04.06.1941
Neðri deild: 70. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í C-deild Alþingistíðinda. (2903)

41. mál, krikjuþing

Frsm. (Þorsteinn Briem) :

Ég skal stuttlega svara þessum aths., sem fram komu í ræðu hv. þm. Borgf.

Það er ekki meining frv., þó að svo kunni að virðast í fljótu bragði, að kirkjuráð sé sett yfir kirkjuþing, heldur er þetta ákvæði 16. gr. sett með tilliti til þess, að kirkjuþing gæti falið, ef því sýndist svo, kirkjuráði að vera eins konar framkvæmdanefnd fyrir kirkjuþingið. Þegar kirkjuþingi lízt að fela kirkjuráði að starfa að vissum málum, getur það skotið ályktunum til kirkjuráðs, svo að kirkjuþing verður æðsta vald að þessu leyti.

Það er alveg rétt hjá hv. þm., að starfssvið kirkjuþings er ekki nákvæmlega takmarkað í frv., og stafar það af því, að hér er um nýja stofnun að ræða innan þess íslenzka kirkjufélags, og þykir því hentugra, að ekki séu mjög ströng ákvæði til. um það, að það muni reynast við þessa stofnun eins og aðrar stofnanir eins og spekingurinn Björn Gunnlaugsson kvað, að „líf sér haminn prjónar“. Það þótti ekki rétt að binda mjög þær línur, sem starfa á eftir, og virðist mér, að lita megi svo á, að þessi ákvæði séu nægileg sem víður rammi, og það verði reynslan, sem sker úr um það, hvað heppilegast þyki.

Ég stóð aðeins upp til að taka þetta fram, að það er ekki tilgangur frv., að kirkjuráðið skuli vera yfir kirkjuþingi, heldur að svo miklu leyti sem störf þeirra eiga saman, þá sé það kirkjuþingið, sem segi fyrir verkum.