13.05.1941
Neðri deild: 58. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í B-deild Alþingistíðinda. (898)

21. mál, húsaleiga

Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Ég vil fyrst og fremst þakka n. fyrir, að hún leggur til, að samþ. verði óbreyttur sá viðauki við húsaleigulögin, sem fólst í bráðabirgðalögum þeim, sem út voru gefin um það efni á s. l. ári. Hins vegar hefur n. einnig tekið til athugunar, eins og vænta mátti, hvort þörf vær í á að breyta að öðru leyti húsaleigulögunum, sem sett voru á síðasta þingi. Hefur nú hv. frsm. skýrt þær brtt., sem fyrir liggja frá n., og þarf ég ekki margt um þær að segja.

Aðaltill. n. er um það, að heimilað verði að hækka húsaleigu vegna aukins viðhaldskostnaðar á þann hátt, að fundin sé sérstök vísitala, er sýni þennan aukna víðhaldskostnað, en í l. nr. 90 frá 1940 var almenn heimild til að hækka húsaleigu fyrir þessum aukna kostnaði, en ætlazt til, að sú hækkun verði framkvæmd eftir mati og till. húsaleigunefndar. Ég skal fyllilega ganga inn á rök hv. frsm. um, að það sé miklum v andkvæðum bundið fyrir húsaleigunefnd í Reykjavík, þar sem jafnmikill fjöldi íbúða er, að ákveða, hversu mikið húsaleiga skuli hækka vegna aukins viðhaldskostnaðar, mismunandi fyrir hverja íbúð í bænum, og þess vegna ekki kleift að framkvæma, ég vil segja, þessa eðlilegu hækkun á húsaleigunni með öðrum hætti en þeim, sem n. leggur til. eða eitthvað í þá átt a. m. k. En ég sakna þess hinsvegar, að n. skuli ekki hafa séð sér fært að verða við óskum meiri hl. húsaleigunefndar Reykjavíkur um að binda heimild til hækkunar vegna viðhaldskostnaðar við það að skila til húsaleigunefndar húsaleigusamningi, en samkv. 4. gr. húsaleigulaganna frá 1940 er skylt að skila slíkum samningi til húsaleigunefndar, en það er eina örugga tryggingin fyrir því, að ekki sé farið á snið við ákvæði húsaleigulaganna. Það hefur orðið misbrestur á því, að menn skiluðu samningum til n., og mun það sumpart stafa af því, að samningar eru oft ekki skriflegir, og sumpart stafa af trassaskap manna að fylgja fyrirmælum laga, en hins vegar er lítt kleift fyrir húsaleigunefnd að ganga eftir því, að öllum samningum sé skilað, því að þá yrði hún að fara til hvers einasta húseiganda og fá að vita hjá honum, hvort hann hefði gert nýjan samning. — Ég vil skjóta því til hv. allshn., hvort hún vill ekki, þegar hún gengur endanlega frá frv., verða við þessum vilja meiri hl. húsaleigunefndar.

Ég geri ráð fyrir, að ekki sé hægt að láta standa, enda ekki sanngjarnt, að húsaleiga hækki með tilliti til aukins víðhaldskostnaðar, og önnur leið verði í því efni vandfundin en sú, sem bent hefur verið á .af n. En ég get tekið undir það með n. og vil sérstaklega undirstrika það í sambandi við þessi l., eins og nú standa sakir, að mjög hættulegt væri, að það opinbera hætti að reyna að sporna við óeðlilegri hækkun á húsaleigu, bæði í Reykjavík og annars staðar á landinu. Í því sambandi vil ég benda á, að það kann að verða verkefni þessa Alþingis á þeim tíma, sem það á eftir að starfa nú, að gefa a. m. k. stj. einhverja heimild til að reyna að gera einhverjar ráðstafanir til að halda niðri dýrtíðinni í landinu, og eitt af stærstu málunum í því sambandi er, að húsaleigan hækki ekki um of, og hefur það að mínu viti tekizt sæmilega á þessum miklu dýrtíðartímum. Það munu flestir vera sammála um það, sem eitthvað hugsa um landsmál og hafa einhverja ábyrgðartilfinningu, að nauðsynlegt sé að setja þær skynsamlegustu skorður, sem unnt er að finna, til þess að halda niðri dýrtíðinni. Ég get ekki séð, að brtt. n. geti orðið til þess að hækka húsaleiguna, svo að nokkru verulegu nemi til hækkunar hinnar almennu dýrtíðar, en til þess að þær skorður geti orðið sem traustastar, vil ég benda n. á þetta atriði og biðja hana að segja til um, hvort hún treysti sér ekki til að fallast á, að það skilyrði verði sett fyrir því, að menn megi hækka húsaleigu samkv. þessari vísitölu, að þeir hafi skilað húsaleigusamningum til húsaleigunefndar.