26.05.1941
Sameinað þing: 21. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í B-deild Alþingistíðinda. (207)

1. mál, fjárlög

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti! Ég flyt hér eina brtt. á þskj. 619, við 23. gr., sem er heimild handa ríkisstj. til að greiða ekkju Vilhjálms Þorsteinssonar stýrimanns eftirlaun eftir svipuðum reglum sem greidd eru eftirlaun til ekkna stýrimanna hjá Eimskipafélaginu, og þessi fjárhæð verði svo greidd af Skipaútgerð ríkisins.

Þannig er háttað um þessa ekkju, að maður hennar hafði um margra ára skeið unnið hjá Skipaútgerð ríkisins, og hans endalok urðu þegar hann var í þjónustu sömu útgerðar, því að eins og kunnugt er, fórst hann í höfn í Englandi s. l. vetur, þegar hann var að bjarga mönnum frá drukknun. Þessi maður hefur unnið hér sem stýrimaður við strandsiglingar um 20 ára skeið. Og ég held ég leyfi mér að halda fram, þar sem ég þekki hvorar tveggja, strandsiglingar og aðrar siglingar, að á þeim mönnum hvíli ef til vill meiri vandi heldur en mörgum öðrum farmönnum. Það er mikið starf og þjóðnýtt, sem þessir menn inna af hendi fyrir land sitt, að sigla hér kringum strendur landsins allan ársins hring, eins um myrka nótt sem bjarta, undir öllum þeim erfiðu skilyrðum, sem við eigum við að búa, og fylgja strangri áætlun með hlaðin skip af vörum og yfirfull af fólki o. s. frv. Og ég held það leiki ekki á tveim tungum, að síðan við fengum strandsiglinarnar í okkar hendur, sé landslýður nokkru betur tryggður og ánægðari með þann skipakost og ekki síður mannval, sem annast þær siglingar.

Vilhjálmur heitinn var einn af þeim mönnum, sem vann hylli allra, sem með honum voru, hvort heldur voru yfirmenn eða aðrir samstarfsmenn eða ferðamenn. Er slíkt ekki lítill kostur á opinberum starfsmanni, sem þarf að hafa samneyti við svo margar þúsundir manna.

Eins og kunnugt er, hefur Eimskip myndað sjóð til þess að tryggja alla þess yfirmenn með eftirlaunum, og sá sjóður nýtur að sjálfsögðu styrks árlega af hálfu Eimskipafélagsins og vex ár frá ári: Vilhjálmur heitinn byrjaði sem stýrimaður hjá því félagi, meðan það hafði strandferðirnar með höndum. En eftir að Skipaútgerð ríkisins tók strandferðirnar 1930, tók hann við starfi þar. Nú finnst mér ekki óeðlilegt, að Skipaútgerð ríkisins, eins og Eimskipafélagið, leggi ekkjum sinna stýrimanna nokkurt fé, eins og ég fer fram á í þessari till. Við höfum nokkur fordæmi um þetta efni, því að í 23. gr. fjárl. eru ýmsar ekkjur látinna stýrimanna, sem gert er ráð fyrir að greiða mismunandi stórar upphæðir. Ein upphæð er þar nákvæmlega hliðstæð, til ekkju Þórólfs Becks, sem var skipstjóri á fyrri Esju. Hann féll frá á bezta aldri, og ekkjan hefur notið styrks, sem er jafnhár og. hjá Eimskipafélaginu. Því tel ég, að Alþingi megi fallast á þá röksemd, sem i`elst í minni till.

Í öðru lagi má benda á, að Alþ. samþ. fyrir nokkrum árum að greiða eftirlaun einum stýrimanni, sem varð öryrki á þann hátt, að hann missti sjónina. Hann hafði unnið alllengi hér við land að strandferðum, einkum hjá Eimskip. En það þótti rétt, að ríkið tæki að nokkru leyti þátt í þeim styrk, sem honum var veittur.

Um till. mína vil ég að lokum taka fram, að konan, sem um er að ræða, er ekki heilsusterk og á erfitt með að stunda nokkra vinnu, sem kostar nokkurt líkamlegt erfiði. Enn fremur er mér kunnugt, að efnahagur er enginn slíkur, að hægt sé að lifa af í náinni framtíð, því að þótt ekki sé ómagafólk mikið, hafði Vilhjálmur foreldra sína ellihruma á sínu framfæri, þar til þau féllu frá. Ættu þessar ástæður að stuðla hver með annarri að því, að ekkja þessi mætti hljóta eftirlaun.

Ég vildi í sambandi við þessar umræður beina fyrirspurn annaðhvort til formanns fjvn. eða frsm. hennar, út af till. á þskj. 604, 5. till., sem er um slysavarnir. Fyrirspurnin er, hvort hér sé ekki alveg tvímælalaust að ræða um styrk til Slysavarnafélags Íslands. Ég skal játa, að þetta er nákvæmlega eins orðað í fjárlfrv. Vítanlegt er, að Slysavarnafélagið hefur sótt um styrk fyrr og síðar og sækir nú um hækkaðan styrk. Vil ég þakka hv. fjvn. fyrir góðan skilning á óskum þessarar stofnunar, þar sem hún leggur til að veita allt að helmingi hærri upphæð en er í fjárlfrv., sem er upphæð undanfarinna ára. En ég tel nauðsynlegt, að það komi skýr yfirlýsing, annaðhvort frá formanni fjvn. eða frsm., að hér sé um Slysavarnafélagið að ræða, svo að það sé tvímælalaust.