07.04.1941
Efri deild: 32. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í C-deild Alþingistíðinda. (2927)

57. mál, bygging sjómannaskóla

Frsm. (Ingvar Pálmason) :

Þetta mál, sem hér liggur fyrir til umr., um bygging sjómannaskóla, hefur allmikið verið rætt á undanförnum árum, bæði í blöðum og á mannfundum, og þær umr. virðast allar hafa hnigið á einn veg, sem sé, að fyllsta nauðsyn væri á að bæta úr þeirri aðstöðu, sem nú er um kennslu í sérgreinum sjómanna að því er húsakost snertir. Eins og þm. vita, er sá húsakostur, sem völ er á til sérnáms fyrir sjómenn, aðeins ein bygging, stýrimannaskólinn, og um hann má segja, að hann hafi um nokkurra áratuga bil verið ófullnægjandi til þess að fullnægja þeim kröfum, sem til hans væru gerðar um kennslu í siglingafræði. Að því er kemur til annarra sérgreina sjómanna, þá má heita, að þær séu með öllu húsnæðislausar. Að vísu hefur Fiskifélag Íslands mjög myndarlega á sinn hátt séð fyrir húsakosti og kennslu í meðferð smærri mótorvéla. En þá er líka allt upp talið. Vélstjóraskólinn, sem allir finna að mikil þörf er á, er algerlega húsnæðislaus, og það má geta nærri, að við slíkt ástand er alls ekki unandi.

Ég held líka, að það sé óþarfi að lýsa þessu mjög mikið, vegna þess að enginn ágreiningur virðist vera um það, að brýn nauðsyn sé að byggja sjómannaskóla til að kenna þar sérgreinar sjómannaefna. Hugmyndin hefur verið sú að sameina sem flestar sérnámsgreinar sjómanna í einni byggingu, og í þá átt stefnir þetta frv.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða meira um málið almennt, ég held, að ástandið sé öllum ljóst, að ekki má við svo búið sitja. Ég get því snúið mér að þeim brtt., sem sjútvn. hefur leyft sér að flytja við þetta frv. á þskj. 130. Þær brtt. eru fjórar, og það má vel vera, að sumar þeirra þyki skipta nokkru máli, og vil ég þá reyna að skýra með nokkrum orðum, hvað fyrir sjútvn. vakir með því að bera fram þessar brtt.

Fyrsta brtt. er við 2. gr. frv., og er hún í tveim stafliðum, a. og b. Í a-lið er gert ráð fyrir, að í stað þess að í frv. stendur: „Forstaða skólabyggingarinnar skal falin fimm manna n.“ komi: „sjö manna“. Þetta atriði skiptir í sjálfu sér ekki miklu máli, nema að því leyti, að sjútvn. leit þannig á, að undirbúningur og tilhögun öll viðvíkjandi þessari byggingu ætti að vera í höndum sjómannastéttarinnar og þá auðvitað í höndum þeirra manna, sem hafa sérkunnáttu í hinum einstöku greinum. Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir, að tveir nm. skuli skipaðir eftir tilnefningu Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, einn eftir tilnefningu Sjómannafélags Reykjavíkur og einn eftir tilnefningu Stýrimannafélags Íslands, en atvmrh. skipar n. og tilnefnir formann hennar. En í b-lið 1. brtt. frá sjútvn. á þskj. 130 er farið fram á, að því sé slegið föstu, að enn fremur eigi sæti í þessari n. skólastjóri stýrimannaskólans, vélstjóraskólans og forstöðumaður loftskeytaskólans. Við, sem sæti eigum í sjútvn., teljum það afar áríðandi, að þessir menn verði talsvert miklu ráðandi um alla tilhögun skólans. Að vísu er gert ráð fyrir því í 3. gr. frv., að byggingarn. láti gera uppdrætti að skólahúsi í samráði við skólastjóra þeirra skóla, sem þar er ætlað pláss, en það eru stýrimannaskólinn og vélstjóraskólinn. En sjútvn. leit þannig á, að þetta orðalag væri of veikt, því að enda þótt skólastjórarnir geti lagt ráðin á, er engin trygging fyrir því, að þeir geti fullkomlega — haft úrslitaáhrif um þau atriði, sem þeim kynni að sýnast öðruvísi um en hinum nm. En með brtt. sjútvn. er stefnt í þá átt að tryggja það, að till. þeirra manna, er hafa sérþekkingu til að bera, fái notið sín, því að þar er því slegið föstu, að fjórir af nm. skuli skipaðir af atvmrh. eftir þeirri tilnefningu, sem getið er um í 1. gr. frv., og enn fremur eigi sæti í n. skólastjórar þeirra skóla, sem ætlað er húsrúm í byggingunni. Við teljum það mjög mikils varðandi, að sem bezt verði vandað til undirbúnings og framkvæmda í þessu byggingarmáli.

