07.04.1941
Neðri deild: 32. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 969 í B-deild Alþingistíðinda. (2524)

70. mál, Háskóli Íslands

Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Það er allt það fæsta í hv. d, til að tala um alvarleg mál og áríðandi, en hvorki ég né hv. frsm. geta ráðið við það, og verður því að tala yfir þeim höfðum, sem hér eru, þótt þau séu eigi allmörg.

Hv. 2. þm. Árn. mælti hér nokkur orð um frv. þetta og lýsti yfir því, að hann væri því andvígur í ýmsum greinum, þó að hann hefði leiðzt til að stuðla að því, að það kæmi hér fram á vegum menntmn. Hann bar fyrir sig, að hæstv. stj. hefði í bréfi sínu þann 27. febr. þ. á., er hún sendi menntmn. þetta frv., ekki sérstaklega óskað eftir, að n. flytti frv. Tilgangurinn var samt auðvitað sá, enda hefði annars verið til lítils að senda málið til n.

Í fyrsta lagi var það svo, að háskólarektor fór fram á það, að stj. flytti þetta mál. Stj. hafði haft þetta mál til meðferðar fram undir þing, og sá ráðh., sem hér átti hlut að máli. hafði lofað rektor því, að málið skyldi verða flutt. Nú kemur þetta bréf til nefndarinnar, en þessi venjulega setning um að óska þess, að málið verði flutt, hefur af einhverjum ástæðum fallið þar niður, en það ber að skýra það eftir því, sem hefur verið upplýst á öðrum vettvangi, en ekki eftir þeim geðþótta, hvað menn vilja leggja í bréfið eða ekki leggja í það.

Nú sé ég, að kominn er einn maður í viðbót inn í d. Er það hv. form. og frsm. n., og er það vel, því að við hann vildi ég tala. Vil ég þá nokkuð víkja að efni málsins. Er það eitt sjónarmið, sem ég vil láta koma betur fram, sem að vissu leyti vakti fyrir n. og ótvírætt hefur vakað fyrir þeim, sem að þessu máli stand.

Það má benda á það, að allir þeir, sem stundað hafa nám þessi ár við viðskiptaháskólann, eru stúdentar, og þó var enginn slagbrandur fyrir dyr settur um, að ekki mættu þar allir að komast, sem vildu. En það vill nú svo til, — sem ég tel þó raunar alls enga tilviljun —, að stúdentar einir ganga nú á þennan skóla. Og eru þeir nú komnir svo langt, að þeir ættu, eftir þeim reglum, sem gildandi eru við háskóla, að taka próf í vor. En hvers konar próf er það? Er það próf, sem veldur því, að á þá, sem það hafa, verði litið sem menntaða menn í þeirri grein? Er það próf, sem veitir vottorð um, að leyst hafi verið af hendi prófraun, er sanni, að maður hafi tileinkað sér þennan lærdóm, sem þarna er kenndur? En nú er þessi viðskiptaháskóli, sem við höfum komið upp hér hjá okkur til reynslu með það fyrir augum, að það sýndi sig, hvort sú menntastofnun verðskuldaði að fá fastan sess með öðrum menntastofnunum þjóðarinnar, þessi viðskiptaháskóli er nú í húsnæðishraki. Hann átti ekki þak yfir höfuð sér, þegar hann var stofnaður. Þess vegna varð það að samkomulagi, að hann skyldi helzt eiga inni í háskólabyggingunni. í öðru lagi átti hann í hraki, eins og hann var stofnaður, um hæfa kennara. En það hefur nú æxlazt svo, að ýmsir góðir menn hafa fengizt til að kenna við þennan skóla. Og maður hefur komið til þess að kenna við þennan skóla með fulkomið próf í hag- og viðskiptafræði, sem er Gylfi Þ. Gíslason. Þessi maður hefur ráðizt við þessa deild, hina væntanlegu hagfræði- og viðskiptadeild háskólans. Kennslumálarh. hefur skipað hann fastan kennara við lagadeildina. Og hann er, eins og sumir hv. þm. hljóta að vita, og ég geri ráð fyrir að hv. fjvnm. viti það, að hann er nú þegar kominn á föst laun sem fastur kennari við þessa deild, skipaður af ríkisstj.

