27.10.1941
Neðri deild: 6. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í C-deild Alþingistíðinda. (333)

7. mál, ráðstafanir gegn dýrtíðinni

Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Ég þarf ekki að eyða mörgum orðum að þeim þætti í ræðu hv. 4. þm. Reykv., sem beindist að Alþfl. Það er ekkert nýmæli, að kommúnistar ráðist sérstaklega að Alþfl. og reyni að skjóta að honum eitruðum örvum. Ég mun því ekki víkja að almennum hugleiðingum þessa hv. þm. um afstöðu Alþfl. í þjóðmálum. Það hefur oft verið rætt og verður nánar rætt. En það var aðeins eitt atriði í ræðu þessa hv. þm., sem ég sé ástæðu til að minnast á, einnig að gefnu sérstöku tilefni frá hæstv. viðskmrh.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að allir, sem talað hefðu, væru sammála um, að launastéttirnar ættu ekki að fá kauphækkun. Út af þessu vil ég bara minna á þann kafla ræðu minnar, sem sneri að þessu atriði, við upphaf þessarar umr., sem hefur verið hraðritaður hér eftir mér, en hann hljóðar á þessa leið : „Út af því, sem hæstv. atvmrh. drap á í ræðu sinni, skal ég taka það fram, að ég hef skýra afstöðu til þessa máls. Ég held, að launastéttirnar í landinu hafi yfirleitt enga löngun til þess að láta dýrtíðina vaxa, og þegar atvinna í landinu er góð og mikil og þær fá upp borna í hækkuðu kaupi vaxandi dýrtíð, þá sé ekki mikil tilhneiging hjá launastéttunum til þess að hækka grunnkaupið; reynslan hefur sýnt þetta. Milli 10 og 20 stéttarfélög, víðs vegar um land, sem gátu sagt upp kaupsamningum fyrir nokkru síðan, hafa ekki talið rétt að gera það. Og mér er kunnugt um það, að það er engin sérstök hreyfing í þá átt að segja upp kaupsamningum með það fyrir augum að hækka grunnkaupið.“

Þetta sagði ég og hef alltaf sagt og segi enn í dag. Það er hins vegar ekkí útlit fyrir, að verkalýðsfélögin ætli að segja upp sínum samningum, að nokkrum félögum undanteknum, til þess að fá hækkað grunnkaup. Það er þess vegna engin ástæða til að tala um það sem yfirvofandi hættu, að grunnkaupstaxtarnir muni fara hækkandi. Þetta hef ég margtekið fram bæði opinberlega og í einkaviðtölum, og það er nú sem óðast að koma í ljós, hvort þessi spásögn er ekki rétt. Það verður þess vegna engin ástæða fyrir þær sakir að lögfesta kaupið. Ég hef oft tekið það fram, að það væru einungis fá félög, sem mundu segja upp sínum samningum, og ég teldi það eðlilegt, að þau fengju bætta sína samninga, enda mundi það ekki orka neinu til breyt. á dýrtíðinni í landinu. Ég hef nefnt þessi félög með nafni og minntist einnig á þetta í minni frumræðu. Þetta hefur verið og er mín afstaða. Hún er skýr og greinileg og í samræmi við veruleikann. Hæstv. viðskmrh. fór nokkrum orðum um áhrif verðlagsins og kaupgjalds á dýrtíðina. Get ég að mestu látið nægja að vísa til fyrri ræðu minnar um þau atriði, en vil að gefnu tilefni undirstrika það, að við höfum þá reynslu í þessu efni frá árinu 1940, sem ekki er hægt að ganga blindandi fram hjá. Sú reynsla er á þá leið, að kaupgjaldið, ekki einasta grunnkaupið, var lögbundið, heldur var það einnig lögfest, að launastéttirnar gátu ekki fengið nema 75% hækkun vegna vaxandi dýrtíðar, en samt óx dýrtíðin með meiri hraða 1940 heldur en 1941. Hún óx úr 112 stigum upp í 136 stig, eða um 24 stig, á árinu 1940. Ekki var á þessu ári til að dreifa hækkun grunnkaupsins og ekki var þá til að dreifa fullri dýrtíðaruppbót. En samt óx dýrtíðin. Af hverju kom það? Það stafaði fyrst og fremst af því, að hvorki var fyrir hendi vilji né geta til þess að halda niðri verðlaginu á nauðsynjavörum í landinu.

Hæstv. viðskmrh. sagði, að sér væru ekki vel kunnar leiðir Alþfl. í dýrtíðarmálunum og að hann hefði ekki orðið var við till. hans í þeim málum hér á Alþ. Það má vel vera, að það hafi ekki verið útbýtt prentuðum þskj. á síðasta þingi um þessi mál frá Alþfl. Þó veit ég mætavel, að hæstv. viðskmrh. eru vel kunnar till. okkar í þessum málum, og þær komu fram í n. þeim, sem fjölluðu um málin. Auk þess mun þessum till. á næstunni verða útbýtt prentuðum hér á Alþ., svo ekki verði hægt að segja lengur, að þessar till. séu ekki sýndar, þótt ríkisstj. og Þingheimi séu þær vissulega fullkunnar.

