14.06.1941
Sameinað þing: 26. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í D-deild Alþingistíðinda. (3638)

71. mál, milliþinganefnd um skólamál

*Pálmi Hannesson:

Herra forseti! Ég get ekki dulið undrun mína yfir þeirri tregðu, sem kemur frá Alþ. um skipun þeirrar n., sem gert er ráð fyrir á þskj. 115. Okkur, sem höfum með skólamál daglega að fjalla, er vel kunnugt um, hve mikil óánægja ríkir um ýmsar greinar skólamálanna. Ég held, að þessi tregða Alþ. stafi af því, að þm. sé tamara að fjalla um önnur mál en skólamál. Ef þeir hefðu þann kunnugleika á þessum málum, sem við skólamennirnir höfum, efast ég ekki um, að þeir fyndu nauðsyn þeirra engu síður en við. Ég vil henda á það, að á síðustu áratugum hafa, ekki aðeins hér á Íslandi, heldur í öllum nágrannalöndum okkar, vaðið uppi nýskólastefnur. En nú á síðustu árum hefur komið afturkippur í þetta, og n. hafa verið skipaðar til þess að taka skólakerfin til athugunar. Niðurstaðan varð yfirleitt sú, að horfið var meira aftur í tímann og teknar upp gamlar og góðar kennsluaðferðir. Flestum Reykvíkingum ætti að vera ljóst, hve mikill ágreiningur hefur risið út af barnafræðslunni, hvort hún nái þeim tilgangi, sem til er ætlazt, eða hvort hún láti í té þau afköst, sem svöruðu til þess kostnaðar, er í hana er lagður. Ég geng þess ekki dulinn, að starfsemi hennar er áfátt á ýmsa lund. Við, sem störfum við menntaskólann, finnum vel, að börnin, sem eru frá þessum skólum og ganga eiga undir inntökupróf, þau eru yfirleitt mjög illa undirbúin. Nú eru prófin ekki þyngri en það, að hvert barn ætti að geta lokið þeim, en reynslan er sú, að börnin verða að ganga á skóla í heilan vetur til þess að geta tekið þetta próf. Í raun og veru eru þessar stofnanir svipaðar víða um land, og margir eru þeirrar skoðunar, að okkur væri bezt að hverfa til baka að verulegu leyti í skólamálunum. Næsta skólastigið er ungmennafræðslan. Það er hverjum manni kunnugt um, að hér hafa tvenns konar unglingaskólar risið upp, sumpart af nauðsyn og sumpart vegna atbeina laganna. Hér í bænum eru tveir gagnfræðaskólar, sem búa nemendur undir framhaldsnám í menntaskólanum. Nú í vetur var skipuð nefnd til þess að athuga þessi mál, hvað snerti inntökupróf í menntaskólann. Þessi n. hefur nú skilað áliti fyrir sitt leyti; en það nær ekki lengra en til inntökuskilyrða í 1. bekk menntaskólans. Ég hygg, að hverjum manni, sem á börn í skólum í Reykjavík, sé kunnugt um, að hér er komið í svo mikið óefni, að það eitt út af fyrir sig ætti að vera nóg til þess, að allur þorri manna sæi nauðsyn á því, að þessum málum sé gaumur gefinn.

Þá kemur þriðja fræðslustigið, og það eru menntaskólarnir. Ég vil benda hér á eitt atriði í þessu sambandi. Menntaskólinn á Akureyri hefur ekki reglur, heldur skólalög, en menntaskólinn hér í bænum hefur ekki lög, heldur reglur. Nú sér hver einasti maður, að allir þeir skólar, sem taka við stúdentunum, finna það greinilega, að tvenns konar einkunnastig er notað við menntaskóla landsins. Við forstöðumenn þessara skóla höfum ekki getað komið okkur saman um einkunnastigið, og við sjáum ekki aðra leið en þá að skjóta þessu til þriðja aðilans, sem er settur af ráðuneytinu. Ég segi hér hiklaust, að kennslumálaráðun. hefur ekki neinum sérfræðing á að skipa í skólamálum, og þess vegna er hans full þörf. Auk þess er mikið deiluatriði, hvort eigi að vera samskólar eða sérskólar, bæði í ungmennafræðslunni og framhaldsfræðslunni. Allt þetta þarf rannsóknar við, og þá virðist vera furðu nærtækt, að slík n. taki til starfa, sem farið er fram á í þessari þál.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar, en verða við tilmælum hæstv. forseta og láta máli mínu. lokið. Ég hef bent hér á nokkur atriði. sem sýna, að till. er ekki borin fram út í bláinn. Hér er mikið rannsóknarefni um að ræða, sem ekki er hægt að útkljá nema í nefnd. Ég get fullvissað hv. þm. V.-Sk. um, að ég er ekki hrifinn af nefndum, en ég sé ekki aðra leið í þessum málum. Þetta er líka sú leið, sem við förum, samkv. því skipulagi, sem við eigum við að búa, þegar rannsaka þarf mál, sem eiga líka að úrskurðast með löggjöf.