakari en nú er. Og væri þá horfinn hæsti kúfurinn af „stríðsgróðanum“ í innieignum erlendis.

3. Skipaaukningin hefur verið 670 smálestum minni s. l. ár en árið áður. — Skipastóll landsmanna hefur að vísu verið bættur þann veg, að nokkrar fleytur, sem áður voru ekki sjófærar, hafa nú verið endurbættar, svo að þær gætu flotið í bili. En vart munu þær umbætur í heild sinni meir í en svo, að svari til víðhalds. Aftur er hitt kunnugt, að mörg hinna stærri skipa eru orðin svo gömul, að ekki er um viðgerðir að ræða til frambúðar. Eitt skipið er t. d. orðið hálfsjötugt.

4. Nákvæmar skýrslur um vörubirgðir landsmanna um áramót munu ekki hafa verið gerðar, þó að nokkur athugun hafi farið fram. En víst er, að birgðirnar voru yfirleitt ekki meiri í s.l. árslok en í ársbyrjun. T. d. eru kolaverzlanir höfuðstaðarins nú taldar nær vörulausar. En áður fyrr var það ekki talið búmannlegt að vera eldiviðarlaus fyrir miðgóu.

5. Hvað öðrum fjármunum þjóðarinnar viðvíkur mun helzt verða bent á innieignina í Bretlandi. Er hún að vísu allmikil. Þó þess sé að gæta, að vér höfum hins vegar hvorki getað greitt vexti né afborganir, sem skylt var, af skuldum vorum við önnur lönd en Bretland.

En hver væri sú innieign, ef vér hefðum haldið í horfi um verklegar framkvæmdir s.l. ár? Erlenda, aðkeypta efnið eitt hefði lækkað upphæðina um 30 milljónir.

Ætla má, að við gerðum ekki svo stórum betur en að standa í járnum um greiðslujöfnuðinn, ef á öllum sviðum hefði verið haldið í fullu horfi um verklegar framkvæmdir og greiðslu afborgana og vaxta.

Hver veit svo um raunverulegt verðgildi innieignanna erlendis?

Bretar hafa að vísu lofað að láta það, sem vér nauðsynlegast þurfum af innieign vorri til innkaupa vestan hafs, af hendi við oss á um- . sömdu viðskiptagengi £, þ. e. 4,03 $ á móti £. Svo er þó að skilja sem það loforð sé aðeins bundið við brýnustu og óhjákvæmilegustu nauðsynjar. En hvað er um þær innieignir, sem ekki verða þannig notaðar?

Erfitt mun vera að segja, hvers virði þær eru nú á frjálsum peningamarkaði, og enn erfiðara að spá nokkru um verðmæti þeirra í framtíðinni.

Að gömlu lagi eiga að vera tæpir 4,9 Bandaríkjadollarar í sterlingspundinu. En Íslendingar vestra, er fengið hafa eign sína hér flutta vestur um haf í sterlingspundum, fengu í haust 2,9 Bandaríkjadollara fyrir pundið. Þess er vart að vænta, að mjög standi á stöðugu í frjálsri sölu um gjaldeyri ófriðarþjóða, þó auðugar séu. Og sjálfsagt mundu fleiri vilja selja en kaupa bundnar vaxtalausar innieignir hjá hvaða ófriðarþjóð sem er.

Hvað sem um þessar innieignir verður, þá mundi a. m. k. fáum þykja ótryggara að hafa eignazt jarðabætur, aukinn bústofn, ný hús, meiri vörubirgðir og betur viðhaldin hús og skipastól í þeirra stað, — og það þótt lítið væri umfram það að halda vel í horfi um framkvæmdir og viðhald.

Þá munu menn benda á aukningu sparifjárins. Samkvæmt skýrslum hafa sparisjóðsinnieignir í bönkum vaxið á árinu 1940 úr 79 milljónum upp í 130 milljónir. „Fullar 50 milljónir! Það er þó laglegur skildingur“, segja menn.

