08.05.1941
Efri deild: 55. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 746 í B-deild Alþingistíðinda. (1763)

25. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Frsm. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti! Þetta frv. kemur frá hv. Nd. Það var flutt þar í sinni upphaflegu mynd af hv. þm. N.-Þ. Efni Þess var þá, að orðin í 14. gr. l. um síldarverksmiðjur frá 1938: „þó ekki yfir 25%“, féllu niður.

Þetta snertir það ákvæði gildandi 1., að síldarverksmiðjur skuli greiða ½% af andvirði seldra afurða til sveitar- eða bæjarsjóða, þar sem þær starfa. Þó þannig, að gjald þetta er takmarkað á þá lund, að það má aldrei nema meira en 25%, eða ¼ hluta niðurjafnaðra aukaútsvara á því ári. Það er þessi heimild, sem hv. flm. vill nema burt. Hann færir rök að því í grg. frv., að þetta ákvæði snerti einkum síldarverksmiðjuna á Raufarhöfn og komi sérstaklega hart niður á viðkomandi hreppsfélagi, Presthólahreppi. Hann vill nú, að þessi ½% skuli gjaldkræfur í sveitarsjóðinn, án tillits til þess, hvaða tekjur honum berast í aukaútsvörum.

Í Nd. var sú breyting gerð á upphaflega frv. um þetta atriði, að í stað orðanna : „þó ekki yfir 25%“, í 14. gr. l. nr. 1 frá 1.938, komi: þó ekki hærra en nemur samanlögðum útsvörum gjaldenda það ár. Þetta virðist, rétt útlagt, þýða það, að afurðagjaldið megi vera jafnhátt niðurjöfnuðum útsvörum, eða 50% af öllum tekjum hreppsins, króna á móti krónu. Þetta virðist vera allmikil rýmkun á ákvæðum l., eins og þau eru nú. En þegar tillit er tekið til, hvernig ástatt er í þeim eina hreppi, þar sem þetta kemur nokkuð óeðlilega niður, þá hefur sjútvn. þessarar d. ekki séð ástæðu til að gera ágreining við shlj. álit sjútvn. Nd. og hefur því fallizt á, að þetta haldist eins og það var samþ. í Nd.

Þessi hluti ræðu minnar snýr að frv. þessu, eins og það var upphaflega, og þeirri breytingu, sem Nd. gerði um það atriði.

En svo kom til sögunnar nýtt atriði, sem hefur alltaf áður verið ákaflega mikið „princip“ atriði hér á Alþingi. — hað er sú íhlutun, sem ríkisvaldið hefur um það, hvort einstaklingar megi reisa síldarverksmiðjur hér á landi, sbr. 1. gr. l. nr. 1 frá 1938.

Þetta litla frv. er í meðferð Nd. orðið að svo stóru máli, að ég tel, að fyrir stuttum tíma hefði þótt öldungis fráleitt að bera hér á Alþingi fram brtt. við það ákvæði l., sem hv. Nd. hefur nú blátt áfram afnumið. Þetta sýnir bezt, hvað tímarnir breytast og hvað mat okkar er nú öðruvísi á ýmsum atriðum en það var og hefði getað orðið, ef atvikin hefðu orðið önnur.

Ég hef lítið heyrt um það rætt, og blöðin hafa ekki á það minnzt, að hér væri verið að afnema þann hefðbundna rétt ríkisvaldsins til að hafa hönd í bagga með því, hvað margar síldarverksmiðjur eru byggðar, heldur er það með einum pennadrætti afnumið algerlega hljóðalaust. Satt að segja þá er það svo, að fyrst ríkisvaldið lagði út í að byggja síldarverksmiðjur, þá hefur talsvert margt þótt mæla með því, að það sama vald tryggði sér íhlutun um þau, hvernig og hvar slíkar verksmiðjur væru settar upp af einstaklingum. Hins vegar er því ekki að neita, að um þetta hafa verið miklar deilur áður fyrr. Það er ekki svo að skilja, að það hafi verið einróma álit manna, að ríkinu bæri að hlutast til um þetta í sjálfu sér, og það hafa enn fremur orðið árekstrar, og þeir mjög alvarlegir, einmitt út af þessu ákvæði, milli ríkisvaldsins og einstaklinga í landinu og milli bæjarfélaga og ríkisvaldsins. Sjútvn. þessarar d. hefur fallizt á, að það væri sennilega heppilegast, ekki sízt með tilliti til þess, sem skeð hefur í þessu verksmiðjubyggingamáli á undanförnum árum, að þetta ákvæði væri numið burt. Það verður þá ekki lengur hneykslunarhella, hvorki fyrir einn eða annan, og ég tel mjög ólíklegt, að nokkurt tjón hljótist af því, að það verði látið niður falla. Hér er um að ræða svo stórfelld atvinnufyrirtæki, að það er næsta ótrúlegt, að menn hlaupi út í að byggja verksmiðjur án þess að það sé gert á nokkurn veginn tryggum grundvelli, enda hefur það alltaf verið svo, að íhlutun ríkisvaldsins hefur orðið til að tefja, og má nefna dæmi um, að hún hafi orðið til þess að tefja slík mál til skaða og af því hafi hlotizt tjón, en ég held, að ekki sé hægt að sýna fram á, að þetta ákvæði hafi þann tíma, sem það hefur staðið í 1., þ. e. a. s. allt fram á þennan dag, fyrirbyggt neitt, sem síðan hefur sýnt sig að vera ógætilegt flan í byggingarmálum slíkum sem þessum. Af þessum ástæðum verð ég að segja fyrir mitt leyti, að ég er feginn því, að þetta ákvæði hefur verið numið burt.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar. Sjútvn. leggur sem sagt til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.