20.11.1941
Neðri deild: 26. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í B-deild Alþingistíðinda. (321)

8. mál, lántaka fyrir síldarverksmiðjur ríkisins

Frsm. (Skúli Guðmundsson) :

Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir, að hann vill sjá um, að það atriði, er ég minntist á, verði tekið til athugunar af ríkisstj.

Þá vil ég víkja að eftirlaunasjóði. Hv. þm. Ísaf. viðurkennir, að þetta framlag sé tekið af þeim, er leggja inn síld til vinnslu í verksmiðjunum. Ég tel, að verksmiðjurnar hafi ekki heimild til að taka af hagnaðinum í slíkan sjóð, því það skiptir miklu máli fyrir verksmiðjurnar, hvort fé þeirra er lagt í varasjóð eða eftirlaunasjóð. Ég veit ekki, hvernig reglum er háttað um þennan sjóð, en mér þykir ólíklegt, að allir viðskiptamenn verksmiðjanna fái að njóta hans. Ég býst við, að fyrst og fremst beri að nota hann til að greiða eftirlaun föstum starfsmönnum verksmiðjanna.

Viðvíkjandi því, hve seint reikningum síldarverksmiðjanna er lokið, hefur komið skýring frá hæstv. fjmrh. og hv. þm. Ísaf. Um það atriði vil ég segja það, að oft kemur fyrir hjá stórum fyrirtækjum, að eitthvað af framleiðslunni sé óselt um áramót, og ef lengi dregst að fá ákveðið verðlag fyrir afurðirnar, þá er það venja að áætla það, til þess að hægt sé að ljúka reikningunum. Þetta hefur áður verið gert hjá síldarverksmiðjum ríkisins, og svo kemur í reikningum næsta árs niðurstaðan af sölunni. Ég veit því ekki, hvort ástæða hefur verið til að draga svona lengi uppgerð reikninganna.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar, en vænti þess, að það atriði, er ég nefndi, verði tekið til athugunar hjá ríkisstjórninni.