28.03.1941
Neðri deild: 25. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í B-deild Alþingistíðinda. (299)

56. mál, verðlagsuppót á laun embættis- og starfsmanna ríkisins

Jón Pálmason:

Eins og tekið er fram í nál. fjhn., þá var það svo, að ég og annar nm., hv. 3. landsk., hefðum talið eðlilegt að flytja nokkru frekari brtt. við þetta frv., aðallega í þá átt að setja takmarkanir fyrir því, hvað verðlagsuppbótin væri hátt sett miðað við launahæð og enn fremur það, hvað hátt mætti fara með verðlagsuppbót við vöxt dýrtíðarinnar. Við hurfum samt frá því að flytja till. í þá átt, í fyrsta lagi af því, að þetta frv. er eins og kunnugt er stutt af stj. sameiginlega, og það hefur líka komið fram við ýtarlegar umr. innan stuðningsflokka stj., að yfirgnæfandi meiri hluti þm. var mótfallinn, að slíkar takmarkanir væru gerðar, o í öðru lagi höfum við þá reynslu frá síðustu þingum, að það muni hafa litla þýðingu að koma með slíkar brtt. inn í d. Af þessum ástæðum höfum við fallið frá að flytja brtt. við þetta frv. nú, jafnvel þó að við teljum, að það væri í alla staði sanngjarnt. og eðlilegt, að settar væru hámarkstakmarkanir á, enda þótt fjárhagsástæður séu nú betri en á síðasta þingi.

Þá er vikið að öðru atriði í nál., sem ég vil segja örfá orð um, ekki til að mótmæla því, heldur til að minna á, hvað það er, sem gerir að verkum, að ég hef getað skrifað undir það nú, þó að almennt talað sé það ekki rétt. Það er það sjónarmið, sem sérstaklega kom fram hjá hv. formanni og frsm. n., sem sé, að svo margir launamenn ríkisins séu svo lágt launaðir og tiltölulega fátt um hálaunamenn þar, samanborið við það, sem annars staðar viðgangist nú um launagreiðslur. Eins og sakir standa nú er þetta ekki rangt, en það er algert stundarfyrirbrigði frá mínu sjónarmiði, vegna þess að svo vel hefur farið, að þeir, sem að útgerðinni hafa unnið, hafa nú haft allgóðar tekjur og meiri en margir aðrir nú á síðasta ári. Miðað við það er þetta rétt fram tekið, að nú eru hjá ríkinu tiltölulega færri hálaunamenn en venjulega, þó að ég telji marga hálaunamenn þar. En þó að þetta sé svo, þá er það frá mínu sjónarmiði ósanngjarnt, sem mjög hefur komið í ljós á undanförnu ári, að ekki einu sinni launamenn, heldur og einnig verkamenn og ýmsir aðrir miða kröfur sínar mjög við það, hvernig hefur verið varið tekjum sjómanna og útgerðarmanna á síðustu árum, en það er ekki rétt að bera þessar stéttir saman, þar sem sjómennirnir okkar eru að kalla má í stöðugum lífsháska. Ég vil taka þetta fram, til þess að þetta sjónarmið komi í ljós, að þótt þetta sé ekki rangt til orða tekið, þá er það bundið við líðandi stund.

Annars skal ég ekki fjölyrða um afgr. þessa máls. Það er vitað, að það fer í gegn, sennilega án frekari breyt. en þeirra, sem nú liggja hér fyrir, hvort sem hv. þdm. sýnist að samþ. þær eða ekki. En ég hygg, að vert sé að taka það til greina, að einmitt sú framkoma, sem sýnd hefur verið í launamálum nú og að undanförnu, gerir það að verkum, að þing og stj. bindur sér frekari skyldur en ella mundi við smærri framleiðendur í landinu, sérstaklega sveitamenn og þá, sem í smáþorpum landsins búa.

Skal ég svo ekki án frekara tilefnis hafa um þetta fleiri orð.