En hafa menn athugað, að ekki verður nema einu sinni etin sama brauðsneiðin. Hin raunverulega sparifjáraukning hér heima er sama féð, sem nú liggur bundið og vaxtalaust erlendis. Þjóðbankinn hefur svarað því út í seðlum, eða í reikninga manna hér heima. En sú greiðsla er í rauninni ekki annað en ávísun á hið erlenda fé, sem bankinn tekur þar með ábyrgð á.

En nú er ekki öll þessi sparifjáraukning raunveruleg eignaaukning.

Væntanlega eru innieignir manna á hlaupareikningi þarna með taldar, svo sem venja er. Og munar þar mest um fé verzlana, sem geymt er á hlaupareikningi og vex, án þess þjóðareign aukizt, þegar verzlun er minni en að venju. Þar mun t. d. það fé varðveitt, er venjulega stendur í verzlun með byggingarefni, svo að nefnt sé eitt dæmi af mörgum.

Mikill hluti sparifjáraukningarinnar stafar því ekki af eignaaukningu, heldur af hinu, að fjármagn, sem venjulega er bundið í þjónustu framkvæmdalífsins, hefur verið fengið bönkunum til varðveizlu, af því að vissar greinar starfslífsins hafa stöðvazt, svo sem húsabyggingar og viðhald húsa í landinu.

Enginn maður getur talið það til eignaaukningar þjóðarinnar, þótt sparifé hækki af þessum ástæðum. Hitt er aftur á móti margvitað, að dráttur á viðhaldi húsa og flestra annarra mannvirkja hefur margfaldan kostnað og eignarýrnun í för með sér, þó að oft komi ekki fyrr en síðar að fullu í ljós. Sparifjáraukningin er því síður en svo algildur mælikvarði á efnaaukningu þjóðarinnar, þegar svo stendur á sem nú. .

En svo er eitt, sem sjaldan er athugað við venjulegan lestur hinna opinberu skýrslna um innlögin. Og það er, að þar geta stórar upphæðir verið tví- og jafnvel þrítaldar í aðalupphæðinni.

Þessu víkur þannig víð, að fyrst er innlánsféð lagt inn í einhvern sparisjóðanna. Og á þessu næstliðna ári hefur sérstaklega oft staðið svo á í sparisjóðunum sumum, að þeir hafa ekki þurft á fénu að halda til útlána í bili, vegna kyrrstöðunnar í öllum framkvæmdum. Þá hafa sparisjóðirnir lagt þetta afgangsfé inn í Landsbankann á hlaupareikning, og ef upphæðin stendur þar kyrr yfir mánaðamót, þá er hún þar líka talin með öðru innlánsfé bankans, og er þá upphæðin tvítalin.

En nú hafa ekki allir sparisjóðir sín aðalviðskipti við Landsbankann, heldur Búnaðarbankann eða Útvegsbankann. Nú ber það oft við, að t. d. Útvegsbankinn leggi innlánsupphæðir, sem hann þarf ekki á að halda í bili til útlána, inn á hlaupareikning í Landsbankanum, og ef slíkar upphæðir standa þar yfir mánaðamót, þá kemur féð þrítalið fram í heildarskýrslunum yfir innlögin.

Þetta má að vísu leiðrétta með því að athuga hlaupareikningsféð. En mönnum sést venjulega yfir það, þegar þessum skýrslum er hampað.

Af ýmsum ástæðum má ætla, að hinn tvíeða þrítaldi hluti sparifjárins sé tiltölulega miklu meiri síðastl. ár en áður. Og verða þá sparifjárskýrslurnar enn ótryggari mælikvarði á eignaaukningu þjóðarinnar.

Ekki eru við höndina skýrslur um það, hve mikið er talið með sparisjóðsfé á innláns- eða hlaupareikningi af fé setuliðsmannanna og af innifrosnu fé frá Norðurlöndum eða hinum ófriðaraðilanum. En allir vita, að það fé hefur ekki getað minnkað á síðastl. ári, með því að ekki hefur verið unnt að yfirfæra neitt til þessara landa næstliðið ár.

