30.04.1941
Sameinað þing: 11. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1262 í B-deild Alþingistíðinda. (37)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Ég skal aðeins geta þess út af orðum hv. þm. Barð. (BJ), að ég held, að það sé ekki nákvæmlega rétt hjá honum, að það sé horfið frá þeirri reglu nú á síðari tímum að greina ekki opinberlega frá mótmælum til erlendrar ríkisstj., fyrr en þau eru komin í hendur réttra hlutaðeigenda. Ég hygg, að þeirri reglu muni vera almennt fylgt. En sú aðstöðumunur er víða úti í heimi miðað við það, sem hér er, að þar er víða hægt svo að segja samstundis, kannske með einni upphringingu eða öðru slíku, að gera ráðstafanir til að koma mótmælum fram við rétta hlutaðeigendur fyrir milligöngu fulltrúa ríkjanna á viðkomandi stöðum, sem hvorir fyrir sig hafa sambönd við sitt ráðuneyti.

Ég vil taka fram, út af ummælum um, hvort ekki mundi rétt að láta vitneskju um mótmælin berast til erlendra ríkja, að það mun verða gert á þann hátt, að fulltrúum Íslands erlendis munu tilkynnt þessi mótmæli, sem hafa verið framkvæmd af hálfu íslenzku ríkisstj., og þeir munu gera þær ráðstafanir, sem réttar mega teljast á hverjum stað, til þess að þau verði kunn erlendis.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. Barð., að það, sem sérstaklega gerir æskilegt, að mótmælin verði kunngerð á erlendum vettvangi, er, að Þjóðverjar hafa haft röng orð um réttarstöðu Íslands, sem getur verið, að hafi óþægilegar afleiðingar fyrir Ísland og óheppileg áhrif á álit erlendra þjóða á réttarstöðu okkar.

Út af því, sem hv. 4. landsk. (ÍslH) tók fram, um að mótmælin út af handtöku og brottflutningi íslenzkra manna, og þar á meðal þm., og banni við útkomu íslenzks blaðs muni hafa komið nokkuð seint til réttra hlutaðeigenda, þá vil ég aftur taka það fram, að ég get ekki verið þar á sama máli. Sþ. afgr. þessa ályktun kl. 5 síðd. á mánudaginn var, sem sé mótmælin, þar sem einnig var tekin upp í enska þýðingu ályktun Alþ. og þar sem fylgir grg. fyrir málinu. Mótmælin voru afhent sendiherra Breta hér á landi kl. 12¼ daginn eftir. Ég hygg, að varla verði til þess ætlazt, að hafður sé meiri hraði á um framkvæmd mótmæla heldur en þarna var gert.

Að öðru leyti gefur ræða þessa hv. þm. mér ekki tilefni til aths. En að sjálfsögðu liggur það í mótmælunum gegn handtöku og brottflutningi þm. (EOl) og gegn banni við útkomu blaðs, að það er mælzt til þess, að horfið verði frá þeim ákvörðunum, sem mótmælt er, og því, sem mótmælt er, verði kippt í það lag, sem það vár í áður en þær ráðstafanir voru gerðar, sem mótmælt er.