24.05.1941
Sameinað þing: 20. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í B-deild Alþingistíðinda. (190)

1. mál, fjárlög

Frsm. samvn. samgm. (Gísli Sveinsson) :

Herra forseti! Eins og kom fram í framsöguræðu hv. frsm. fjvn., hv. 2. þm. Árn., þá hefur ein brtt. frá hv. fjvn., eftir því sem á þskj. greinir, verið á nokkrum misskilningi byggð, sem nú er leiðrétt, sem sé Dýrafjarðardragferja. En samgmn. tóku upp í sínar till. viðbót á þessu ári til flóabátaferða, og sést það á þskj. 303, að samvinnun. samgöngumála hefur lagt það til, að flóabátastyrkurinn yrði hækkaður um 29 þús. kr. Þessi upphæð er óviðkomandi því, sem greint er á sama þskj. (303) og á að gilda fyrir 1942, þar sem lagt er til, að flóabátastyrkurinn fyrir árið 1942 verði kr. 136300, og er sú upphæð þegar komin inn á fjárl., 13. gr. B.2; var sú upphæð samþ. við 2. umr. fjárl. En í þeirri upphæð er aðeins rekstrarstyrkurinn. En í viðbót á þessu ári er ætlazt til, að greiddur verði styrkur til flóabáta, þó að ekki hafi það komizt í fjárl., 29 þús. kr. fram yfir það, sem nú er á fjárl. fyrir yfirstandandi ár. Á 2. bls. í nál. á þskj. 303 er gert ráð fyrir 2500 kr., sem ríkissjóður leggi fram í eitt skipti fyrir öll til smíðis dráttarbáts (til ferjudráttar) á Dýrafirði, og er það kaupfélag Dýrfirðinga, sem heldur ferjunni úti. Þessi till. samvinnun. samgöngumála er 500 kr. hærri heldur en till. hv. fjvn. um þetta, sama efni á þskj. 594,7, við 13. gr. B, þar sem gert er ráð fyrir 2000 kr. til byggingar á þessum ferjubáti, og auk þess á þessi brtt. fjvn. við framlög 1942, en till. samvinnun. samgöngmála á við þetta ár. Það er því rétt, sem hv. frsm. fjvn. tók fram, að þessi brtt. á 7. lið þskj. 594 megi falla niður og um hana þurfi ekki að greiða atkv., því að þessu er borgið á annan hátt.

Um annað held ég, að ég þurfi ekki að tala viðkomandi starfi samgöngumálanefnda, sem komið hafi fyrir eftir að þær luku starfi og allt var tilgreint við 2. umr. fjárl. Í þessum brtt. hv. fjvn. er þar af leiðandi ekkert; sem samgöngumálanefndir hafa talið ástæðu til að taka sérstaka afstöðu til, hvorki í heild né í einstökum atriðum, frekar heldur en einstakir nm. sem þm. taka afstöðu til þeirra.

Þá skal ég leyfa mér, ekki í umboði n. eða sem frsm. hennar, heldur sem þm., að taka fram nokkur atriði, þau sem ég vildi, að fram kæmu viðvíkjandi nokkrum brtt., sem nú munu prentaðar og útbýtt er og sumpart eru frá hv. fjvn. og sumpart frá einstökum hv. þm. og þar með mér. Ég skal geta þess viðvíkjandi brtt. hv. fjvn. á þskj. 594,12; við 14. gr., þar sem ætlað er til kennslu í setningafræði og málfræði nútímaíslenzku 2000 kr. Ég tek undir það með hv. frsm. fjvn.. að enda þótt menntmn. Nd. hefði tekið málið að sér og ætlazt til þess, að heimild yrði veitt óákveðið til þess að greiða kostnað af þessu starfi eins og hann yrði á næsta ári, og hv. fjvn. hefur tekið það upp að setja þetta í ákveðna upphæð til ákveðins manns, sem að vísu var talað um, að tæki að sér þetta starf, þá sé ég ekki ástæðu til, þess að taka neina afstöðu gegn þessu, þó að það sé ekki alls kostar í samræmi við það, sem menntamálanefndir hugsuðu sér samkv. ósk hæstv. kennslumrh. Miklu fremur tel ég þetta vera spor í rétta átt, og beri að hallast að þessu með þeirri skýringu, sem hv. frsm. fjvn. gat og ég vil undirstrika, að þetta starf verði sett á stofn af ríkisstj. og að það verði að rækja þetta starf og ríkisstj. verði að sjá fyrir því að greiða milli þinga það, sem óhjákvæmilegur kostnaður verður fram yfir þessar 2000 kr. af þessu starfi. Ég tel, að þar sem hæstv. kennslumrh. hefur áhuga fyrir þessu — og þetta er beint komið frá háskólanum — og ég tel það fullnægja því, sem menntmn. vilja og hafa viljað, að styðja að því að þetta mikilvæga starf verði sett á fót, þá beri að gera það á þennan veg og kosta það svo sem með þarf til þess að það geti haldizt uppi. Það gerist þá fyrst og fremst með því, að fjárveiting verði samþ. til þess með því fororði, að ríkisstj. verði að greiða það, sem á vantar til þess að þessu sé fullnægt.