Nú hefur þegar verið sýnt fram á, að sparifjáraukningin stafar að nokkru leyti af því, að fé, sem áður hefur verið bundið í verzlun með víssar nauðsynjar, er nú varðveitt í bönkum, meðan sú verzlun stöðvast. Í öðru lagi af því, að allmikið af því fé hverfur nú í bili til bankanna, sem áður hefur verið varið til nýrra framkvæmda. Og í þriðja lagi af því, að kyrrstaðan nær einnig til viðhaldsins, en venjan er sú, að hvern þann eyri, sem sparaður er til viðhalds mannvirkjum, verður að greiða margfaldan síðar. — Enn fremur er nokkuð af svonefndu sparifé eign erlendra setuliðsmanna, innifrösin erlend skuld og eyddur forlagseyrir námsfólks erlendis. Og loks er allmikið af sparifénu tvítalið í hinum opinberu skýrslum. En þó er það ótalið, sem þyngst vegur nú í augnablikinu, og það er verðrýrnun sparifjárins.

Ef verðgildi sparifjárins er miðað við þá verðhækkun, sem orðin er á almennustu lífsnauðsynjum frá því í stríðsbyrjun, þá jafngilda þessar 130 milljónir bankainnstæðufjár um 87 milljónum 1. sept. 1939. En ef þeim ætti að verja til innkaupa á byggingarvörum eða öðrum sérstökum nauðsynjum til viðhalds og framkvæmda, mundu þær reynast enn minna virði til innkaupa, eins og nú er komið.

Það er því, þegar alls þessa er gætt, síður en svo algildur mælikvarði á verðmætaaukningu þjóðarinnar, þó spariféð hafi vaxið svo mjög að krónutali sem raun er á. Krónutalan villir mörgum sýn.

Margur þykist nú vel stæður, sem áður taldi sig fátækan, af því að eign hans telst meiri að krónutali, þótt hann sé nú engu efnaðri að raunverulegum fjármunum en áður. Slík sjálfsblekking er bæði ríkinu sjálfu og einstaklingum jafnóholl. Einstaklingarnir verða eyðslusamari og óaðgætnari um efni sín, svo sem glöggt sér merkin í samkomulífi almennings í margmenninu. Eru og allar horfur á, að víða muni sannast, í þessari styrjöld sem hinni fyrri, hin fornu orð Salómons konungs, að „skjótfenginn auður minnkar“. (Orðskv. 13, 11.).

Því verður ekki neitað, að margur hefur efnazt að krónutali, þó að raunverulegri verðmætaaukningu sé óvíða fyrir að fara, nema að því leyti sem útvegurinn hefur, vegna hagstæðs verðlags á ísfiski og þorskalýsi, getað rifið sig úr þeim rekstrartapsskuldum fyrri ára, er svo mjög höfðu hann áður lamað.

Aftur á móti hafa allir hinir mörgu og smáu eldri sparifjáreigendur tapað verðmætum sínum að þriðjungi vegna dýrtíðarinnar, ef til þess fjár þarf að taka nú þegar. Því að til kaupa á almennum lífsnauðsynjum duga nú ekki 60 milljónir meira en 40 áður; og kemur því þar fram 20 milljóna tap, er vex jöfnum skrefum við dýrtíðina í landinu.

Þetta allt ber að athuga, þegar litið er á hag þjóðarinnar í heild.

Ég veit, að nú lítur margur svo á, að vér séum nú orðin stórgróðaþjóð og munum því færir í flestan sjó. Svo litu menn líka á í heimsstyrjöldinni 1914–18. Tvö fyrstu stríðsárin voru oss þá mjög hagstæð, og fyrsta árið jafnvel enn hagstæðara en nú. Innieignir hlóðust upp erlendis. Sparisjóðsfé óx stórlega. Og krónan komst um stund upp fyrir gullverð.

