18.04.1941
Neðri deild: 38. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 936 í B-deild Alþingistíðinda. (2400)

94. mál, girðingar til varnar gegn útbreiðslu sauðfjársjúkdóma og fjárskipta

Gísli Guðmundsson:

Ég vil við þessa umr. aðeins gera fáar aths. við málið. Ég vildi í fyrsta lagi spyrjast fyrir um það hjá hv. landbn., hvernig eigi að skilja ákvæðið í 4. kafla frv., 24. gr. 3. tölul., Þar sem svo er ákveðið, að þeir . fjáreigendur, sem hafa orðið fyrir fjárfækkun af völdum sjúkdóma, þegar niðurskurður hefur farið fram, fái í nokkur ár á eftir uppeldisstyrk og sömuleiðis vaxtastyrk vegna þeirrar fjárfækkunar, eftir þeim reglum, er mæðiveikinefnd setur. Ég vildi spyrjast fyrir um það hjá hv. frsm., hvort þetta eigi við um þann niðurskurð, sem þegar hefur farið fram hjá nokkrum fjáreigendum t. d. vegna garnaveikinnar, en síðan hvort þetta eigi við þá fjárfækkun, sem orðið hefur af völdum þess niðurskurðar, sem farið hefur fram þarna hjá nokkrum fjáreigendum án þess um almennan niðurskurð hafi verið að ræða. Í öðru lagi vildi ég gera þá aths. almennt um þetta mál, að mér finnst, að þegar þessi l. væru sett, þá væri nokkuð athugunarefni, hvort ekki ætti að steypa saman í einn lagabálk öllum þeim ákvæðum, sem sett hafa verið um þessi mál frá því Alþ. tók þau fyrst til meðferðar. Mér virðist, að a. m. k. sé ástæða til þess, þegar ný 1. eða nýjar reglur eru settar um þessi mál, að athuga, hvort samræmi er milli þeirra ákvæða, sem sett verða, og þeirra ákvæða, sem áður hafa verið sett viðkomandi þeim sauðfjársjúkdómum, sem áður hafa verið hér á landi.

Það er einnig annað, sem ég vildi gera aths. við. Ég veit ekki, hvort svo er um fleiri hv. þm., en mér virðist, að þm. fái í raun og veru of litlar upplýsingar um þessi mál til þess að taka um þau ákvarðanir. Það eru nokkur ár síðan fyrst kom til, að farið var að hafa meiri afskipti af þessum sauðfjársjúkdómum. Á fyrsta stigi málsins var það svo, að það voru mjög takmarkaðar upplýsingar, sem voru fyrir hendi um þau, og um framkvæmdir varð lítið. En nú hefur verið unnið að þessu máli nokkur ár viðkomandi hinum eldri búfjársjúkdómum, bæði að rannsóknum og líka að framkvæmdum nýrrar löggjafar, sem Alþingi hefur sett og falið sérstakri nefnd.

Mér finnst eiginlega, að það hefði verið ástæða til þess, að þegar þetta mál er tekið fyrir hér í hv. d., þá hefðu þm. átt að vera búnir að fá betri upplýsingar um það en gefnar eru í þessu frv. Þess vegna vildi ég skjóta því til hv. landbn. og hæstv. landbrh., hvort ekki væri ástæða til þess að koma því svo fyrir, að Alþingi hefði haldið fund um þessi mál, sem væri komið þannig fyrir, að þeir menn, sem hafa þessi mál til framkvæmdar, hefðu tækifæri til að vera viðstaddir og gefa alþm. nákvæmar upplýsingar, áður en lengra væri farið.

Ég vildi skjóta þessu fram til athugunar fyrir landbn. um leið og ég vonast eftir svari við fyrirspurn minni.