26.03.1941
Neðri deild: 23. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í B-deild Alþingistíðinda. (626)

61. mál, gjaldeyrisvarasjóður og eftirlit með erlendum lántökum

Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Frv. þetta er undirbúið og samið af milllþn. í gjaldeyrismálum, en flutt sem stjfrv. Er hér um að ræða nýmæli í íslenzkri löggjöf, ef frv. nær fram að ganga, og því vil ég fylgja frv. úr hlaði með fáeinum orðum til skýringar, þó að þau verði ekki mikið annað en endurtekningar þess, sem tekið er fram í grg.

Hv. þm. vita það, að útflutningsverzlun landsins hefur oft hrakað mjög, ef harðnað hefur í ári, verðfall orðið eða aflaleysi, og er því útflutningur okkar og afkoma atvinnuveganna mjög misjöfn frá ári til árs. Þegar þrengt hefur að á þennan hátt, hefur orðið að grípa til þess ráðs að skammta gjaldeyrinn, því að þjóðin hefur undanfarna áratugi verið að koma á miklum framkvæmdum í landinu, svo að allt fjármagn, sem til var á hverjum tíma, var notað að fullu til þessara framkvæmda og ekkert aflögu til þess að mæta erfiðleikum, sem að steðjuðu. Varð því jafnan að byrja þegar á því að skammta gjaldeyrinn, ef á bandinu stríkkaði. Um það verður nú ekki deilt, að það er mjög slæmt að þurfa ætíð að óttast gjaldeyrisskort og yfirfærsluvandræði, þó að erfiðleikar komi um stundarsakir. Vaknar þá sú spurning, hvort ekki væri hægt að hafa á öllum tímum handbæran gjaldeyri, sem hægt væri að grípa til í erfiðleikum, og mætti þá hafa þennan sjóð þannig, að ekki mætti grípa til hans nema í knýjandi nauðsyn.

Frv. þetta er tilraun til að koma á slíku skipulagi. Gert er ráð fyrir því, að þjóðbankinn eigi jafnan 12 milljónir króna í erl. gjaldeyri, umfram það, sem hann skuldar á hverjum tíma í stuttfrestalánum, og er það tekið fram, að ekki megi eyða þessu fé nema í brýnni nauðsyn og að fengnu samþ. ráðh. þess, er fer með gjaldeyrismál. Skipa skal n., og skal Alþ. skipa 3 menn í hana og þjóðbankinn 3, en ráðh. gjaldeyrismála skal vera formaður hennar. Skal leita álits þessarar n. um það, hvort tímabært skuli teljast í hvert sinn að taka fé úr sjóðnum. Aðalatriði frv. er það, að málum sé svo fyrir komið, að aldrei sé hafður í umferð allur sá gjaldeyrir, sem þjóðbankinn á yfir að ráða á hverjum tíma, en áður hefur verið gert ráð fyrir því, að allt fjármagn hans væri í veltunni í senn. Má segja, að í mikið sé ráðizt að liggja með peninga, sem litla eða enga vexti muni bera, og hafi þjóðin ekki efni á slíku, því að hún verði að hafa handbært mikið „kapital“ á hverjum tíma, sem hljóti að vera erlent lánsfé að miklu leyti. Þar til má svara því, að ekkert fyrirtæki er svo lítilfjörlegt, að það telji sig ekki þurfa að hafa fé í sjóði til þess að mæta óvæntum greiðslum, og ætti það þá ekki síður að eiga við um þjóðarheildina, að henni væri nauðsyn á að eiga nokkurn varasjóð, til þess að draga úr áhrifum kreppuástands, sem hlýtur að koma öðru hverju. Ég held því, að nauðsynlegt sé, að þjóðbankinn geti á venjulegum tímum átt innieignir erlendis, í stað þess að skulda, og séu þær innieignir ekki notaðar nema brýna nauðsyn beri til. Er nú tækifæri til að breyta um stefnu í þessum efnum, er gjaldeyrisástandið er svo ólíkt því, sem verið hefur.

Þá er annað atriði, sem milliþn. telur mikils virði. Það er kunnugt, að alltaf, er viðskiptaörðugleika ber að garði, eru menn seinþreyttir til að grípa til sérstakra ráðstafana og fresta því í lengstu lög. Reynslan er sú hér á landi, að aldrei hefur verið gripið til sérstakra ráðstafana fyrr en allur gjaldeyrir hefur verið uppeyddur og skuldir hafa myndazt erlendis. Þeir, sem að frv. standa, gera sér nú vonir um, að þessi sjóður mundi auka mjög líkur til þess, að í tæka tíð yrðu gerðar ráðstafanir til að draga úr gjaldeyriskreppu, áður en svo væri komið, að eyddur væri allur handbær gjaldeyrir, en þegar til þess kemur að ákveða, hvort taka skuli fé úr sjóðnum, skal n. sú, sem um getur í 7. gr. frv., leggja fram álit sitt og till. um það, hvað gera skuli til þess að koma í veg fyrir, að sjóðurinn eyðist allur. Þannig myndast svigrúm á meðan sjóðurinn er að eyðast, eða bankarnir eru að eyða lánum, sem þeir hafa fengið, svo að gjaldeyrisskortur verður ekki fyrr en sjóðurinn er eyddur og svo lán bankanna. Annars eru líkur til, að aldrei þyrfti til þess að koma, að sjóðurinn eyddist að fullu eða bankarnir yrðu að taka sérstök lán vegna skorts á gjaldeyri.