Ég minnist þess, að roskinn og ráðinn íslenzkur hagfræðingur komst þá svo að orði í blaðagrein, að það ætti ekki lengur við að syngja hinn alkunna sálm séra Matthíasar, af því að þar væri í niðurlaginu á það minnt, að vér værum fátækir og smáir. „Fáir erum vér enn að vísu“, sagði hagfræðingurinn, „en fátækir ekki“.

Þetta var á árinu 1916. En hvað stóð sú auðlegð lengi?

Þegar á næsta ári, 1917, byrja vandræðin, svo að það eina ár etur, þrátt fyrir lítinn innflutning, að mestu upp innieignirnar frá fyrri árum erlendis. Og eftir greiðsluhalla síðasta stríðsársins erum vér komnir í erlendar milljónaskuldir, og höfðum vér þó ekki haldið í horfi um búfjáreign né fiskiskipaflota, en stórkostlega kippt aftur um húsabyggingar, viðhald og jarðabætur.

Síðan komu hin eftirminnilegu verðfallsár, þegar erlendu skuldirnar jukust alls hjá ríki, bönkum og einstaklingum um 40 milljónir á 5 árum. Og þrátt fyrir einstök sérstæð góðæri, eins og 1924 og að nokkru leyti 1928, er þó aftur til þessara síðustu stríðsára og næstu ára eftir stríðið að nokkru að rekja orsakir þess, hve atvinnuvegirnir reyndust veikir fyrir, þegar síðara verðhrunið kom, eftir 1930. Svo illa búnaðist oss þá síðari stríðsárin og næstu árin þar á eftir, að vel mætti það vera oss minnisstætt.

En nú eru allar horfur á, að oss fari á sömu lund. Þeir, sem fyrir dagkaupi eða mánaðarkaupi vinna, þykjast nú ef til vill hafa bætt kjör sín, með kauphækkun að þriðjungi eða rúmlega það. Embættismenn og starfsmenn hins opinbera ganga nú í spor þeirra og heimta sams konar launauppbót. Eitt býður öðru heim. En hafa menn reiknað út, hve mikið af þessum launahækkunum hverfur aftur í stighækkandi skatta og gjöld? Ég hygg, að menn geri sér varla ljóst, hvers menn biðja í þessu efni. En þeir munu, að óbreyttri skattalöggjöf, reka sig á það, þegar að gjalddögum kemur, að þó launin séu hækkuð með fullri verðlagsuppbót, þá tekur hið opinbera ekki lítið með annarri hendinni af því, sem rétt er með hinni. Með því að stefna launagreiðslum í hámark er einnig verið að stefna skattgreiðslunum í hámark. En því þyngri gjöld, sem á almenningi hvíla, því meir vex dýrtíðin og knýr fram hækkaða verðlagsuppbót, en sú hækkun knýr aftur fram enn nýja hækkun skattgjalda, og þannig verður koll af kolli sífellt vafið utan af hnyklinum jafnóðum og vafið er upp á hann. Hver almenn kauphækkun hefur vöruhækkun í för með sér. Hún verður að koma fram í samsvarandi verðhækkun. á mjólk, kjöti og öðrum innlendum afurðum. Sú hækkun hækkar aftur verðlagsuppbótina, en þá hækkar enn mjólk og aðrar nauðsynjar, og þar af leiðandi aftur verðlagsuppbótin og svo koll af kolli, svo árangurinn verður enginn annar en síminnkandi verðgildi peninganna.

Ég sé ekki betur en að með þeirri stefnu, sem nú er uppi í þjóðlífinu, þá sé haldið beina leið til gengishruns. Því að það er fjárhagslögmál, að peningagengið út á við hlýtur alltaf fyrr eða síðar að laga sig eftir verðgildi peninganna innanlands.

Til þess að afstýra því lögmáli nægja engir gengissjóðir eða erlendar innieignir til lengdar. Allar tilraunir til þess að halda við röngu gengi verða aðeins svipa á atvinnuvegina, og þar með líka að síðustu á þá, sem undir þeim eiga atvinnu sína. En þó að ég væri á sínum tíma gengislækkun eða gengisréttingu fylgjandi, þá vil ég ekki vísvitandi stuðla að því, að gengi peninganna þurfi að lækka enn meir.

