09.07.1941
Sameinað þing: 3. fundur, 57. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í D-deild Alþingistíðinda. (8)

1. mál, hervernd Íslands

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Enda þótt ég geti vísað til frumræðu hæstv. forsætisráðherra um mörg rök til stuðnings þáltill. þeirri, er hér er til umræðu, þykir mér rétt að færa fram nokkur fleiri rök, sumpart af því, að ég fyrir mitt leyti legg ríkari áherzlu á þau en hæstv. forsrh. gerði, og sumpart af því, að ég tel þau fullt eins þung á metunum sem nokkur önnur rök, er til grundvallar liggja fyrir þessari stórvægilegu ákvörðun, er ríkisstjórnin hefur nú tekið, og þáltill. sú, sem hér er um að ræða, fer fram á, að Alþingi staðfesti með samþykki sínu.

Þá stuttu greinargerð, er ég færi hér fram fyrir skoðun minni í máli þessu, ber því að líta á fremur sem viðbót við skýrslu forsætisráðherrans en sem sjálfstæðan heildarrökstuðning á málinu.

Fram að þessu hefur stefna Íslendinga verið bein og skýr, að því er varðar veru erlends herliðs á Íslandi, sem og sérhverja erlenda íhlutun um íslenzk málefni. Þannig galt ríkisstjórn og Alþingi eindregin mótmæli við komu hins brezka herliðs hingað til landsins, hinn 10. maí 1940, og hefur aldrei verið frá þeim vikið, hvorki að formi né efni.

Nú hefur ríkisstjórn Íslands hins vegar lýst yfir því, að hún fallist á veru herliðs frá Bandaríkjunum á íslenzkri grund, og tjáð sig vera reiðubúna til að fela Bandaríkjunum hervarnir Íslands, meðan núverandi styrjöld geisar, gegn vissum skilyrðum.

Ég viðurkenni, að hér er um veigamikinn mun að ræða, en ég neita því, að með þessu hafi Ísland brotið í bág við yfirlýsta stefnu um ævarandi hlutleysi.

Hv. alþingismenn spyrja, hver nauður hafi rekið ríkisstjórnina til þessara aðgerða?

Ég bið menn að gæta þess, að sú ríkisstjórn, sem þessa ákvörðun tók, var ríkisstjórn hin. hernumda Íslands.

Það, sem ríkisstjórnin gerði, var að skipta á hernámsliði styrjaldaraðila og herliði hlutlauss stórveldis, að þiggja hervarnir hlutlausrar þjóðar í stað hernáms ófriðaraðila.

Þetta eru forsendur málsins. Þetta er höfuðatriðið.

Það liggur ótvírætt og ljóst fyrir í þessu máli: að ríkisstjórn Stóra Bretlands lagði hina ríkustu áherzlu á það, að Íslendingar fullnægðu þeim skilyrðum, sem forseti Bandaríkjanna setti fyrir því að taka að sér hervarnir Íslands, að forseti Bandaríkjanna var eigi aðeins reiðubúinn að taka að sér þessar varnir, heldur og æskti hann þess eindregið, ef það gat orðið með frjálsu samkomulagi við Íslendinga, og að Ísland er á áhrifasvæði þessara tveggja heimsvelda, er ein geta tryggt Íslandi sölumarkað íslenzkrar útflutningsvöru og útvegun lífsnauðsynja þjóðarinnar til fæðis, klæða og skæða, og sem nú vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar í þessu máli hafa skuldbundið sig til að tryggja verzlun og viðskipti Íslands með hagkvæmum samningum.

Þetta eru þung rök, sem ég ætla, að hv. alþm. kunni að draga réttar ályktanir af.

Þá er það enn, að fyrir tæpum tveim mánuðum ályktaði Alþingi Íslendinga að framkvæma raunveruleg sambandsslit við Dani, þótt eigi þætti enn tímabært að ganga endanlega frá þeim málum.

