18.04.1941
Neðri deild: 38. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í C-deild Alþingistíðinda. (3210)

98. mál, vegalög

Flm. (Pálmi Hannesson) :

Herra forseti! Á undanförnum þingum höfum við þm. Skagf. flutt frv. til breyt. á vegal. eða brtt. við áður fram komin frv. um slíkar breyt. Nokkrar af þeim till. okkar voru teknar upp í þær breyt.; sem gerðar voru á síðasta þingi, en undan féll þá að taka upp í þjóðvegatölu þann veg, sem hér um ræðir, sem er aðalvegur Skagafjarðar frá Sauðárkróki fram héraðið.

Það má ef til vill segja, að eins og nú er ástatt, þá hefðu menn átt að sitja á sér að koma með nýja brtt. við vegalögin, en ég vil geta þess, að okkur rekur mikill nauður til. Eins og í grg. þessa frv. segir, liggur fyrir Alþingi undirskriftaskjal með eindreginni áskorun héraðsbúa um að gera þeim jafnleikið við aðra. Þetta er stórt hérað og jafnvel einstætt um samgöngur vegna vegleysis. Enn fremur hefur sýslunefnd Skagfirðinga samþykkt einróma áskorun um þetta og sýslumaður þeirra lagt fast með því, að þessi breyt. fáist fram.

Ég vil ekki fjölyrða meira um þetta frv. við þessa umr., en vil leyfa mér að beiðast aðstoðar hv. d. til þess að fá þessu máli kippt í lag og í það horf, sem héraðsbúar þarna mega við una.

Ég þykist vera nokkuð kunnugur samgöngum allvíða um landið og endurtek það, að mér er ekki kunnugt um nokkurt hérað jafnfjölbyggt, sem við jafnmikla samgönguerfiðleika á að búa og þetta. Þess vegna vil ég leyfa mér að vænta þess, að hv. þd. taki þessu máli með skilningi og velvilja, og leita ég liðsinnis hennar til þess að koma því fram.

Ég vil leyfa mér að óska þess, að frv. verði, að lokinni þessari umr., visað til 2. umr. og samgmn.