Það mun ekki nema eitt álit um það hjá fræðimönnum á þessum sviðum, að ef hver maður, hár og lágur, heimtar fulla uppbót fyrir vaxandi dýrtíð á verðbólgutímum, þá sé þar með ekki aðeins stofnað til æ meiri dýrtíðar, heldur og að lokum til gengishruns.

Og hverjir eiga þá mest í hættu? Engir aðrir en þeir sjálfir, sem fulla uppbót hafa heimtað.

Það er mikil skammsýni, þegar menn heimta það, sem þeim kemur óhjákvæmilega sjálfum í koll síðar. Og sérstaklega ætti að mega vænta þess af starfsmönnum ríkisins og þeim, sem starfa í peningastofnunum landsins, að þeir spenni bogann ekki hærra en svo, að von sé til, að aftur skapist eðlilegt verðlag, en ekki síhrynjandi gildi þeirra peninga, sem laun þeirra eru greidd í.

Í fjárlfrv. því, sem hér liggur fyrir, eru áætlaðar 1200000 kr. til dýrtíðaruppbótar, og mun þar því gert ráð fyrir fullri verðlagsuppbót. Ég veit, að fordæmin hafa örvað starfsmenn ríkisins til að gera kröfur í þessa átt. En þó er ég ekki í minnsta vafa um, að þeir, sem framsýnastir eru innan þessara starfsstétta, kjósa heldur almenna skattalalækkun en fulla verðlagsuppbót, með framtíðina fyrir augum.

Frv. til nýrra skattal. eru ekki enn komin fram, og vart vitað enn, hvernig þau verða gerð úr garði. Gert mun ráð fyrir, að útvegnum verði ekki gert að greiða skatt af greiðslum þeim, sem fara til þess að borga rekstrartapsskuldirnar sem komið höfðu þeim atvinnuvegi á kné. Það væri grár leikur gagnvart þeim fjölda manna, og ekki allra stórra, er beint og óbeint eiga afkomu sína undir víðgangi útvegsins, ef hann væri ekki a. m. k. þannig studdur til þess að bæta um hag sinn, þá loks er honum skapast skilyrði til þess að komast á réttan kjöl.

En þá má þess og minnast, að hinn höfuðatvinnuvegurinn hefur einnig búið við rekstrartöp frá fyrri árum. Þess má minnast, að engum atvinnuvegi hérlendum er jafnerfitt um að standa undir þungri skuldabyrði eins og landbúnaðinum. Auðvitað er langur vegur frá því, að landbúnaðinum hafi skapazt neitt lík aðstaða til þess að grynna á gömlum rekstrartapsskuldum sem útveginum. En hafi sú aðstaða skapazt hjá einhverjum bændum, að þeir geti vegna minni framkvæmda lækkað gamlar skuldir, þá ættu þær greiðslur að vera skattfrjálsar líka. Væri það hvatning til þess að styrkja þannig framtíðarhag sinn, og mun koma sér vel síðar að hafa þannig létt á gömlum byrðum, þegar ný kreppa byrjar. Er þetta því sanngjarnara, sem það er kunnugt, að vegna þess að bændur fæða verkafólk sitt, greiða þeir að tiltölu meiri tolla af nauðsynjavörum en aðrar stéttir.

Skuldir og skattar hafa verið þyngstu byrðarnar á atvinnuvegunum og allri þjóðinni undanfarin ár. Það er því eðlilegt, að jafnskjótt sem eitthvað sér fram úr sortanum, taki þjóðfélagið að lítast um eftir tækifærum til þess að borga skuldir.

