02.05.1941
Neðri deild: 49. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í B-deild Alþingistíðinda. (1516)

112. mál, vátryggingarfélag fyrir fiskiskip

Gísli Guðmundsson:

Það er ekki ástæða til þess fyrir mig að lengja mjög þessa umr. um þetta mál. En það er rétt, að ekki sé neinn misskilningur um það, hvernig málið hefur verið undirbúið.

Það er ekki rétt hjá hv. 5. þm. Reykv., að ég hafi sýnt neina tregðu við að flytja þetta mál. Ég tel það ekki rétt að orða það svo. (SK: Það má orða það um). Já, ég hygg, að hv. þm. ætti að orða það um. En þannig er þetta mál upp komið, að það mun rétt vera, að hv. þm. minntist á þetta mál snemma á þingi í sjútvn., en síðan um það leyti, sem hv. þm. A.-Sk. var fjarverandi, og óskaði hann þá eftir, að það yrði tekið til meðferðar. En ég fór þá fram á, að því yrði frestað að athuga málið sérstaklega í n., þangað til þm. A.-Sk. yrði kominn. Málið var þá ekki bókað í gerðabók n. á þeim fundi, svo ég leit þannig á þetta, að n. hefði orðið við þeirri ósk minni að fresta málinu þangað til allir nefndarmenn væru viðstaddir. Síðan hefur verið óskað eftir því, að ég gerðist meðflm. að frv., en ég sagði hið sama, að ég vildi, að flutningi málsins væri frestað þangað til allir nm. í sjútvn. væru viðstaddir, enda var þá ekki nema um 1 eða 2 daga að ræða. Þess vegna kom það mér mjög á óvart, þegar þetta mál var nú flutt af meiri hl. sjútvn. Hefði það verið flutt af 2 eða 3 mönnum, t. d. þeim 5. þm. Reykv., þm. Ak. og þm. Ísaf., þá hefði ekkert verið við það að athuga, en hitt er ekki fyllilega rétt, að telja, að málið sé flutt af meiri hl. sjútvn.

Það er einnig rétt, sem ég sagði áðan, að fundur sá, sem haldinn var í sjútvn. á miðvikudagsmorgun, var mér ekki boðaður öðruvísi en svo, að það komu skilaboð til mín kl. að gangi 12, hvort ég gæti komið. En slíkt er ekki að boða fund, þegar fundur er haldinn á degi, sem annars er ekki reglulegur fundar dagur.

Annars geri ég ráð fyrir því, að það muni verða tími til þess að athuga þetta mál í n. í Ed., og mun ég þess vegna ekki gera það að neinu kappsmáli, að það sé frekar athugað í n. hér, því að ég vil á engan hátt tefja málið.

Hins vegar gæti verið vafasamt um einstaka atriði og hvort ekki hefði átt í þessu sambandi að flytja einhverjar breyt. á 1. Samábyrgðarinnar. Það er nú svo, að hv. 5. þm. Reykv. hefur nú beitt sér fyrir nokkrum breyt. á 1. um tryggingarfélög fyrir vélbáta, sem ég hygg, að muni vera til nokkurra bóta í þessu efni og muni heldur orka í þá átt, að þessum stofnunum gangi betur að bera sig en hefur verið að undanförnu, og er það náttúrlega spor í rétta átt, og vitanlega er það svo, að að því þarf að stefna, að Samábyrgðin geti staðið á eigin fótum.