19.11.1941
Efri deild: 23. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í B-deild Alþingistíðinda. (287)

19. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Sigurjón Á. Ólafsson:

Mér þykir hlýða að segja hér örfá orð frá mínu eigin brjósti, en ég tala þar ekki fyrir neinn flokk. Ég hef skrifað undir nál. á þskj. 68, og er, eins og sjá má á því nál., enginn rökstuðningur í því sjálfu.

Ég hef nú hlustað á þessar umr., sem hér hafa farið fram um þetta mál, bæði með og móti málinu. Og það hefur ekkert það komið fram í þeim umr., sem hefur breytt skoðun minni á þessu máli. Ég hafði þegar mótað mína skoðun á því strax og ég sá frv. þetta koma fram í hv. Nd. Og ég skal taka það fram, að ég var einn af þeim, sem vaknaði við vondan draum, þegar ég las í Vísi þá frétt, að gefa ætti Laxdælu út eins og þar var til tekið, og sá, hvað var á ferðinni. Ég vil nú segja, að sú frétt, sem upphaflega kom í því blaði um þetta efni, hafi ekki verið alls kostar rétt, en hún var þó í þeim atriðum rétt, að ýmsir gróðabrasksmenn ætluðu nú að fara að taka okkar dýrmætasta arf í okkar bókmenntum, fornritin, og hafa þau sér að gróðalind og breyta þeim eftir geðþótta þeirra rithöfunda, sem hafa ekkert að gera annað en að gera sér það til dundurs að breyta þeim eins og þeim þóknast. Ég hef ekki séð þessa umtöluðu útgáfu af Laxdælu, heldur hef ég séð í því blaði, sem upphaflega gat um, að þessi útgáfa mundi koma, formálann fyrir hinni nýju Laxdælu. Og ég býst við, að það sé rétt, sem hér hefur komið fram, að það sé annar málbær á sögunni í þeim búningi, sem hún nú er, heldur en á formálanum. En ef sami eða svipaður málblær hefði verið á sögunni sjálfri eins og er á formálanum, þá kastaði nú fyrst tólfunum.

Nú er það svo, eftir því sem ég bezt veit, að útgáfa fornritanna mun ekki vera löghelguð neinum, og hef ég þetta eftir mjög skýrum og greinagóðum lögfræðingi, sem stendur nú að þeirri útgáfu fornritanna, sem bezt er og glæsilegust, fornritaútgáfunni. Svo það mun í lófa lagið fyrir hvern mann, sem vill leggja sig í það, að taka okkar fornrit og gefa þau þannig út eins og hverjum meðalgutlara dettur í hug að gera það á hverri stundu, og það í miklu ófullkomnari búningi heldur en þó þessi útgáfa Laxdælu er. Það er engin trygging fyrir því, að ekki komi einhver peningamatador og fari að gefa út fornritin breytt og fái svo dagblöðin til að flytja skrumauglýsingar um þessa útgáfu, til þess að ginna fólk til að kaupa fornritin þannig meðfarin. Þetta er aðferð þeirra manna, sem kunna að bjóða sína vöru. Fólkið hleypur eftir skrumi og kannske keyptum ritdómum, sem birtir eru til þess að mæla með bókum. Þess vegna er valt að treysta á dómgreind almennings um það, hvort verið er að bjóða því góða vöru eða svikna. Og hætt er við, að það verði ekki dómgreind almennings, sem ræður því, hvort það er holl eða óholl fæða, sem verið er að bjóða fólkinu.

Það, sem skeð hefur hér, er, að breytt hefur verið til nútímamáls íslenzkum fornsögum. En hvernig hafa íslenzku ungmennin farið að, sem ekki hafa getað lesið fornritin á því máli, sem Laxdæla hefur verið gefin út á nú, nútímamálinu? Ég var ekki nema 8 ára, þegar ég byrjaði á því að lesa íslenzkar fornsögur upphátt fyrir fólkið, og mér varð engin skotaskuld úr því að lesa þær á því máli, sem Sigurður Kristjánsson gaf þær út á. Svo er talað um, að það séu örðugleikar á að lesa okkar fornrit, af því að menn geti ekki stautað sig fram úr málinu á þeim. En þetta er engin ástæða til þess að mæla með þessari breyt. Fyrir utan frásögurnar margar, þá er eins og standi einhver ljómi af þessum. sögum, sem að mínu áliti gerir það að verkum, að það eigi ekki að gefa þær út á öðru máli en fornmálinu. Og það á að útiloka, að götu-„slang“ komist inn í málið á þeim, og að þær frægu sögur verði þýddar á eitthvert og eitthvert mál eftir því, sem sá, sem þýðir þær, vill vera láta, og eftir hans geðþótta. Þetta er höfuðástæðan fyrir því, að ég álít mjög nauðsynlegt, að hæstv. Alþ. grípi nú þegar inn í í þessu efni og hið opinbera taki sér nú réttinn til þess að hafa yfirráðin yfir útgáfu fornritanna og til að geta úthlutað þeim einum rétti til að gefa út fornritin, sem að dómi alþjóðar teljast verðugir til þess að hafa þann rétt. Og það er þegar tekið fram í þessu frv., að það skuli vera fornritaútgáfan, eins og nú standa sakir, sem hafi þennan rétt. Og ég hef ekki heyrt neinn mæla á móti því, að hjá fornritaútgáfunni sé mjög sómasamlegur frágangur á útgáfu fornritanna.