Ég vil þá víkja með nokkrum orðum að brtt., sem ég og þrír aðrir hv. þm. höfum leyft okkur að bera fram á þskj. 619,XIV, þar sem lagt er til, að við 15. gr. komi nýr liður: Til samningar íslenzkrar samheitaorðabókar 5000 kr. Menntmn. Nd. hafði fengið þetta mál til meðferðar, og n. féllst á, — mér er óhætt að segja öll n. féllst á það, að þetta væri þess vert, að það yrði tekið til greina. Hins vegar varð það ekki úr, af ýmsum ástæðum, að n. flytti brtt. um þetta, heldur er nú brtt. flutt af meðlimum menntmn. nema einum, sem á sæti í fjvn. og er frsm. hennar og þess vegna taldist ekki algerlega frjáls að því að vera á slíkri brtt., þó að hann gæti væntanlega á hana fallizt. Ég býst einnig við, að svo sé um þessa brtt., að fyrir hv. fjvn. liggi erindi, sem um hana fjalla, og að hv. fjvnm. hafi óbundnar hendur um sín atkv. í þessu máli. En í þessu máli liggur þannig, að komið hefur fram umsókn frá Birni Sigfússyni magister um styrk til þess að vinna að samheitaorðabók íslenzkrar tungu. Síðan hafa komið fram yfirlýsingar frá fleirum um þá nauðsyn, sem liggi til grundvallar samningu slíkrar orðabókar. Einnig hefur hæstv. kennslumrh. látið í ljós, að hann væri sérstaklega fylgjandi þessu og vildi styðja að því, að þetta starf yrði af hendi leyst. Við höfum nú komið með brtt. um þetta, en höfum ekki greint neitt nafn, sem skiptir ekki máli, því að ef einn maður er til þessa fær og ekki hafa komið fram upplýsingar um, að aðrir menn mundu vinna að þessu en sá maður, sem ég nefndi, þá býst ég við, að hann mundi standa næst því að taka að sér verkið. En það eru ekki aðeins meðlimir menntmn. og hæstv. kennslumrh., sem telja þessa brýna þörf, heldur er mikill áhugi vakandi fyrir þessu meðal menntamanna landsins og ýmissa annarra, með því að menn finna sárt til þess, að þá vantar einmitt slíkt safn, sem aðgengilegt sé öllum, sem hafa ekki aðeins skyldu til, heldur líka vilja til þess að skrifa íslenzka tungu rétt og þjált og þannig, að talað og ritað mál fari sem bezt. Ég býst við, að ég tali hér fyrir eyrum, sem eru opin og vakandi fyrir þessu, sem ég geri ráð fyrir, að hv. þm. séu, og skal ég þá geta þess, að hér liggur fyrir yfirlýsing frá 24 kennurum og menntamönnum, þar sem þeir lýsa því áliti sínu, að það megi ekki dragast úr þessu að gera samheitaorðabók íslenzkrar tungu. Þetta bréf, sem dagsett er 25. marz s. l., vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp. Það hljóðar svo:

„Það er álit vort, að ekki megi dragast úr þessu að gera samheitaorðabók íslenzkrar tungu. Til þessa liggja ekki aðeins hin almennu rök, að flestar menningarþjóðir þurftu og fengu slíkar bækur um móðurmál sín á 19. öld og hafa síðan haldið þeim við á einn eða annan hátt.