Í sambandi við það gaf ráðuneytið út bráðabirgðal. um heimild til 5 millj. kr. lántöku innan lands, til þess að geta notað vaxtalausa innieign þjóðarinnar erlendis upp í greiðslu á rúmlega 500 þús. sterlingspunda brezku láni frá 1930. Væntanlega verður sú heimild aukin nú á Alþ., til þess að hægt verði að greiða þá skuld að fullu.

Mun öllum vera ljóst, að hin bundna eign vor er ekki trygg. Hins vegar hafa bankarnir tekið á sig ábyrgð á henni með því að leysa hana út hér heima í krónum. Aftur á móti skiptir það ríkið eigi litlu, á hvaða verði sterlingspundin eru reiknuð, þegar skuldirnar eru greiddar.

Skapar það erfiðleika í þessu sambandi, að bankarnir munu hafa byrjað of seint að draga að sér um fullar yfirfærslur þess hluta aflasöluverðsins, sem telja má umfram framleiðslukostnað, því að þegar á síðastl. hausti mun hafa mátt sjá, hvert stefndi í þessu efni, þótt engar ráðstafanir væru gerðar fyrr en í janúar.

Ég skil, að það hefur vakað fyrir bönkunum, að með þessu móti gætu þeir fengið tapskuldir útvegsins greiddar nú þegar, en hins vegar óvíst um afkomu hans fram undan. En þegar einhverjar þvílíkar ráðstafanir þarf að gera, eins og þær að leggja allan þann afgang, sem einn atvinnuvegur hefur umfram framleiðslukostnað sinn, inn á lokaðan biðreikning, þar sem féð er ótiltækt og vaxtalaust og að öllu tekið undan ráðstöfunarrétti eiganda, þó að allar verðbreytingar hins erlenda gjaldeyris séu á hans ábyrgð, þá mundi hafa verið affarasælla að gera þessar ráðstafanir fyrr, en ef til vill ekki eins róttækar. Það mundi hafa reynzt heppilegra aðgera þetta þegar í september eða október, því að þá hefði að líkindum verið unnt að láta útveginn fá til umráða a. m. k. eitthvað af því, sem aflinn seldist umfram framleiðsluverð.

Þá hefði og væntanlega verið hægt að kaupa af útvegnum þessi bundnu sterlingspund á frjálsu gengi til skuldalúkningar í Englandi. Því að væntanlega hefði hann fremur kosið að selja ótiltæka og vaxtalausa innieign sína við því gengi en að eiga hana að nafninu til áfram í þeirri óvissu, sem nú er. Og gat það verið gróði frá því, sem nú er, fyrir báða aðila, ríkið og útveginn.

Í þessu sambandi vil ég spyrja hæstv. ríkisstj.:

1. Eru innstæðurnar í sjálfum Englandsbanka?

2. Var það bein eða óbein krafa Breta, að gengi sterlingspundsins væri haldið föstu gagnvart íslenzkri mynt, þannig að kr. 26.22 væru í sterlingspundi?

Mér skilst, að þær ráðstafanir, sem gerðar voru í janúar s. l. um, að Þjóðbankinn taki ekki ábyrgð á nokkrum hluta þess afurðasöluverðs, sem vér fáum í £, sé óbein yfirlýsing ríkisstj. og Þjóðbankans um, að £ sé ekki öruggt með því gengi, sem á því er nú, móti íslenzkri mynt. En ef svo er, þá er það vissulega rannsóknarefni, hvort annað reynist fært til lengdar en að haga skráningu £ í samræmi við það.

Þetta skiptir svo miklu máli í fleiri áttir en eina, að óhjákvæmilegt virðist, að Þjóðbankinn og ríkisstjórnin taki það, að undangenginni rannsókn, til rækilegrar athugunar. Og mér skilst, að sú rannsókn þurfi að fara fram á undan og jafnhliða því, sem ríkið greiðir £skuldir sínar.

Mér skilst, að þarna sé veikasta virkið í landvörn vorri, og því megi þar sízt sofa á verði, ef vel á að takast.

