10.05.1941
Neðri deild: 56. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í C-deild Alþingistíðinda. (3067)

31. mál, raforkusjóður

Haraldur Guðmundsson:

Það er alrangt hjá hv. þm. Borgf. (PO), ef hann meinar, að brtt. mín miði að því að draga úr getu sjóðsins til að sinna sínum verkahring. Hv. þm. veit, að eftir minni brtt. væri framlag ríkissjóðs bundið við 2 millj., en ekki eftir frv. Það stendur í brtt. minni, að ríkissjóður skuli leggja sjóðnum til vaxtalaust stofnfé, eigi minna en 2 millj. króna á 10 árum. (PO: Ég skal skýra þetta).

Þá segir hv. þm. Borgf., að það sé ekki eins öruggt að ákveða þetta framlag úr ríkissjóði eins. og að taka það með skatti frá rafveitum, vegna þess að dæmi séu til þess, að felldar hafi verið niður fjárveitingar, sem eftir 1. hefur átt að greiða úr ríkissjóði. En það er enginn skattur öruggur, sem lagður er á með 1. Það er alveg eins hægt að breyta 1. um skatt eins og 1. um framlag úr ríkissjóði.

Þetta mál er átakamál hér í hæstv. Alþ. Og þó að brtt. mínar kunni að verða felldar, mun það ekki muna nema fáum atkv. Ég verð því að álíta, að það sé engu tryggara fyrir sjóðinn til tekjuöflunar að halda skattaákvæðinu, sem í frv. er, heldur en að samþ. mína brtt. um, að allt framlagið til sjóðsins komi úr ríkissjóði og

framlaginu sé sett visst lágmark, en það sé ekki bundið við neina hámarksupphæð.

Hv. þm. Borgf. segir, að svo mikill aðstöðumunur sé hjá þeim héruðum, sem búin eru að fá rafstöðvar, og hinum, sem eiga það eftir, að hann yrði ekki einu sinni jafnaður með þeim vaxtamun, sem gert er ráð fyrir eftir frv., þ. e. a. s. að vextirnir verði af lánum til þessara nýju fyrirtækja ekki nema helmingur af þeim vöxtum, sem þær rafveitur, sem búið er að byggja, greiða af sínum lánum. Þetta kann nú að eiga við á sumum stöðum, en það á alls ekki við á öðrum. Hv. 5. þm. Reykv. (SK) hefur gert grein fyrir því, hvernig ástatt er um nýbyggða rafstöð á Ísafirði. Mér er líka kunnugt um rafstöðina á Seyðisfirði, sem er eitthvað um 30 ára gömul, hún var a. m. k. byggð fyrir heimsstyrjöldina 1914–18, sem knýjandi nauðsyn er að byggja nú þegar upp. Gjaldið á þá stöð mundi hleypa fram stofnkostnaðinum um 14–15%. Í þessu er ekki snefill af skynsemi eða réttlæti, því að Seyðisfjarðarkaupstaður stendur mun lakar að vígi um að afla sér rafmagns heldur en t. d. Akranes. Það má að vísu segja þetta, sem hv. þm. Borgf. lét sér um munn fara um þennan aðstöðumun, ef því er treyst, að enginn, sem betur veit, bendi á, að það sé rangt. Það er ákaflega misjöfn aðstaða hjá þeim héruðum, sem eiga eftir að fá rafstöðvar, alveg eins og aðstaðan er misjöfn hjá þeim héruðum, sem búin eru að fá rafstöðvar nú þegar. Þetta, sem hv. þm. Borgf. heldur fram um þetta atriði, verður því óafsakanlegt ranglæti gagnvart íbúum þeirra héraða, þar sem skatturinn er lagður á. Þó að þau kannske geti borið hann, þá eiga þau sum bágt með það. Hv. þm. Borgf. sagði, að þetta gjald væri ekki tilfinnanlegt, og lét það nægja. Ég las skýrslu frá forstöðumanni rafmagnseftirlitsins við 2. umr. málsins, sem sýnir, að ef reiknað er með höfuðstólsígildi skattsins, þá svarar það til þess, að stofnkostnaður rafveitnanna hækkar frá 11 til 25%, mismunandi eftir rafveitum. Það má segja, að þetta sé ekki tilfinnanlegt, ef menn vilja hafa sig til þess. En það er bara ekki rétt, því að þessi skattur er mjög þungur og ranglátur. Því að það er fjarri öllum sanni, að aðstöðumunur sé svo mikill milli þeirra héraða, sem búin eru að byggja rafstöðvar, og hinna, sem eiga það eftir, að hann vegi upp á móti þessum skatti.