Ég sé ekki ástæðu til að fara frekar inn á samanburð á ástæðunum fyrir lögfestingu kaupgjalds snemma á árinu 1939 og seint á árinu 1941. Aðstæður íslenzku þjóðarinnar eru á þessum tímabilum svo ólíkar eins og munurinn á hvítu og svörtu er mikill. Í apríl 1939 virtist allt vera að fara í strand. Atvinnuleysi fór hraðvaxandi og íslenzka krónan var talin miklu minna virði en hún raunverulega var opinberlega skráð. Þá var gerð ráðstöfun til að breyta gengi krónunnar og um leið lögfest kaupgjald stutt tímabil, þó með vissum möguleikum til hækkunar; einnig var þá ákveðið að lögfesta verð flestra íslenzkra afurða. Nú horfir málið hins vegar þannig við, að í staðinn fyrir, að menn töluðu um það 1939, að krónan væri of hátt skráð, þá tala menn um, að hún sé of lágt skráð. Í staðinn fyrir atvinnuleysi þá er nú nóg atvinna og atvinnuvegirnir í blóma. Í staðinn fyrir þurrð á peningum þá er nú yfirfljótanlegt af peningum. Í staðinn fyrir gjaldeyrisvandræði þá höfum við nú meiri gjaldeyri en við þurfum á að halda. (Viðskmrh.: Hvað sannar þetta?). Það sannar, að það voru allt aðrir tímar 1939 en nú eru. (Viðskmrh.: Hvað sannar það?). Það sannar það, að það á hér ekki við sama lækningin. (Viðskmrh.: Sum lyf eru notuð við fleiri en einum sjúkdómi.) Ég veit, að hæstv. viðskmrh. hefur bundið sig við þetta eina lyf , og telur það allra meina bót. Og ég veit, að það eru fleiri en hæstv. viðskmrh., sem telja það á öllum tímum rétt að lögfesta kaupgjald yfirleitt og hafa tilhneigingu til að gera slíkt. Þetta á ekki einungis við hér á landi, heldur í öllum löndum. En þrátt fyrir þetta er mér ekki kunnugt um, að neins staðar hafi verið gripið til þess að lögfesta kaupið á þessu stríðstímabili utan einræðislandanna.

Hæstv. viðskmrh. sagði, að það leiddi að sama marki, ef verkalýðsfélögin segðu ekki upp samningum um grunnkaup og ef hans frv. um lögfestinguna yrði samþ. hetta er nú að vísu ekki öldungis rétt, því í hans frv. er gert ráð fyrir, að þrátt fyrir það, þótt dýrtíðin vaxi verulega, skuli ekki greidd uppbót á laun. Þó vil ég taka það fram, til þess að hér sé ekki sagður hálfur sannleikur, að það hefur komið fram, að hæstv. viðskmrh. mundi vera viðmælandi um millileið í þessu efni, en eins og ég tók fram í frumræðu minni, vildi ég ekkert ræða um þær leiðir, vegna þess að sá flokkur, sem ég er fulltrúi fyrir í ríkisstj., er og var andvígur lögfestingu kaupgjalds. Þar af leiðandi skipti það ekki máli, hve langt væri hægt að þoka lögbindingarmönnum inn á þá leið, að áhætta launastéttanna væri sem minnst vegna vaxandi dýrtíðar. En ég býst við, að það væri alltaf talið eðlilegt, að einhver veruleg áhætta væri látin hvíla á þeim, en það sé ég enga ástæðu til.

Ég held, að ég hafi þá minnst á þau atriði, sem máli skipta í þeim ræðum, sem haldnar hafa verið eftir að ég tók til máls á föstudagskvöldið. En ég vil aðeins að lokum undirstrika það, sem ég sagði þá, að það er af tveim ástæðum; sem Alþfl. er andvígur lögbindingu kaupgjalds. Fyrst og fremst af þeirri ástæðu, að hann álítur lögbindingu óréttláta, og í annan stað af því, að hann hefur ekki trú á því, að þar liggi meinsemdin í dýrtíðarmálunum og að lögbinding kaupgjaldsins sé eina leiðin til þess að lækka dýrtíðina. Fyrir þessar sakir er Alþfl. mjög andvígur þessum till„ sem fram hafa komið um þetta mál, en er jafnframt ákveðinn í því að reyna að standa að skynsamlegum till. til úrlausnar á þessum málum, þeim till., sem hann trúir á, að geti bætt ástandið, án þess að um óréttlæti sé að ræða gagnvart einstökum stéttum. Um þær till. er hann fús á að ræða við alla aðila og um framkvæmd og lögfestingu þeirra.