10.06.1941
Neðri deild: 75. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í C-deild Alþingistíðinda. (2959)

57. mál, bygging sjómannaskóla

Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Ég hef nú tekið eftir því, að þessum hv. þm. (SvbH) hefur liðið illa oftast, þegar ég hef komið hér í deildina á þessu þingi. Ég held, að þessum þjóni Drottins sé þannig farið, að hann þoli aldrei lengi við að fara aðeins með boðskap hans í kirkju sinni og líferni, heldur þurfi hann hér á Alþingi að þjóna öðrum herra, skemmta skrattanum. Það er eins og að gefa krakka sætindi að gefa honum tilefni til að viðhafa illt orðbragð og þjóna eðli sínu. Ég vil ekki gefa honum neitt aukið tilefni þess við umr. þessa máls, aðeins benda á, að hneykslunarhellan var ekki önnur en sú í þetta sinn, að ég hafði sagt f. h. fjmrh., að hann ætlaði að leyfa sér að borga út peninga, sem Alþingi er búið að leyfa í fjárl., að borgaðir séu út.

Umr. (atkvgr.) frestað um stund, en var fram haldið síðar á fundinum.