Ég leyfi mér að leiða athygli hv. alþm. að þeirri köldu staðreynd, að sjálfstæði og fullveldi Íslendinga verður aldrei tryggt með einhliða samþykktum Alþingis eða sjálfstæðishjali og óskum manna á milli. Í þeim efnum veltur fyrst og fremst á því, að Íslendingar beri gæfu til þess á örlagastundum þjóðarinnar að kunna að velja og hafna, að kunna að taka þann kostinn, sem á hverjum tíma bezt tryggir raunverulegt, efnalegt og stjórnarfarslegt sjálfstæði þjóðarinnar í nútíð og framtíð.

Halda menn nú, að bezta ráðið í þessum efnum hafi verið það, að setja sig eindregið gegn fyrrnefndum óskum Breta og Bandaríkjamanna, jafnþung áherzla, sem á þær var lögð af hendi þessara — heimsvelda?

Eða geta menn samsinnt því, að hitt, einmitt hitt, sem ríkisstjórnin gerði, tryggi betur beina og greiða leið að því þráða marki?

Hvort fatast mönnum nú sýn og gerast þess óminnugir, að þegar Alþingi tók ákvörðun um sambandsslit við Dani, þótti það helzt áhyggjuefni, að ákvarðanir okkar einna yrðu taldar ónógar, ef enginn okkur stærri, voldugri og sterkari vildi staðfesta þær með viðurkenningu og samþykki?

Eða er mönnum þetta nú jafnljóst og þá? Sé svo, mun öllum alþingismönnum, er eiga þá hugsjón stærsta og göfugasta, að Ísland megi um aldur og ævi verða óðal frjálsra og fullvalda niðja okkar, það mikið gleðiefni, að nú liggja fyrir ótvíræð skjalfest fyrirheit tveggja stærstu lýðríkja heimsins um að tryggja í nútíð og framtíð algert frelsi og fullveldi Íslands.

Meðal skilyrða þeirra, er íslenzka ríkisstjórnin setti forseta Bandaríkjanna, er:

„Bandaríkin skuldbinda sig enn fremur til að viðurkenna algert frelsi og fullveldi Íslands og að beita öllum áhrifum sínum við þau ríki, er standa að friðar samningunum, að loknum núverandi ófriði, til þess, að friðarsamningarnir viðurkenni einnig algert frelsi og fullveldi Íslands.“

Þar segir ríkisstjórnin enn fremur:

„Þessi ákvörðun er tekin af Íslands hálfu sem algerlega frjáls og fullvalda ríkis, og það er álitið sjálfsagt, að Bandaríkin viðurkenni þegar frá upphafi þessa réttarstöðu Íslands, enda skiptist bæði ríkin strax á diplomatiskum sendimönnum.“

Þessu svarar forseti Bandaríkjanna þannig: „Mér er það ánægja að staðfesta hér með við yður, að skilyrði þau, sem sett eru fram í orðsendingu yðar, er ég hef nú móttekið, eru fyllilega aðgengileg fyrir ríkisstjórn Bandaríkjanna og að skilyrða þessara mun verða gætt í viðskiptunum milli Bandaríkjanna og Íslands.“

Meðal skilyrðanna, er ríkisstjórn Íslands setti Bretum, er þetta:

„Bretland lofar að viðurkenna algert frelsi og fullveldi Íslands og að sjá til þess, að ekki verði gengið á rétt þess í friðarsamningunum né á nokkurn annan hátt að ófriðnum loknum.“

Þessu svarar sendiherra Breta í Reykjavík, fyrir hönd ríkisstjórnar Bretlands, þannig: „Ég hef þegar skýrt yður munnlega frá, samkvæmt fyrirlagi ríkisstjórnar minnar, að hún samþykkir þessa skilmála, og mér er ánægja að staðfesta þetta bréflega hér með.“

Íslenzku ríkisstjórninni hefur þannig í einni svipan tekizt að tryggja það, að tvö stærstu lýðríki heimsins hafa viðurkennt, að Ísland taki í dag sínar ákvarðanir sem algerlega frjálst og fullvalda ríki, og taka jafnframt ábyrgð á, að sú réttarstaða verði viðurkennd við væntanlega friðarsamninga.

Af mörgu mikilvægu í þessu stóra máli er þetta stærst — langstærst.

Að sönnu voru sett skilyrði af hendi þessara stórvelda.

En hvaða skilyrði?

