23.05.1941
Sameinað þing: 19. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í D-deild Alþingistíðinda. (3652)

138. mál, kaup á hlutabréfum í Útvegsbanka Íslands h/f

*Flm. (Jóhann Jósefsson) :

Það er náttúrlega alveg satt, sem hv. þm. N.-Þ. sagði, og ég held, að ég hafi tekið það skýrt fram, að það er ekki skoðun flm., að þeir, sem kynnu að hafa komizt yfir þessi bréf þriðju aðilar, ættu að njóta góðs af kaupum, þó að úr yrði, heldur þeir, sem hafa bréfin enn þá í sínum vörzlum, sem ég vil ætla, að sé allur yfirgnæfandi hluti þess fólks, sem hér um ræðir. Að þetta mál sé erfiðara í framkvæmd nú en það hefur verið áður, það fæ ég ekki vel skilið, því sé samþ. Alþingis bundin við það, að það séu hinir upprunalegu eigendur, sem átt er við, þá eru fleiri en ein heimild til að sýna og sanna, hverjir þeir eru. Ég geri líka ráð fyrir, að í bókum og skjölum bankans sé skrá yfir þá hlutafjáreigendur, sem hér er um að ræða.

Fólk það, sem hér um ræðir, hefur aldrei haft nein áhrif á stjórn bankans. Það eru svo litlir hlutir, sem það á í bréfum, að þess atkv. gildir ekki neitt að ráði. Þetta fólk hefur í viðbót við það að vera svipt þessari eign sinni líka verið svipt öllum áhrifum, vegna þess að ríkisstj. er svo stór eigandi að hlutabréfum bankans.

Þess skal að síðustu getið, að Alþingi hefur fyrir löngu haft á sínu valdi að gera hreint borð í þessu máli. Það eru mörg ár síðan þessari kröfu var fyrst hreyft, og þau eru náttúrlega of mörg, þegar litið er til þess, að hún hefur ekki náð fram að ganga, og ég geri ráð fyrir, að hún fái alltaf formælendur hér á þingi, þangað til þessari réttlætiskröfu hefur verið gerð fullnusta.

Ég get mér þess til, að hv. þm. muni vera í yfirstjórn bankans, eða a. m. k. hafi verið það, og vil ég vona, að hann á sínum tíma leggi þessu máli lið í þeim anda, sem það er fram borið, sem sé, að ríkisstj. sé heimilað að hlutast til um það, að eigendum hlutabréfa þeirra í Útvegsbanka Íslands, sem keypt voru með sparisjóðs- og innlánsskírteinainnistæðum þeim, sem inni stóðu í Íslandsbanka, þegar hann var lagður niður, verði gefinn kostur á að selja ríkissjóði þessi hlutabréf með hæfilegu verði. Það er ekki farið fram á annað en að þetta sé bætt með nokkurri sanngirni, og það er svo hógvær krafa, sem hér er fram sett um þetta hlutafé, að mér þykir næsta líklegt, að Alþingi geti á hana fallizt.