14.06.1941
Efri deild: 80. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1182 í B-deild Alþingistíðinda. (2780)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti! Ég skal gjarnan verða við tilmælum hæstv. forseta að fara ekki langt út í einstök atriði þessa máls nú við 1. umr. Enda þóttist ég skilja, að leyfðar mundu verða almennar umræður um það við 2. umr. Samt get ég ekki látið hjá líða að vekja eftirtekt hv. d. á því, að eins og þetta frv. er útbúið, þá beinist það nokkuð freklega í þá átt að skattleggja afurðir þeirra, sem sjávarútveg stunda.

Þessi þráður hefur löngum verið uppistaðan í málinu frá því fyrsta, er frv. var sýnt þm. í stuðningsflokkum stjórnarinnar, og enn þá er útflutningsgjaldið annar megin þátturinn. Hinn meginþátturinn er launaskatturinn. Úr honum hefur verið dregið allmjög, síðan frv. var fyrst sýnt. En út í þá hlið fer ég ekki frekar. En ég vil vekja athygli hv. dm. á því, að þessi hugsun mun hafa vaknað í huga ríkisstj. fyrir löngu, að skattleggja enn á ný útveginn og enn fremur vinnu vegna setuliðsins til framdráttar hagsmunum, sem aldrei er vel ljóst, hverjir eru né hverja þörf hafi þessa stuðnings. En sú hliðin verður heldur ekki rædd af mér í þetta sinn.

Ég hygg, að þessi hugsun hafi sérstaklega vakað fyrir hæstv. ríkisstj. á þeim tíma, þegar stórgróði var á útgerðinni. Enda þótt sá gróði rynni að vísu ekki nema að litlu leyti í vasa sjómanna né smáútvegsmanna, heldur að mestu leyti til þeirra, sem flutningana höfðu með höndum, hvort heldur þeir voru togaraeigendur eða réðu. yfir öðrum allstórum skipum til fiskflutninga. Þessi hugsun frv. á rót sína að rekja til ástands og álits, sem hafði skapazt, meðan miklu stórvaxnari ágóði var af sölu sjávarafurða en nú er eða líklegt er, að verði í náinni framtíð.

Við vitum svona nokkurn veginn um það, hvaða verð framleiðendum er ætlað að fá framvegis fyrir sjávarafurðir. Bretar hafa nú gert tilboð, sem er á sumum vörum svo lágt, að tæp- . lega borgar sig að framleiða þær á þeim verðgrundvelli, en aðrar vörur, sérstaklega ísfiskurinn, svo mikið lækkaðar í verði, að þær tegundir, sem mest fer fyrir, eins og t. d. þorskur og ýsa, lækka um 30% frá því verði, sem algengast var nú á vertíðinni. Þegar þorskurinn, sem borgaður var með 50–55 aurum kílóið, á nú að greiðast með 35 aurum, þá munu hv. þm. sjá, að hér er ekki farið með neinar ýkjur.

Það má segja, að það sé saltfiskurinn einn, sem sæmilegt verð er boðið í, en þó er ekki vitað, hvort um verulegan hagnað getur orðið að ræða af þeim fiski, þegar fram í sækir, vegna vaxandi framleiðslukostnaðar.

Mönnum er farið að skiljast það úti um land, að Bretar muni ætla að taka alla fiskflutninga til Englands í sínar hendur.

Nú vil ég benda hv. fjhn., sem ég býst við, að fái þetta mál til meðferðar, á það, að mótmæli eru að berast hingað til Alþ. frá veiðistöðvum víðsvegar um land gegn þessum skatti á sjávarafurðir. Mótmæli hafa þegar komið frá þessum stöðum: Akureyri, Ísafirði, Norðfirði, Seyðisfirði, Húsavík, Ólafsfirði, Dalvík, Steingrímsfirði, Patreksfirði, Grenivík, Keflavík og Vestmannaeyjum, auk þess, sem önnur stærri samtök útvegsmanna hafa mótmælt fyrir sitt leyti. Allir þessir aðilar mótmæla einum rómi svo háu útflutningsgjaldi sem hér er stefnt að.

Ég, sem er einn af sexmenningunum, sem svo voru kallaðir í hv. Nd., vil taka það fram hér eins og þegar í n. um mína persónulegu afstöðu, að ég gæti ekki fellt mig við svo hátt álag á útfluttar afurðir, og hlyti að standa á móti þeim, þar sem ég hefði frétt, hvert útlit væri nú með sölu á þeim, og því yrði að stilla öllum heimildum í þessu skyni í hóf.

Þetta þýðir ekki það, að við, sem rekum sjávarútveg, viljum ekki taka þátt í að rétta hlut annarra, sem verr eru settir. En við viljum ekki leggja á svo hátt gjald, að sá arður, sem útvegsmönnum ber, hyrfi næstum eða yrði jafnvel enginn.

Ég vil svo að lokum benda hv. fjhn. á það, að þessi skattur hittir ekki lengur neina stórgróðamenn, heldur yrði hann lagður á hið breiða bak sjómanna og útvegsmanna víðsvegar um landið, þá menn, sem eiga að vinna að öflun og framleiðslu sjávarafurðanna.

Að svo mæltu ætla ég ekki að tefja tímann lengur, en vil láta þá ósk í ljós, að hv. fjhn. takist að finna leið til að stilla frv. til meiri sanngirni en í því felst nú.