Það má segja, að frv. tryggi ekki fyrir fram, að árangur náist, ef allt væri látið reka á reiðanum, en við teljum hins vegar, að frv. auki líkur til þess, að nægilega snemma yrði hafizt handa um ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir vandræði.

Þá vil ég leggja áherzlu á það, að n. sú, sem gert er ráð fyrir í frv., að skipuð verði, yrði nokkurs konar föst mþn., er héldi fund að minnsta kosti einu sinni í mánuði undir forsæti ráðh., fylgdist með öllu því, er snertir gjaldeyrismálin, ræddi þessi mál á fundum sínum og gerði till. um þau til ríkisstj. og Alþ., ekki aðeins á erfiðleikatímum, heldur og þess á milli. Við teljum það mikils virði, að hafizt geti gott samstarf, og betra en áður, milli manna frá Alþ. og bankanum, þar sem ráðh. yrði nokkurs konar tengiliður. Fulltrúar flokkanna í n. mundu þá leggja fram till. sínar í umboði flokka sinna og á ábyrgð þeirra. Gerum við ráð fyrir því, að samstarf stjórnmálaflokkanna innan þessarar n. mundi mjög auka á ábyrgðartilfinningu þeirra fyrir þessum málum.

Nú má segja, að það sé að vísu gott og blessað að hafa þennan gjaldeyrisvarasjóð, en það sé ekki einhlítt, ef hver og einn geti farið til útlanda og tekið þar lán eftir vild. Gæti þá farið svo, að sjóðnum yrði eytt í raun og veru, með því að landsmenn tækju á sig slíkar skuldbindingar. Hefur þetta atriði verið þaulrætt í n. Eru því í frv. ákvæði, þar sem bönkum landsins, öðrum en seðlabankanum, svo og öðrum opinberum stofnunum, er bannað að taka lán erlendis, nema með samþ. ráðh. þess, er fer með gjaldeyrismál.

Þá eru í 9. gr. ákvæði þess efnis, að allir þeir, sem skulda fé í erlendum gjaldeyri, skuli einu sinni á hverjum ársfjórðungi gefa Hagstofu Íslands skýrslu um skuldir sínar, en hagstofan gefur svo fyrrnefndri n. ársfjórðungslega skýrslu um þessar skuldir landsmanna.

N. treystir sér ekki til að fara út á þá braut að banna einstaklingum að taka lán erlendis. Það fannst henni of mikið haft á frelsi einstaklingsins, en hún vildi, að hægt væri á hverjum tíma að hafa yfirlit um það, hve miklar skuldir einstaklinga við útlönd væru, því að annars gæti n. sú, sem um getur í 6. gr. frv., ekki myndað sér fullkomna hugmynd um gjaldeyrisástandið í heild. Væri þá, ef þurfa þætti, hægt að koma í veg fyrir frekari skuldasöfnun. En n. taldi ekki rétt að setja frekari skorður við þessu fyrir fram.

Í frv. eru þá fjögur meginatriði:

1. Stofnun gjaldeyrisvarasjóðs.

2. Ákvæði um, að tilteknir aðilar þurfi leyfi ráðh. til að taka lán erlendis.

3. Ákvæði um, að einstaklingar skuli skyldir að tilkynna hagstofunni skuldir sínar erlendis, en hún tilkynni síðan n. þetta.

4. Skipun sérstakrar n., sem undir forystu ráðh. þess, er fer með gjaldeyrismál, hafi forystu um úrræði í þeim málum, er sérstaklega snerta gjaldeyrisafkomu þjóðarinnar á hverjum tíma.

Við gerum okkur vonir um, að með þessu verði hægt að auka mjög mikið líkurnar fyrir því, að í taumana verði tekið hæfilega snemma, þegar á ný fer að halla undan.

Mönnum finnst nú ef til vill sumum, að ekki sé sérstök ástæða til þess nú að hafa sérstakar áhyggjur út af gjaldeyrisskorti, þar sem þjóðin á nú miklar innieignir erlendis, sem mönnum er kunnugt. En það er rétt að gera sér það ljóst, að gjaldeyrisinnieignirnar erlendis geta orðið fljótari að fara en nokkurn okkar órar fyrir í dag. Og þess vegna er ekki nema sjálfsagt, að við gerum okkur grein fyrir því, hvað við viljum gera til þess að koma í veg fyrir að gjaldeyrisskortur eigi sér stað. Ég býst við, að þótt við þykjumst nú hafa fullar hendur fjár, þá geti fyrr en varir orðið þörf á þeim ákvæðum, sem í frv. felast.

Ég vil svo óska þess, að málinu verði vísað til 2. umr. og fjhn. Vil ég biðja hv. fjhn. að greiða fyrir málinu eftir því, sem hún hefur tök á.