02.05.1941
Neðri deild: 49. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í B-deild Alþingistíðinda. (1515)

112. mál, vátryggingarfélag fyrir fiskiskip

Frsm. (Sigurður Kristjánsson) :

Út af ræðu hv. þm. N.-Þ. vil ég skýra frá því, að það er ekki rétt hjá honum, að honum sé svo ókunnugt um þetta mál sem hann vill vera láta, því að málið var rætt á tveim fundum í sjútvn. Ég skýrði málið í n., þegar ég bað hana að flytja það, m. a., að það væri ósk viðkomandi ráðh., að n. flytti málið. Ég talaði á fundi í sjútvn. og skýrði frá flestu því sama og ég gerði hér við 3. umr. Það þótti ekki ástæða til að bóka um það í n. fyrr en ákvörðun var tekin, hvort n. flytti frv. En hv. þm. færðist undan því að láta afgreiða málið, af því að einn nm. var ekki kominn úr páskafríinu. Ég skýrði frá þessu til þess að hnekkja því, að málinu hafi verið kastað inn í hv. þd. án þess að mönnum í sjútvn. hafi verið kunnugt um það. Þó að málið væri búið að mæta tregðu frá hv. þm. N.-Þ. án þess að hann segði ákveðið, hvort hann væri með því eða móti, sáum við okkur ekki annað fært en að flytja það.

Um það, hvort ekki mætti lækka upphæðina, hef ég það að segja, að féð er ætlað að innborga á 10 árum, og það tímabil er sennilega nógu langt til að leiða í ljós, hvort stofnunin geti komizt í sæmilegan efnahag án þess að allt stofnféð verði greitt. Það er sem sé mál framtíðarinnar að breyta upphæðinni.

Ég held, að hv. 4. landsk. hafi ekki hlustað á umr., og þess vegna hitti hans ræða ekki í mark. Hann óskaði, að málið færi til n. og fengi þinglega afgreiðslu. En málið er að koma frá n., og hv. þm. A.-Sk. var að skýra frá þessu. Að sönnu var þá hv. þm. N.-Þ. veikur, en 4 nm. urðu sammála um að mæla með, að frv. væri samþ.

Hv. 4. landsk. taldi, að það þyrfti að endurskoða starfsreglur fyrirtækisins, svo að ekki þyrfti að kasta í það stórfé, sem hvort eð er mundi ekki nægja. Ég held, að hv. þm. hafi ekki hlustað á þær skýrslur, sem gefnar hafa verið um hag Samábyrgðarinnar. Hún hefur ekki verið rekin svo, að á henni hafi verið stórtap, og ríkissjóður hefur aldrei lagt henni neitt. Um síðustu áramót kom í ljós það, sem ekki hafði skeð í mörg ár, að Samábyrgðin á meira en fyrir skuldum. Og til ríkisábyrgðarinnar hefur ekki þurft að taka. Hins vegar verður stofnunin að hafa mikið starfsfé síðan hún varð fyrir allan fiskiflotann, nema togarana, og hún verður að hafa lán, sem hún hefur tekið hjá Brunabótafélagi Íslands, 140 þús. kr., og væri æskilegt, að hún gæti greitt. En það er ekkert, sem bendir til þess, að hún verði rekin með tapi í framtíðinni, þó að það raski ekki því, að hún verður að hafa mikið stofnfé, ef stór óhöpp koma fyrir. Og það er það, sem verið er að gera með þessu frv.

Ég held nú, að eftir þessar upplýsingar og einkanlega þær, sem ég gaf í fyrri hluta þessarar umr., og þær, sem hv. þm. A.-Sk. hefur nú gefið, þá muni nú í raun og veru ekki vera neinn ágreiningur um þetta frv. Aðeins renna menn blint í sjóinn með það, hvort sú upphæð, sem ákveðin er í frv. til tryggingarstofnana, sé hæfileg, en úr því er ekki hægt að skera nema með rannsókn, og þar af leiðandi er líka ákveðið, að stofnféð skuli innborgað á 10 árum.