Nú er það orðið einróma álit háskólaráðs og margra annarra, þar á meðal þessa aðalkennara við viðskiptaháskólann, og einnig er það álit ríkisstj., að heppilegast væri að sameina þennan viðskiptaháskóla Háskóla Íslands, þ. e. a. s. innlíma hann í háskólann og gera þessa lærdómsgrein að fastri háskólagrein, sem ekki aðeins mundi gefa henni þann byr og festu, að framtið hennar hér hjá okkur mundi verða tryggð til frambúðar, heldur mundi líka með því mega spara mikið fé. Því hitt yrði miklu kostnaðarsamara, ef kennsla færi fram í þessari grein í sér stökum skóla, sem ekki væri deild í Háskóla Íslands, því að þá yrði að byggja sérstakan háskóla utan við háskólann fyrir þessa menn, sem á viðskiptaháskóla stunduðu nám. En svo háttar um hagfræðikennslu, að þar er kennd lögfræði að nokkrum hluta. Og með því að sameina viðskiptaháskólann við háskólann, mætti einnig sameina hagfræðikennslu hins fyrrnefnda skóla við kennslu í lagadeild háskólans. Og væri svo gert, þá er það gefið, að það yrði ný starfsgrein lagakennarans við háskólann að kenna í hagfræðideildinni það, sem þar þarf að kenna.

Nú er mér óskiljanlegt, hvers vegna menn eru á móti þessu. Því að það er hinn mesti uppsláttur fyrir okkur, að þessi lærdómsgrein hefur verið tekin svo hátíðlega, að þessi viðskiptaháskóli hefur þótt reynast svo vel, að það hefur verið allra manna mál, sem hér að standa, að hann ætti að taka sem grein inn í Háskóla Íslands. Þess vegna furðar mig á, að þeir menn skuli vera til, sem ekki eru ánægðir með að taka þetta mál svo föstum tökum, sem hér er lagt til, að gert verið. Í sambandi við þetta mál hygg ég, að hafi komið til greina einhver óbeit á mönnum og stofnunum, sem sízt má koma til greina að ráði að neinu leyti gerð um manna í slíku máli sem hér er um að ræða. Og hæstv. Alþ. verður að fara í þessu efni eftir því, sem telst eðlilegt og viðeigandi, þegar á allt málið er litið.

Þessi breyt., sem hér er farið fram á að gera á háskólal. frá 1936, með 1. gr. frv., er, að einu orði verði bætt inn í, nefnilega orðinu „hagfræðideild“, og er það nánar skýrt, að það er bæði hagfræði og viðskiptafræði, sem hin nýja systurdeild á að hafa með höndum. Þó að breyt. sé ekki gerð með fleiri orðum, er það nægilega skýrt. Enda snúast öll skilríki þessa frv. um það, hvernig eigi að koma þessu fyrir, sem menn vilja breyta hér.

Það er ekki aðeins, að það sé álit háskólaráðs o. fl., sem ég þegar hef getið, að sameina beri viðskiptaháskólann Háskóla Íslands, heldur eru þeir, sem eru í stúdentaráði, allir sem einn maður á sama máli um það, að þetta verði gert, og hafa farið fram á það. Hafa þeir og látið ýmsum hv. þm. í té greinargerð þeirra, sem í alla staði er prýðileg frá þeirra hendi. Þeir óska þess, að þeir fái að njóta þess að geta tekið próf á næstunni frá fullkominni laga- og hagfræðideild. Þeim er ljóst, að þeir sem lærdómsmenn í þessari grein lafa í lausu lofti, ef þeir hafa ekki skilríki fyrir því, að þeir hafi stundað nám við viðurkenndan skóla, sem kallar sig háskóla.

Það hefur komið fram tillaga eða uppkast að reglugerð fyrir viðskiptaháskólann. Ríkisstj. stendur ekki að henni, og hún hefur ekki fengið staðfestingu. Ég hygg, að ýmislegt í henni sé rangt. (PHann: Hvað er rangt í óstaðfestri reglugerð?) Það getur verið rangt frá skýrt. Það ætti ríkisstj. að vita um.

