17.06.1941
Efri deild: 83. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1236 í B-deild Alþingistíðinda. (2827)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Jóhann Jósefsson:

Ég gat þess við 2. umr. málsins, að ég myndi freista þess við 3. umr. að bera fram till. til þess að reyna það, hvort það er alvarlegur ásetningur þessarar d. að stefna þessu máli svo, að meginþunginn af þeim kostnaði, sem af þessu leiðir, hljóti að verða borinn uppi af útvegsmönnum og sjómönnum.

Þó að þannig færi, sem fór með þeim undarlegu forsendum, sem voru viðhafðar við 2. umr., vil ég leyfa mér, ásamt hv. 10. landsk., að leggja hér fram skrifl. brtt., sem fer í þá átt, að í stað þess, að heimildin um útflutningsgjaldið nái 10%, komi 5%, og í stað þess, að ríkisstj. skuli heimilt að ákveða, að gjaldið skuli aðeins ná til þeirra afurða, sem framleiddar verða eftir að reglugerðin öðlast gildi, komi, að gjaldið skuli aðeins ná til þeirra afurða o. s. frv. Og þar sem það hefur alltaf verið mín skoðun, að þessi kostnaður ætti að berast uppi sem jafnast af þeim, sem orku hafa til þess í landinu, er hér flutt brtt. við 6. gr. um, að í stað 10% komi 15%. Vil ég leyfa mér að leggja fram þessar brtt. og vonast til, að þær fái að koma til atkv.

Ég held, að ég þurfi ekki að orðlengja um þetta frekar. Það er búið að ræða málið svo mikið. En ég vil til þess ýtrasta reyna að halda fram rétti þeirra manna, sem annars verða algerlega fyrir barðinu á þessum útgjöldum, og hef þess vegna lagt fram þessar brtt.