08.05.1941
Neðri deild: 54. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í B-deild Alþingistíðinda. (574)

15. mál, hegningarlög

*Garðar Þorsteinsson:

Mig langar til þess að beina einni fyrirspurn til hæstv. ríkisstj., hvort hún nokkurn tíma eftir að þessi bráðabirgðal. voru gefin út hafi beitt því refsivaldi, sem henni er veitt með þessum bráðabirgðal. Ég veit það, og því hefur ekki verið mótmælt af hæstv. forsrh., að eftir viðtali brezka sendiherrans við ríkisstj., þá var ríkisstj: ekki grunlaus um það a. m. k., að herstjórnin vildi grípa hér inn í og banna blaðið Þjóðviljann og gera aðrar ráðstafanir, sem nægðu til þess að brezka herstj. teldi sig örugga gegn slíkum árásum, sem hún áleit vera í því blaði. Nú hafði ríkisstj. fullkomna ástæðu til þess, eftir samtalið við brezka sendiherrann, að grípa inn í, ef eitthvað kæmi fram, sem þess gat orðið valdandi, að brezka herstjórnin gripi inn í um það blað eins og hún gerði: Hvers vegna notaði ríkisstj. ekki heimildina í þessum bráðabirgðal. til þess að grípa inn i, þegar eitt blað a. m. k. skrifaði svo freklega, að hætta var á því a. m. k., að erlent ríki hlutaðist til um málefni Íslands? Íslenzka ríkisstj. hafði fullkomna ástæðu til þess að ætla, eftir samtal sitt við brezka sendiherrann, að brezka herstjórnin mundi grípa hér inn í vegna þessara skrifa. Hvers vegna gaf ríkisstj. út þessi bráðabirgðal., ef hún ætlaði ekki að fara eftir þeim? Auk þess er vitað, að blað hæstv. utanrmrh. skrifaði hneykslanlega, með því að það hélt uppi svæsnum árásum á erlend, ríki og það iðulega, og þeir menn, sem þar fara með völd, eru uppnefndir í því blaði og kallaðir ýmsum ljótum nöfnum. Þetta er efalaust sannfæring þeirra manna, sem rita í blaðið. En það er bara bannað í þeim blöðum, sem þessir 5 ráðh. gefa út. Og ef þetta, sem við höfum hér í bráðabirgðal., á að vera til verndar gegn því, að erlendir menn séu móðgaðir, hvers vegna beitir ríkisstj. þá ekki þessum l.? Ég verð að segja, að ég hef litla trú á því, að það sé til mikils að gefa þeirri stj. slíkt vald í hendur, sem er í þessu frv. ákveðið, sem að mjög gefnu tilefni ekki notaði þetta vald. Það sýndi sig líka, að brezka herstjórnin greip í taumana. En þetta vissi ríkisstj. um, að mundi verða. Hennar skylda var að beita þessum bráðabirgðal., og við það hefði verið það unnið, að íslenzkt ríkisvald hefði komið þar inn í, en ekki erlent vald.