Aðalbreyt. með þessu frv. felst í 2. gr. frv., sem er að mínum dómi varhugaverð. Ég er sammála þeim mönnum, sem telja, að byrjað sé á öfugum enda með því að fara nú að takmarka aðgang að æðstu kennslu í landinu, eftir að þeir, sem álítast til þess hæfir að fá að ganga í menntaskóla, eru komnir svo langt, að þeir gætu fengið þess vegna aðgang að háskóla. Ég tel, að aldrei hefði átt að takmarka aðgang manna að menntaskólum landsins, og að því leyti sé þetta einnig spor í öfuga átt, eins og það var það við menntaskólann. Við þá takmörkun, sem hefur verið gerð viðkomandi inntöku nemenda í menntaskólann hér í Reykjavík, hefur það verkað þannig, þó að merkilegt sé frá sjónarmiði þeirra, manna, sem haldið hafa mest í þetta, að fólk með prýðilegum námsgáfum, sem komið hefur utan úr sveit, þaðan, sem menn eiga erfiðast með að koma til náms hingað til Reykjavíkur, hefur orðið útundan fyrir miðlungsfólki að námsgáfum, sem átt hefur heima hér í bænum, sem hefur fyrir auðæfi sakir verið með aukakennslu þrýst inn í skólann. En efnisnámsmenn, sem utan af landi hafa komið til Reykjavíkur, hafa ekki haft ráð á því að kaupa aukakennslu ofan á annan kostnað til þess að komast að skólanum. Það má segja það að það er ákaflega einkennileg verkun, sem þessi ákvæði hafa haft, að bægja þannig efnilegum ungdómi sveitanna frá tækifærum til mennta, samtímis því, sem þessi tilhögun hefur sópað inn í skólann öllum mögulegum mönnum úr kaupstöðunum, sérstaklega hér úr Reykjavík.

Á meðan svo er, að það þykir rétt að takmarka þetta — og það má segja, að nú á tímum megi gera tilraunir með ýmislegt, líka um það, hvort takmarkanir sem þessar í hinum æðstu skólum ættu við og bæru tilætlaðan árangur, þá mun ég ekki setja þetta atriði 2. gr. frv. fyrir mig það mikið, að það yrði því til fyrirstöðu, að ég ljái frv. atkvæði mitt eins og það er. En ef 1. gr. nær ekki fram að ganga, er ekki að mínu áliti ástæða til að fara að hrófla að öðru leyti við þeim ákvæðum háskólal., sem nú gilda.

3. gr. er aðeins afleiðing af öðrum breyt. frv. Ákvæði 4. gr., þar sem gert er ráð fyrir að breyta 22. gr. háskólal., tel ég réttmæta breyt. Hins vegar hygg ég, að orðið íþrótt sé ekki rétt notað þarna. Ég met hv. formann menntamálaráðs mikils í þeirri grein, sem hér mun átt við með þessu orði. En það er eins og menn skilji ekki lengur orðið íþrótt, að það þýðir ekki æfingu eða því um líkt, heldur, að einhver er íþróttarmaður ber að skilja þannig, að hann sé listamaður í einhverri grein.

Ég vil skjóta því svona fram, hvort ekki mundi rétt vera, sem ég flutti, að kennslumrh. hafi ekki óskað þess að setja þetta ákvæði inn í frv., en þarna sé það komið af hvötum hv. formanns menntamálaráðs, og þá hafi hann sennilega lofað því að flytja frv. En þó að stúdentspróf megi ekki fást nema til handa þeim mönnum, sem „íþróttir“ hafa stundað, þá gæti slíkt ákvæði í 1. sem þetta orðið hreint sem hvert annað „humbug“, sem menn vita um, en gera ekki að neinu atriði til þess að hindra framgang mála, sem að öðru leyti eiga rétt á sér að fá fram að ganga. Það má reyna þetta, eins og að mínum dómi má reyna þá takmörkun, sem ég áðan ræddi um.

Ég legg með því, að frv. gangi til 2. umr. Og ég vil vænta þess af hv. formanni menntmn., ef hann vill breyta einhverju í frv., þá hafi hann heldur hraðann á, því að nú fer að halla þingi, er páskar eru liðnir hjá.

Hvað snertir bréf það, sem eftir uppástungu eins manns í menntmn. var skrifað utanrmn., er það að segja, að bréfið var á þann hátt, að ef n. þóknaðist að láta í té umsögn sína, þá væri henni til þess opin leið. En ýmsir álitu, að utanrmn. hefði ekki með þetta mál að gera. Það var eitthvað borið undir fáa menn þeirrar n.