Það hefur komið hér fram í þessum umr., hve mikill hraði var settur á þessa útgáfu Laxdælu. Og ég veit, að dugnaður þessa manns er takmarkalaus til þess að koma áfram því verki, sem honum dettur í hug. Það mætti segja mér, að ef ekki væri tekið hér í taumana með þessari löggjöf, yrði ekki aðeins Laxdæla, sem kæmi út þannig þýdd fyrir 15. febr. n. k., heldur fleiri fornrit, eftir dugnaði þessa manns að dæma til þess að koma slíku í verk. Svo rísa hér upp menn á hæstv. Alþ., sem maður álítur, að hafi verulegt vit á bóklegum fræðum, og mæla í gegn því, að komið skuli í veg fyrir slíkan verknað sem þetta, og ég verð að segja, að ég undrast það mjög. Mér eru mjög mikið undrunarefni þær ræður, sem hv. 1. þm. Reykv. hefur haldið hér. Ég hef litið á hann sem töluvert víðsýnan og formfastan bókmenntamann, sem ekki vildi láta leiða til verri vegar yfirleitt það, sem íslenzka þjóðin á bezt á þessu sviði. En hann hefur gengið hér fram fyrir skjöldu og reynt að verja það, að slík útgáfa eins og hér er á ferðinni, skuli fá að flóa yfir landið takmarkalaust og draga úr því, að íslenzk alþýða eigi kost á ómenguðum Íslendingasögum með góðu og skaplegu verði. Sá hv. þm. minntist eitthvað á, að það hefði verið talað við sig um biblíuna í sambandi við svona útgáfur á bókum. Ég kannast við, að við áttum tal um þetta saman eftir fund, þegar þetta mál hafði verið til 1. umr., sem hér liggur fyrir nú. Og af því að hann er guðfræðingur og hann hefur ritað og prédikað það orð, bæði utan kirkju og innan, þá skaut ég því fram, sem ég minntist á um biblíuna. Ég býst við, að hvorki honum eða neinum, sem eru kristilega þenkjandi, þætti æskilegt, að biblían væri tekin og prentaðir svona kaflar úr henni, en sumu sleppt úr, sem ekki þætti eins viðeigandi að gefa út. (ÁJ: Þetta er gert með biblíusögunum.) Það er dálítið annað mál, þegar talað er um þær, heldur en þegar tekið er heilt ritverk undir þessa meðferð, t. d. ef nýja-testamentið væri tekið og prentað, en sleppt úr því kafla eins og t. d. fjallræðunni, ef útgefandanum þætti ekki viðeigandi að gefa út fjallræðuna. Nú er mér sagt, eða a. m. k. kemur það fram í formála Laxdælu, að það sé sleppt úr henni, en hvað það er, veit ég ekki. Eins býst ég við, að bók bókanna yrði meðfarin, ef hún væri gefin út á „nútímamáli“. Hitt er rétt, að það hafa verið gefnir út kaflar úr biblíunni, en ekki í gróðaskyni. En eins og biblían er heilög bók kristnum mönnum, eins eru fornsögurnar heilög rit mörgum Íslendingum, og útgáfa þeirra á ekki að verða að gróðafyrirtæki einstakra manna. Þess vegna hef ég gengið með þessu frv. eins og það liggur fyrir, því að ég sé ekki, að í frv. felist neitt, sem geti orðið til tjóns viðkomandi útgáfu fornritanna eða í vegi fyrir því að halda þeim yfirleitt í heiðri.

Í 1. gr. frv. eru ákvæði um, að ekki megi afbaka verk rithöfunda. Mér finnst enginn geti haft á móti því. En um 2. gr. stendur deilan. Og ég hef gert grein fyrir því, hver s vegna ég tel rétt, að hæstv. Alþ. gangi inn á þá braut, sem hér er lagt til í frv.

Það er ekki okkar sök hér í Ed., að málið hefur tafizt í Nd. Og fleiri málum er eftir að ljúka hér. Og úr því að ekki er búið að koma þessu máli fyrr en þetta til hv. Ed., þá tel ég sjálfsagt, að d. ljúki ekki störfum fyrr en búið er að afgr. annað eins þrifamál eins og þetta.

Þó að það hafi verið nokkuð dregið í efa hér, dettur mér ekki í hug að draga það í efa, að hver sá, sem fer með menntamál í ríkisstj., bæði nú og framvegis, muni leita ráða til hinna beztu manna á sviði íslenzkrar tungu, þegar um það verður að ræða að veita leyfi til að gefa út íslenzk fornrit. Ég vona, að í ráðherrasæti veljist aldrei sá maður, sem ekki hefði fullkomna dómgreind til þess að leita slíkra ráða hjá þessum menntamönnum. Þess vegna geri ég ráð fyrir, að í flestum slíkum tilfellum verði á hverjum tíma leitað til prófessora háskólans í norrænum fræðum. Það er ekki ástæða til að setja málið í þá hættu að bæta inn í frv. ákvæði um, að leitað skuli álits heimspekideildar háskólans, áður en gefin eru út rit, sem samin eru fyrir

1400. Ef reynslan sýnir, að slíks þurfi við, má endurskoða þessi 1. eins og önnur 1. Mér þykir kenna mikils andvaraleysis hjá heimspekideildinni, að hún skyldi ekki fyrst allra bregða við og benda á þá hættu, sem hér var á ferðum. Það gerði hv. 9. landsk. þm., og því er mér óskiljanlegt, að hann skuli á elleftu stundu vilja bregða fæti fyrir málið. Ef brtt. hans verða ekki samþ., ætlar hann að vera á móti málinu.

Ég segi, að það sé heiður Alþ., en ekki vanvirða, að bregðast nú vel við og vernda okkar dýrmæta arf frá skemmdum.