Önnur brtt. á þskj, 130 er að nokkru leyti afleiðing af þeirri fyrri, hún er við 3. gr. frv. Þar er gert ráð fyrir, að byggingarn. skuli þegar í stað láta gera uppdrátt að skólahúsi, en að öðru leyti er dregið nokkuð úr ákvæðum 3. gr. frv., þar sem segir: „Í skólanum skal vera heimavist fyrir hæfilegan nemendafjölda, og skal húsakynnum heimavistarinnar svo háttað, að þar verði auðveldlega við komið kennslu fyrir matsveina.“ Sjútvn. leit þannig á, að varhugavert væri að slá þessu alveg föstu, því að ekki er ósennilegt, að af því leiddi nokkurn kostnað, en ef skólinn yrði byggður í Reykjavík, sem að vísu er ekki ákveðið í frv., leit sjútvn. svo á, að ekki væri aðkallandi þörf á að lögbinda það, að heimavist skyldi vera við skólann. En hins vegar þótti sjútvn. rétt að setja í frv. ákvæði um, að byggingarn. skyldi athuga möguleika um heimavist í byggingunni fyrir hæfilegan nemendafjölda og í því sambandi kennslu fyrir matsveina. Ég held, að það fari fullt svo vel á því að orða þetta ákvæði á þennan hátt, eins og að gera það að ófrávíkjanlegri skyldu að hafa heimavist í skólanum.

Þá er enn fremur sú umorðun í 2. brtt. á þskj. 130, að atvmrh. staðfesti teikningu, úrskurði skólastað og önnur fyrirkomulagsatriði, ef ágreiningur verður innan n. Hér, er um dálitla orðalagsbreyt. að ræða, því að samkv. 3. gr. frv. á forstaða skólabyggingarinnar að vera falin fimm manna n., og atvmrh. tilnefnir formann hennar og skipar n. eftir till. þeirra stofnana, er þar um ræðir. Sjútvn, telur litlar líkur til þess, að atvmrh., hver sem hann kann að verða á hv erjum tíma, verði dómbærari um þessi atriði en byggingarn. í heild sinni. En ef ágreiningur rís innan n., þá er ekki um annað að ræða en að úrskurðarvaldið verði hjá þeim ráðh., er með þessi mál fer.

Þá er enn ein brtt. á þessari sömu gr., sem sé að niðurlag gr. orðist þannig: „Undirbúningi samkv. þessari gr. skal vera lokið fyrir l. sept. 1941.“ Þetta byggist á því, að sjútvn. var öll sammála um það, að öllum undirbúningi verði að hraða svo sem kostur er á. Sjútvn. lítur þannig á, að ef þessi byggingarn. getur starfað í fjóra mánuði, þá eigi henni að vera vorkunnarlaust að geta lokið undirbúningnum fyrir 1. sept. næstk. Ég skal líka taka það fram í þessu sambandi, að mér er kunnugt um, að nokkur undirbúningur er hafinn nú þegar að því er snertir uppdrætti að sjómannaskóla, og þó líta megi svo á, að ekki sé ástæða til þess fyrir Alþ. að lögbinda þetta, er þó þetta atriði svo mikils vert, að fyllsta ástæða er til að Alþ. fyrir sitt leyti gefi byggingarn, þá hvatningu, að hún skuli hafa lokið öllum undirbúningi fyrir 1. sept. 1941. Með því sýnir Alþ., að það vill ekki, að framkvæmdir tefjist í þessu máli.