Að vísu hafa margar góðar og gildar ástæður þegar verið færðar fyrir því, að breyta þurfi erlendu ríkisskuldunum í innanríkislán. En auk þeirra vil ég minna á eina mjög ríka ástæðu, þegar litið er til reynslunnar frá lokum hinnar fyrri styrjaldar. Og það er sú hætta, sem oss getur stafað af of miklum útlánum úr bönkum og sparisjóðum.

Þegar bankar og sparisjóðir liggja með jafnmikið fé sem nú, þá er sú hætta nærri, að eigi sé ávallt gætt þeirrar varfærni í útlánum, sem nauðsynleg er. Enda er nú á orði; að svo sé nú skipt um tón í ýmsum peningastofnunum, að sá þyki nú betri viðskiptavinur, sem biður um lán, en sá, sem leggur inn peninga til ávöxtunar.

Að því er tekur til sjálfra bankanna, þá gefa skýrslur að vísu ekki beinlínis til kynna, að svo sé, því að útlán þeirra voru rúmum 5% minni um s. l. áramót en árið áður. En þá horfði líka margt öðruvísi við en nú. Þá voru flestöll útvegsfyrirtæki í skuldahámarki. Nú munu margar þær skuldir greiddar. Þá var enn nokkur saltfisksverkun í landinu, og batt hún lánsfé um langan tíma. Nú er mestallur fiskur seldur jafnóðum. Þá höfðu menn ráðizt í venjulegar framkvæmdir á árinu, og höfðu því venjulega lánsþörf. En nú á þessu s. l. ári var sú kyrrstaða í ýmsum greinum framkvæmdalífsins, sem mjög hefur dregið úr lánsþörfinni.

Að þessu athuguðu virðist það ekki mikil lækkun, þótt útlán minnki um 5% um áramót. Og það því síður, sem sparisjóðir og aðrir sjóðir munu sízt hafa dregið að sér um útlán.

Á slíkum tímum sem þessum er ekkert hættulegra en lánsfjárútþenslan, ef ekki er haft ríkt aðhald um .það, til hvers lánsféð sé notað. Lánsféð leitar þá í alls konar spekulationir, eins og í næstsíðasta stríði, þegar allir þóttust ríkir og margir gættu sín ekki fyrr en allt var komið á höfuðið. Það verður ekki nú fremur en þá spákaupmennskan, sem gerir þjóðina ríka, heldur sjálfstæð og heilbrigð framleiðsla.

Framleiðslan þarf mikils með, ef hún á að geta yngt sig upp bæði til lands og sjávar og orðið fær um að standast og veita öllum brauð, þegar verðhrunið kemur. Þess vegna þarf að styrkja hana af öllum mætti, en ekki ofþyngja. henni, eins og hingað til hefur verið gert.

Það er alkunnugt, að þegar gull finnst óvænt í jörðu, þá er sem hugarfar manna og lífsvenjur snöggbreytist víða vegu þar út frá. Menn miða þá ekki aðeins við það fé, sem í hendi er, heldur og ófengið fé. Almennt verðlag hækkar og allir þykjast auðugir, af því að nógir peningar eru í umferð. En menn gæta þess ekki.. að gullið sjálft hefur aðeins lækkað í verði eins og sandurinn í dæmisögunni, þar sem brauðið eitt hélt sínu óhagganlega verðgildi.

Fjármunir geta færzt til, þegar svo stendur á. En venjulega vakna menn upp af draumi ríkidæmisins við það, að þeir eru jafnfátækir sem áður.

Í fyrri styrjöldinni breyttist hugarfar hlutlausu þjóðanna og lífsvenjur þeirra á sama hátt sem við gullfund. Og er oss þar kunnast dæmið af sjálfum oss.

Nú örlar aftur á sama hugar farinu. Fyrir stríðið var þjóðin komin í fjárhagslegt skipbrot: En nú hyggst hún að bjarga sér frá borði með gullsand í bát. Hún gerir það því aðeins, að hún muni eftir brauðinu. En brauðið er framleiðslan, og allt, sem hún þarf til þess, að hún geti eflzt og blómgazt sem bezt.