21.05.1941
Neðri deild: 64. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í C-deild Alþingistíðinda. (2921)

45. mál, bændaskóli

Frsm. meiri hl. (Steingrímur Steinþórsson) :

Ég biðst afsökunar á því, að mér var ókunnugt um afgreiðslu till. þeirrar á fundi Búnaðarsambands Sl., sem hv. 8. landsk. talaði um, enda hefur hún ekki borizt Alþingi. Það er eðlilegt, að ný athugun sé gerð á því einmitt nú, hvernig samræma beri hlutverk héraðsskólanna og bændaskólanna. Þegar 1. frá 1938 voru sett um bændaskóla, var verklega kennslan þar á þann veg, að bilið milli þeirra og héraðsskólanna breikkaði, en héraðsskólal. frá því í fyrra minnkuðu aftur það bil, og nú, en ekki fyrr, er hægt að byggja á fenginni reynslu um samstarf skólanna framvegis.

Ég álít mjög óheppilegt að lögfesta skóla án þess, að honum hafi verið ráðinn staður að standa á. Þó að það væri gert um skóla einn á Suðurlandi í héraðsskólal. síðast, tel ég það slys, en ekki til fyrirmyndar. Allir héraðsskólarnir, sem reistir hafa verið, hafa fengið margþættan undirbúning heima í héraði og lifandi áhugi komið þar fram á stofnun þeirra. Við vitum, að svo mikið er yfirleitt látið undan vilja almennings hér í landi, að ef einlægur og almennur vilji kemur fram um slíkt mál, nær það fram að ganga. Ég held fast við það, að enn hefur ekki komið í ljós sá áhugi eða vilji, að ástæða sé til að lögfesta skólann, þegar um leið er litið á það, að sú lögfesting nú gæti ekkert flýtt fyrir því, að hann verði reistur. Hv. 8. landsk. viðurkenndi, að engin tök væru á því eins og er. Því þá ekki að bíða með lögfestinguna, eins og hæstv. forsrh. talaði um, þangað til n. hefur athugað það mál í heild, hvernig sambandi bændaskólanna og annarrar alþýðufræðslu verði bezt fyrir komið? Eftir því getur m. a. farið lengd námstíma í bændaskólum, en við hana þarf að miða, þegar ákveðin er stærð og fyrirkomulag þeirrar skólabyggingar, sem reisa skal til viðbótar.