10.06.1941
Efri deild: 74. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 961 í B-deild Alþingistíðinda. (2499)

140. mál, bankavaxtabréf

Magnús Jónsson:

Ég býst við, að hv. meðnm. minn, 1. þm. Eyf., hafi beint spurningu sinni meðfram til mín. Náttúrlega bý ég ekki yfir neinum æðri vísdómi, og væru aðrir ef til vill færari um að svara fyrirspurn hans. En ég get endurtekið það, að þetta er ekki nýtt. Ég býst við, að þetta sé gamalt í 1. um deildina, sett til tryggingar því, að bréf yrðu ekki keypt yfir skráðu gangverði. Ef um sviksemi væri að ræða, væru dómstólarnir varla í vafa um, hvernig þeir ættu að dæma í málinu. Á verðbréfum hefur jafnan verið fast verð, t. d. hefur Landsbankinn keypt bréf föstu verði. Annars ættu menn að hafa minnstar áhyggjur af þessu nú, þegar í uppsiglingu er stofnun til að skrá verð þeirra. (BSt: Ég spurði, hvort hægt væri að kalla þetta opinberlega skráð gengi). Já, ekki síður en það, sem verið hefur til þessa. Annars vil ég ekki fara út í erjur um þetta. Landsbankinn kvaðst vilja gera tilraun í þessa átt og varaði heldur við, að þingið færi að gera það. Ég vildi þess vegna, að þingið færi ekki nú að hlaupa hér fram fyrir skjöldu.

Ég vil þó gera nokkra aths. við það, er hv. 1. þm. Eyf. taldi það ósamkvæmni hjá mér og Landsbankanum að draga úr því, að sett yrðu l. um stofnun. kaupþings, þar sem Landsbankinn ætlaði sjálfur að koma sér upp skráningarstofnun. Þetta væri eins og hjá drengnum, sem vildi láta banna öðrum krökkum að drepa flugurnar, af því að hann vildi fá að gera það sjálfur. (BSt: Já, einmitt.). Um það frv. til i. um kaupþing, sem hér kom fram, get ég sagt það, að mér finnst það mjög varlega og hóflega samið þó að sumt í því orki nokkuð tvímælis. En stofnun kaupþings á þennan hátt væri þó ekki hið sama og ef Landsbankinn kæmi upp skráningu þessara bréfa. Landsbankinn og Útvegsbankinn eru að vísu skyldaðir til að vera kaupþingsfélagar, en ekki annað. Ef einhverjir „spekúlera“, bera bankarnir enga ábyrgð og draga sig að líkindum út úr þessum viðskiptum. En ef Landsbankinn hefði þetta með höndum sjálfur, hefði hann mikla ábyrgð. Og hann hefur möguleika til að stöðva spekúlation. Ef menn ætla að spenna bréfin upp úr öllu valdi, hefur hann umráð á svo mörgum bréfum, að hann gæti haldið verðinu niðri með því að bjóða þau því verði, sem hann telur sanngjarnt. Eins væri, ef menn ætluðu að lækka verðið mjög, gæti hann sagt: Ég er kaupandi að bréfum við betra verði. Þetta tvennt er því ekki hið sama. Ef nota mætti svo hátíðlegt orð, vildi ég segja, að hjá Landsbankanum gæti komið fram nokkur fórnarlund, þar sem hann segði sem svo : Á ég ekki að ríða á þetta hættulega vað á svo örðugum tímum sem nú eru?

Mér þótti vænt um, að meðflm. minn lét í ljós fylgi sitt við hina till. einnig, þótt mér ynnist ekki tími til að bera hana undir n. áður en fundur hófst. — Ég hygg, að málið muni ekki tefjast neitt, þó að þessi brtt. sé samþykkt.