Þau, að Íslendingar skiptu á hernámsliði styrjaldaraðila og herliði hlutlauss stórveldis, og þau, að Íslendingar tækju við fyrirheitum Bandaríkjanna um hagkvæma viðskiptasamninga og fyrirgreiðslu íslenzkra hagsmuna í viðbót við fyrri fyrirheit Breta í sömu efnum, í stað þess að eiga við Breta eiga um þessi mál, og það með þeim hugarfarsbreytingum, sem hlotizt hefðu af algerri synjun Íslands á að verða við hinum ríku óskum Bretlands í þessu máli.

Þessi voru skilyrðin.

Ríkisstjórnin vill fyrir sitt leyti fullnægja þeim og fá í staðinn hin ómetanlegu verðmæti: tryggingu þessara stórvelda fyrir frelsi og fullveldi Íslands um aldur og ævi.

Og nú kemur til þingsins kasta.

Menn spyrja: Hvers vegna var Alþingi eigi kvatt saman áður en ákvörðun var tekin? Hæstv. forsætisráðh. hefur svarað þeirri spurningu.

Menn spyrja enn fremur: Hvers vegna var forsætisráðherra að birta orðsendingar þessar í útvarpi áður en Alþingi kom saman, úr því það á annað borð var kvatt saman?

Ég finn mér skylt að svara þar til .saka, vegna þess að ég var hvatamaður þessa.

Rök mín eru þessi:

Forseti Bandaríkjanna tilkynnti sambandsþingi Bandaríkjanna síðdegis á mánudag þessar ákvarðanir. Fregnir af því komu í Lundúna-útvarpinu á mánudagskvöld kl. 8.45. Það sama kvöld þekkti allur hinn menntaði heimur efni og orðalag þessara boðsendinga. Það var að mínum dómi óboðlegt íslenzku þjóðinni, að hún ein allra þjóða væri leynd þessum mikilvægu samningum, hún, sem þó var annar samningsaðila, eða einn þeirra þriggja og sá, sem þeir vörðuðu mest.

Yfir Alþingi er þjóðin eins og Alþingi er yfir ríkisstjórninni.

Vansæmd sýnd Alþingi, segja menn. Þetta er mikill misskilningur.

Alþingi er ekki kvatt saman til þess að heyra skýrslu ríkisstjórnarinnar. Alls ekki. Það er fullkomið aukaatriði.

Aðalerindi Alþingis er að ákveða, hverjum afleiðingum það vill, að ríkisstjórnin taki af þessum gerðum sínum.

Samkvæmt 17. gr. stjórnarskrárinnar eru þessir samningar ógildir, ef Alþingi samþykkir þá ekki. Alþingi getur því fellt þá og skipt um ríkisstjórn. Að vísu breytir það eigi þeirri staðreynd, að ríkisstjórn Íslands hefur samþ., að hingað komi erlent herlið, — herlið, sem hér mun dvelja áfram til ófriðarloka úr því sem komið er. En með því að fella samninginn og skipta um ríkisstjórn þvær Alþingi sínar hendur af gerðum ríkisstjórnarinnar og heldur að formi til hina beinu stefnu um mótmæli gegn veru sérhvers erlends herliðs á íslenzkri grund, án hliðsjónar af því, hvort sá aðili, er liðið sendir, er styrjaldaraðili eða hlutlaus þjóð.

Að sjálfsögðu er það fullkomið aukaatriði, hvaða stjórn fer með framkvæmdarvaldið hér á landi. Hitt er í mínum augum aðalatriðið, já, eina atriðið, sem máli skiptir, — að ég er öldungis sannfærður um, að sú ákvörðun, sem ríkisstjórnin tók, er rétt — og að hún ein er rétt.

Í einni svipan hefur ríkisstjórninni tekizt það þrennt í senn: að tryggja sjálfstæði þjóðarinnar, að losna við erlent hernámslið og að sjá borgið afkomu þjóðarinnar í atvinnu- og fjármálum.

Í einni svipan er Alþingi þess megnugt að leggja ávöxt þeirrar iðju í rúst.

Ég vona, að Alþingi beri gæfu til að gera það, sem bezt tryggir raunverulegt frelsi og fullveldi Íslands, er það nú tekur sínar örlagaríku ákvarðanir í þessu mikilvægasta máli.