21.05.1941
Efri deild: 65. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 870 í B-deild Alþingistíðinda. (2108)

110. mál, húsmæðrafræðsla í kaupstöðum

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson) :

Það hefur nú verið upplýst af hæstv. forsrh., að það er einhver skrifstofustjóri í stjórnarráðinu, sem hefur gert eins konar þýðingu, ekki að ég held allt of nákvæma, á reglum þeim, sem í 1. eru um húsmæðraskóla í sveitunum, með samningu þessa frv. Það er þá m. a. skiljanlegt, hvernig á því stendur, að hér er gert ráð fyrir heimavistarskóla. Aftur er það óskiljanlegt, að sá góði skrifstofustjóri skyldi ekki geta hitt á að telja upp eins og vanalega er gert í l. um skóla, hvað eigi að kenna þar. Og ég get ekki gert svo lítið úr þessu, eins og hæstv. ráðh., að þetta eigi að vera reglugerðaratriði. Ef maður t. d. hefur eitthvert almennt orðalag yfir matreiðslu, sauma, prjón, vefnað o. þ. l. og kallar þetta einu nafni handavinnu, þá er vel hægt að láta fleira koma undir orðið handavinna heldur en það, sem tilætlunin er að kenna á húsmæðraskóla og konur geta lagt stund á og hafa gert, svo sem útsaum, útskurð og jafnvel glerbrennslu. En ég álít, að þetta eigi að fyrirbyggja, að slíkt og þvílíkt geti verið kennt á slíkum skólum sem þessum, með því að taka skýrt fram það, sem menn vilja, að kennt sé á þessum skólum. Þó að ég hafi haldið því fram, að það megi bæta við námsgreinum með reglugerð. Þá álít ég, að reglugerð eigi ekki að öllu leyti að innihalda, hvað kennt skuli í þessum skólum.

Ég er hissa á því, að hæstv. forsrh. skuli misskilja brtt. mínar á þskj. 581. Ég hefði viljað, að hæstv. ráðh. hefði skýrt frá því, hvernig stóð á því, að þeim, sem undirbjuggu málið, datt ekki í hug að taka til hliðsjónar gagnfræðaskólana um það, hvað ríkið skuli leggja fram og hversu mikið bæirnir. Ef hæstv. ráðh. hefði gert þetta, þá hefði hann séð, hvað í mínum brtt. felst. Í gagnfræðaskólal. er tekið fram það hlutfall, sem bærinn annars vegar og ríkið hins vegar eiga að leggja fram á mann fyrir hvern nemanda, og það hefur orðið um 300 kr. Og t. d. í Ingimarsskólanum, þó að hann hafi ekki haft nema tæpar 300 kr. á mánuði á nemanda, miðað við 7 mánaða kennslu, Þá hefur hann getað lagt mikið fyrir af þessum tekjum í húsbyggingarsjóð. Þess vegna, eins og þetta er orðað í minni brtt., þá er það ákveðin peningaupphæð, sem hverjum þessara skóla er ætlað að fá í árlegan styrk, sem er 3/5 hlutar stofnkostnaðar og rekstrarkostnaðar úr ríkissjóði, auk þess sem ákveðið er eins og í frv., hvað kennslugjöld skuli vera há. Og ef einhver skóli er svo eyðslusamur, að hann eyði meiru en þessu, sem lagt er til í frv. um framlög úr ríkissjóði, þá verður hann að leita til bæjarins um framlag. En t. d. Ingimarsskólanum og fleiri gagnfræðaskólum hefði ekki þýtt það að fara til bæjarstj. og biðja um aukaframlag. En í frv. er gert ráð fyrir óbundnum kostnaði. Því að það er fyrst tekið fram, hvað ríkið leggi til, en svo er það látið óákveðið, hvað bærinn leggur fram. Og þar sem skólanefnd eftir frv. á að vera að 4/5 hlutum kosin af bæjarstj., og ef bærinn vill vera sparsamur, þá er hægt fyrir þessa fulltrúa bæjarins að segja. Við eyðum ekki meiru til þessara skóla en lagt er fram úr ríkissjóði. — Ég hef nú gert grein fyrir, hverju munar á því, sem hæstv. ráðh. vill í þessu efni. Ég vil láta gera ráð fyrir ákveðinni upphæð frá bæjarsjóði, en hann vill láta bæinn vera í ótiltekinni bakábyrgð gagnvart eyðslunni.

Mér finnst undarleg þessi viðbót um nýjan kennaraskóla fyrir kvenfólkið, sem sett er hér í þetta frv. svona beint út í bláloftið. Hér kemur nýtt pappírsgagn, sem mun vera sett til þess að gera eins konar sambræðslu í þessum húsmæðraskólamálum. Þetta er, eins og frv. allt, í góðri meiningu gert, en heldur losaralegt.

Mér virðist hæstv. ráðh. heldur ekki hafa tekið alveg eðlilegt tillit til þess, að það þarf allt annars með viðkomandi húsmæðraskólum í bæjum heldur en í sveitum. Það, sem er að þessu frv., er, að þær konur, sem hafa áhuga fyrir þessu máli, hafa í undirstöðuatriðum rangt fyrir sér, því að þær byggja á höfuðmisskilningi á því, hvernig þessar stofnanir eigi að vera, með því að gera ráð fyrir, að þessar stúlkur eigi að vera í heimavist, sem eru á húsmæðraskólum í kaupstöðum. Af því leiðir, að ef þetta er framkvæmt þannig, þá verður manni að spyrja: Hvað hafa ungar stúlkur upp úr því að vera á heimavistarskóla hér í Reykjavík? Þær þvo sitt

eigið herbergi, búa um sitt eigið rúm. Annað hafa þær ekki upp úr því. En ég býst við, að þessa æfingu geti þær fengið fyrir því, þó að þær væru ekki í heimavist.

Ég hafði hugsað, að hæstv. kennslumrh. mundi einmitt beita sér fyrir því, að þessi alveg óforsvaranlega afgr. þessa máls í hv. Nd. yrði leiðrétt hér. En hann hefur ekki gert það. Ætlar hann sennilega að bíða eftir því að laga 1., þegar búið er að sjá, hversu ófullkomin þau verða, ef þessu frv. er ekki breytt til bóta.