16.06.1941
Sameinað þing: 28. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1276 í B-deild Alþingistíðinda. (65)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Út af ræðu hv. þm. Vestm. skal ég fyrst vísa til þeirra ákvæða þingskapa, sem fjalla um utanríkismálanefnd, og hv. þm. V.-Sk drap á. Samkv. ákvæði 16. gr. þingskapa á utanrmn. meðan þing situr að fjalla um þau mál, sem sameinað Alþ. eða önnur hvor þingd. vísar til. hennar. Það er þess vegna á þingsins valdi, meðan það situr, hvaða mál utanríkismálan, fær þar sérstaklega til athugunar. Nú er hv. fyrirspyrjandi sjálfur þingmaður og gæti þess vegna e. t. v. haft einhver áhrif á það, annaðhvort í sameinuðu þingi eða í þeirri d., sem hann á sæti í að einhverjum málum, sem hann er settur í, væri til þessarar n. sérstaklega vísað. Þá mundi að sjálfsögðu formaður n. kalla hana saman og taka fyrir þau mál, sem þannig væru lögð fyrir hana eftir réttum reglum. Hins vegar á þessi n. utan þings að vera til ráðuneytis ríkisstj. í þeim málum sérstaklega, sem eru utanríkismál. Það voru haldnir mjög margir fundir í utanrmn. skömmu fyrir þetta þing, og veit ég, að hv. þm. Vestm. kannast vel við það. Þar voru lögð fram öll þau mál, sem ríkisstj. sá ástæðu til að ráðfæra sig við þessa n. um. Þar voru þau rædd og gefnar skýrslur o. s. frv. Þess vegna álít ég, að fylgt. hafi verið reglum um þessa n. samkv. þingsköpum að því er ráðuneytið snertir. Um hitt atriðið, hvort það hafi verið föst regla að ræða viðskiptasamninga sérstaklega í utanrmn., þá vil ég ekki kannast við, að það sé eða hafi verið föst regla. Ég átti sjálfur sæti í utanrmn. á tímabili. Man ég að vísu eftir því, að þá komu fyrir n. mál viðskiptalegs eðlis oftar en einu sinni. En ég hygg, að ekki hafi borið meira á þeim í n. þá heldur en nú. En að mál, sem snerta afstöðu landsins út á við, hafi verið rædd í n., kannast ég yfirleitt ekki við sem fasta reglu. hetta tel ég nægja til að svara hv. þm. Vestm.

Út af þeim atriðum, sem hv. þm. V.-Sk. talaði um, er sjálfsagt að gefa þær upplýsingar, sem fyrir hendi eru um þau mál. Út af brottnámi íslenzks alþm. voru þegar afhent mótmæli gegn brottnámi alþm. og annarra, sem með honum voru teknir, og ályktun Alþ., sem gerð hafði verið áður þar að lútandi, var þar tilfærð orðrétt. Í þeim mótmælum var sérstaklega gerð krafa um það, að mennirnir væru látnir lausir og þeim skilað heim aftur. Skömmu eftir að þessi mótmæli voru afhent, barst bréf frá sendiherra Breta, þar sem kvittað er fyrir móttöku mótmælanna og tilkynnt, að hann hafi sent bréf til ráðuneytis Breta, og þegar ráðuneytið hefði athugað málið, mundi það sjálfsagt senda sér bréf um málið. Samtímis því, sem þetta var gert, var símað sendifulltrúa Íslands í London um að setja sig í samband við þessa menn og greiða götu þess, að þessir menn yrðu lausir látnir og þeir fluttir heim. Sendifulltrúinn hefur skipzt á bréfum við ríkisstj. um þessi atriði, og veit ég, að hann vinnur að þessu máli svo sem hann frekast getur. Annað er ekki hægt að segja um þetta nú, en að svar brezka utanríkismálaráðuneytisins er ókomið enn.

Um brottnám Vestfirðinganna er þess að geta, að strax er um það var vitað, var sett sig í samband við brezka sendiherrann, og gaf hann skýrslu um brottnámið. Ríkisstj. tók skýrslu þessa fyrir á sameiginlegum fundi og kom sér saman um að gera þá kröfu til herstjórnar Breta, að þessir menn yrðu ekki fluttir utan, þar sem ekki lægju fyrir þær upplýsingar, sem gerðu það að verkum, að frá íslenzku sjónarmiði væri ástæða til slíkra aðgerða. Hins vegar töldum við sjálfsagt, að mál þessara íslenzku þegna yrði rannsakað af íslenzkum dómstólum. Eftir að ríkisstj. hafði komið sér saman um það, var átt tal við sendiherra Breta og þessar kröfur íslenzku stj. fram bornar. En hann svaraði því til, að hann mundi aftur ræða við brezku herstjórnina þann sama dag og síðan láta íslenzku stj. vita niðurstöðuna. Seinni hluta sama dags lét hann íslenzku stj. vita um, að hann hefði rætt við brezku herstjórnina hér á landi og að hún héldi mjög fast við ákvörðun sína um brottflutning á mönnunum úr landi, og frekari upplýsingar yrðu ekki gefnar að sinni. Þá var líka símað til sendifulltrúa Íslands í London og hann beðinn að setja sig í samband við þessa menn og greiða götu þeirra og aðstoða ríkisstj. í að vinna að því, að menn þessir yrðu látnir lausir og fluttir til Íslands aftur. Enn þá hefur ekkert frekar skeð í þessu máli. En ég tel, að ríkisstj. hafi gert í þessu málefni það, sem henni bar, þó að árangur hafi ekki orðið sá, sem menn hefðu viljað.