Þá kemur 3. brtt. .n., við 4. gr., og skiptir hún mestu máli. Í 4. gr. frv. er gert ráð fyrir, að veittar verði í fjárl. minnst 100 þús. kr. árlega til byggingar skólans, unz byggingu er lokið, en n. leggur til, að í stað 100 þús. kr. fjárveitingar komi 300 þús. kr. Byggir nefndin þá till. sína á því, að hún álítur, að það muni fjárhagslega hagstæðara fyrir ríkissjóð að leggja upphæðina fram á stuttum tíma en á mörgum árum.

Nefndin hefur átt kost á að líta á uppdrátt af fyrirhuguðu skólahúsi. Nú er enginn nefndarmanna sérfræðingur í slíkum málum, en ég get upplýst, að uppdrátturinn er eftir húsameistara ríkisins, Guðjón Samúelsson. Nefndin spurðist fyrir um það, hvort unnt væri að segja, hve mikið slík bygging mundi kosta, — tvímælalaus svör fékk nefndin ekki, en í gegnum skólastjóra Stýrimannaskólans fékk hún þær upplýsingar, að slík bygging mundi ekki kosta undir 1300 þús. kr. miðað við núverandi verðlag á efnivöru og vinnu. Nefndin ályktaði út frá því, að ekki mundi ósennilegt að gera ráð fyrir, að kostnaður gæti unnið 1½ millj, kr., og ef fjárveitingin til byggingarinnar er ekki meira en 100 þús. kr. á ári, tekur 15 ár að greiða hana að fullu. Nú má gera ráð fyrir, að með heimild 4. gr. til þess að taka bráðábirgðalán eða selja skuldabréf til að greiða byggingarkostnaðinn megi takast að afla fjár til þess að koma byggingunni upp, en það er skiljanlegt, að erfiðara verður að afla þess fjár, ef eigi verður unnt að fá það að fullu endurgreitt fyrr en eftir 15 ár í stað 5 ára. Í annan máta vill nefndin benda á, að eins og nú horfir, virðist það engum vandkvæðum bundið fyrir ríkissjóð að leggja fram 300 þús. kr. árlega í þessu skyni. Að vísu verður engu spáð, hvað við tekur á næstu 5 árum og enn síður á næstu 15 árum. En ég vil minna á, að ef nokkur alvara liggur á bak við þau ummæli, sem fram hafa komið um nauðsyn sjómannaskóla, og ef hugur fylgir máli, þegar talað er um ágæti sjómannastéttarinnar íslenzku, þá finnst mér ekki tiltakanlega stórt í ráðizt, þótt ríkissjóður leggi fram 300 þús. kr. árlega til sjómannaskólabyggingar, þar til henni er lokið. Sjómannastéttin hefur þegar fyrir löngu unnið fyrir slíku framlagi.

Þá kem ég að síðustu brtt., sem er ekki veigamikil, en skiptir þó nokkru máli. Í 5. gr. frv. er svo fyrir mælt, að byggingarnefnd veiti viðtöku gjöfum til sjómannaskólans og skuli því fé, er þannig safnast, varið til eflingar skólans, en renni ekki til byggingar hans. Byggingarnefnd starfar aðeins vissan tíma, og þegar byggingin er fullgerð, er verkefni hennar lokið. Leggur n. því til að upphaf 5. gr. orðist svo : Byggingarnefnd og síðar skólastjórn skal veita viðtöku . . o. s. frv. Það er álit nefndarinnar, að gjafir til skólans muni halda áfram að berast skólanum um áratugi og jafnvel aldaraðir, og þarf þá ákveðinn aðili að veita þeim viðtöku og hafa stjórn á því fé, sem þannig safnast.

Læt ég svo útrætt um brtt. n., nema sérstakt tilefni gefist, og vænti, að þetta mál fái fljóta og góða afgreiðslu.