Hv. þm. Borgf. sagði, að það væri þarfleysa að veita sjóðnum heimild til að gefa út handhafavaxtabréf, þar sem í frv. væri ríkisstj. heimilað að taka 5 millj. króna lán handa sjóðnum. En hv. þm. eru sammála um, að þetta er byrjunarskref, þau ákvæði, sem hér verða gerð nú um þennan sjóð, og það fé, sem gert er ráð fyrir að sjóðurinn fái, ef brtt. mín verður samþ., verður til þess að gefa reynslu á það, að hverju liði þessi sjóður getur orðið til að styrkja rafveitubyggingar. En að sjóðnum. sé ekki þörf á því fé, sem hann getur fengið að láni með útgáfu handhafavaxtabréfa, nær ekki nokkurri átt, því að sú ráðstöfun gæti vitanlega veitt sjóðnum mikla hjálp. En hitt er rangt, að neyta hér aflsmunar til þess að leggja ranglátan skatt á vissa borgara þjóðfélagsins.

Um 3. brtt. mína sagði sami hv. þm., að það væri algerlega rangt að láta það bíða svo og svo lengi (og um alla eilífð) eftir einhverjum félagsframkvæmdum að byggja einkaraforkuver. En í minni brtt. stendur, með leyfi hæstv. forseta, í 3. lið : „Sjóðurinn veitir eigi lán til að byggja einkaraforkuver á þeim stöðum, sem áætlað er, að félagsvirkjun eða félagsrafveitur nái til, ef ætla má, að bygging slíkra raforkuvera verði til að tefja eða koma í veg fyrir þessar félagsframkvæmdir: Með þessu á ég við það, að fyrir liggi áætlun um félagsrafvirkjun eða félagsrafveitur frá þeim aðilum, sem forstöðumaður rafveitumála fyrir ríkisins hönd leggur eitthvað upp úr. Eins og ég benti á, er ekki ástæða til að óttast, að þessu ákvæði yrði beitt svo harkalega, þó að samþ. yrði, að nokkrum verði til meins. En það er aftur á móti til þess að sýna fram á, að það er ekki tilætlun löggjafans, að þessi sjóður, sem myndaður er til þess að styrkja rafveitur, verði til þess með sínum lánveitingum að tefja eða jafnvel koma í veg fyrir, að nauðsynlegar rafveitur fyrir almenning verði reistar. En sú hætta er fyrir hendi, ef ekki eru reistar einhverjar skorður við því, eins og hér er gert ráð fyrir. Mér virðist líka, að hv. flm. frv. séu á þessu a. n. l., því að þeir gera ráð fyrir, að ekki sé veitt lán úr sjóðnum fyrr en að fengnum till. þeirra manna, sem eru ráðunautar ríkisstj. í þessum málum. En sjóðstjórnin er ekki bundin við till. eða ályktanir þessara sérfræðinga í þessum efnum eftir frv., en það tel ég of veikt. Ef fyrir liggur álit um þetta frá þeim mönnum, sem eru ráðunautar ríkisstj. um þessi mál, og það álit er á þá leið, að gagnlegt sé að reisa rafstöð og möguleikar annars eru fyrir hendi til þess, álít ég, að eigi að lána fé til framkvæmdanna.