Nú eru sérstakar, brýnar ástæður að koma betur í ljós en fyrr, ýmist í sambandi við varhugaverða orðfæð, misnotkun á merkingum orða og óíslenzkt málfar eða í sambandi við auðgun og þróun tungunnar á mörgum sviðum. Þessi orðabók þarf að ná yfir málið allt, og fyrir utan frumkröfur, sem fullnægja skal í samheitaorðabók, ættu þar m. a. að vera sem flestar algengar útlenzkuslettur og málvillur merktar viðvörunarmerkjum — við hlið hinna merkingarskyldu. orða, sem um er að velja til að nota í staðinn.“

Þarna eru tekin fram höfuðatriði málsins. Það er ekki aðeins þörf á þessari samheitaorðabók til þess að stuðla að því, að menn kunni að fara með tunguna og nota viðeigandi orð, heldur einmitt forðist að viðhafa jafnvel algeng orð, sem illu heilli eru komin inn í málið, sem eru slettur og prýða ekki móðurmál vort, heldur níða. Það er tvennt, sem þarf að vinnast með þessu, að málið verði í munni og penna landsmanna sem hreinast og þjálfaðast og einnig hitt, að forðast málfar, sem ekki er íslenzka og ekki er samboðið okkar tungu að nota. Ég vænti, að ekki þurfi frekar að mæla með þessari brtt. Allir menntmnm. eru með þessari brtt. og sjálfsagt allir, sem fallast á rökin fyrir brtt.

Viðvíkjandi þessum tveimur brtt., sem ég hef getið, hefur hv. fjvn. gengið inn á brautina rétta samkv. þeim skýringum, sem ég hef nú gefið. Og síðari brtt. varðar það, sem við teljum einna dýrmætast til þess að halda við þjóðrækni og þjóðlegu fari Íslendinga, og segja mætti halda við Íslendingum sem sérstakri þjóð í sérstöku landi með þau séreinkenni, sem gera þá að sérstakri þjóð, og þegar um slíkt er að ræða, er tungan efst á blaði.

Skal ég svo víkja að nokkrum sérbrtt., sem ég er meðflm. að eða hef áhuga fyrir.

Brtt. 619,I er svo lítil tillaga á þessum tímum, þegar vaðið er í fjárveitingum á fjárl., þannig að þær skipta ekki hundruðum og ekki þúsundum, heldur tugum og hundruðum þús., að ég tel alveg sjálfsagt, að hún verði samþ., þar sem ég og hv. þm. N.-Þ. (GG) förum fram á, að leiðrétt verði það, sem við teljum, að misfarið hafi hjá hv. fjvn., þar sem hún ákvað 200 kr. til hvors af tveimur hreppum í læknisvitjanastyrk. En til samræmis við aðra hreppa, sem á fjárl. eru, ættu þessir hreppar að fá 300 kr. hvor. Nú er verið að setja löggjöf um sérstaka aðferð við þessar styrkveitingar, sem sé l. um læknishéraðasjóði, en það varð að gera þessum hreppum, sem komnir voru á skrá hjá hv. fjvn., ef. svo mætti að orði kveða, fulla úrlausn. Hitt er annað mál, þó að þeir verði látnir bíða, sem settir voru áður, en eru nú orðnir of lágir, eftir að krónan féll, hvað þá á þeim tímum, sem nú ríkja. Ég vænti þess, að allir hv. þm. greiði þessari litlu till. fúslega fylgi sitt.

Ég vil þakka hv. fjvn. fyrir, að hún hefur með 1. brtt. á þskj. 644 fallizt á að taka upp till. um fjárframlag til Meðallandsvegar, sem er í þjóðvegatölu, en ekkert fé veitt til, en vegamálastjóri hefur talið sannsýnilegt, að vegurinn fengi þessa fjárhæð til að byrja með, og er þar ekki farið fram á neina ósanngirni. Þessi till. kom fram við 2. umr., en var tekin aftur þá og sömuleiðis tvær aðrar till., um Síðuveg og Mýrdalsveg. Vona ég, að hv. fjvn. fallist á þá litlu víðbót, sem færir þessa vegi til samræmis við aðra vegi viða um land.

Ég þarf svo ekki fleira fram að taka að sinni um þessar till. Hér eru fleiri till., sem aðrir munu mæla fyrir, sem ég hef gerzt meðflm. að og eru að sjálfsögðu allar góðar. Vona ég og, að menn líti á og athugi alla málavexti, og efast ég þá ekki um, að þeir muni komast að þeirri niðurstöðu, að þær eigi fullan rétt á sér.