03.11.1941
Neðri deild: 11. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í C-deild Alþingistíðinda. (356)

7. mál, ráðstafanir gegn dýrtíðinni

Frsm. 1. minni hl. (Skúli Guðmundsson) :

Eins og hv. þdm. sjá af þessum 3 þskj., hefur fjhn. ekki orðið sammála um afgreiðslu frv. Tveir nm., hv. þm. A.-Húnv. og hv. þm. Seyðf., leggja til, að það verði fellt. Einn nm., 3. landsk. þm. telur sig geta fallizt á það, ef brtt. hans á þskj. 20 verða samþ. En ég og hv. 1. þm. Rang. viljum samþ. frv. — Eins og venja er til við 2. umr., vil ég víkja að einstökum gr. þess.

1. gr. fjallar um skipun kauplagsnefndar, og er svo ráð fyrir gert, að hún skuli framvegis vera skipuð 5 mönnum, í stað þriggja. Í n. eiga sem sé að bætast 2 fulltrúar, annar tilnefndur af Bandalagi opinberra starfsmanna, en hinn af Búnaðarfélagi Íslands. Við teljum, að rétt sé að fjölga mönnum í nefndinni, svo að fleiri sjónarmið komi til greina við útreikning verðvísitölunnar. Öllum er kunnugt um það, hve mikil áhrif vísitöluútreikningurinn hefur á fjármál okkar nú.

Í 2. gr. frv. er fram tekið, að til 1. sept. 1942 sé óheimilt að hækka grunnkaup launþega, og enn fremur, að verðlagsuppbót, sem greidd er á slíkt grunnkaup, megi ekki fara fram úr uppbót þeirri, sem greiðist samkv. þeirri vísitölu, sem byggð er á framfærslukostnaði 1. okt. 1941.

Í fjhn. kom fram, einkum hjá einum nm., nokkur ótti um það, að ákvæði þessarar gr., ef að l. yrði, gætu hindrað það, að bændur fengju fólk til vinnu að búrekstrinum, og gæti það leitt til þess, að bændur yrðu að brjóta l. eða hætta búskap að öðrum kosti. Það er kunnugt, að kaupgjald við sveitastörf er afar misjafnt á hinum ýmsu stöðum. Því þyrfti e. t. v. að setja í frv. nánari skýringar á því, hvað við er átt í frvgr. með því að kaupgjald það, sem greitt er án þess að beint sé miðað við verðlagsuppbót, skuli ekki hækka frá því, sem það var fyrir gildistöku l., miðað við sama stað og sama árstíma árið á undan gildistöku þeirra. Ef það gæti haft úrslitaáhrif á framgang málsins, erum við, sem stöndum að nál. á þskj. 18, fúsir til samvinnu um þetta sérstaka atriði. En við, sem viljum samþ. frv., viljum taka það fram, að okkur er vel ljóst, að samhliða ráðstöfunum í þá átt er óhjákvæmilegt að gera fleira, sem sé að takmarka vinnu íslenzkra manna hjá setuliðinu, eða reyna að koma í veg fyrir, að svo mikil vinna fari í þágu setuliðsins, að ekki fáist nægilegt vinnuafl til framleiðslustar fanna. Enn fremur er sjálfsagt að draga úr opinberum framkvæmdum, ef þörf krefur, t. d. um heyskapartímann. Við getum ekki fallizt á, að rétt sé að samþ. brtt. hv. 3. landsk. þm. Hv. þm. telur, að samþykkt frv. geti haft lamandi áhrif á landbúnaðinn, því að ekki muni fást hið nauðsynlega vinnuafl. En hvað má þá segja um kauphækkunina í sveitum landsins? Það er langt frá því að vera nokkur lækning, að kaup hækki í sveitum og afurðaverð þá líka. En með því hins vegar að gera jafnhliða öðrum ákvæðum frv. ráðstafanir til að stemma stigu fyrir óeðlilega miklum straumi vinnuafls að öðrum störfum, tel ég, að mætti að miklu leyti koma í veg fyrir þá hættu, að vinnuaflið hverfi úr sveitunum.

Í 3. gr. eru ákvæði um, að óheimilt sé að hækka útsöluverð á innlendum afurðum á innanlandsmarkaði. Að vísu er heimilt að hækka verð á einstökum vörutegundum eftir árstíðum, og er ljóst, að það er nauðsynlegt, til þess að framleiðendur geti fengið jafnhátt verð fyrir þær vörur, sem þarf að geyma.

4. gr. veitir ríkisstj. aukið vald til að ákveða hámarksálagningu á vörur, enda hafi áður verið leitað tillagna verðlagsnefndar.

5. gr. er um takmörkun á flutningsgjöldum með íslenzkum skipum eða skipum, sem leigð eru af íslenzkum aðilum.

6. gr. er um, að óheimil sé frekari hækkun húsaleigu en samkv. gildandi l.

7. og 8. gr. eru um stofnun og verkefni dýrtíðarsjóðs. Til er ætlazt, að verulegt fjármagn verði til umráða til þess að koma í veg fyrir hækkun á verðlagi nauðsynja til neyzlu og framleiðslu innlendra vara, og er ljóst, að það mundi draga mjög mikið úr þeirri hættu, sem annars gæti verið á verðhækkun þeirra.

9. og 14. gr. eru um það, að með reglugerð sé heimilt að setja nánari ákvæði um framkvæmd l. og um sektarákvæði.

Þetta aukaþing hefur nú setið í 3 vikur. Ríkisstj. var sammála um það að kalla þingið saman, og var talið, að það væri kvatt saman fyrst og fremst vegna dýrtíðarmálsins. Við, sem höfðum lesið greinar um þetta mál í blöðum stjórnarflokkanna, fengum þá hugmynd, að nýjar og áhrifameiri till. væru á ferðinni, og af ummælum blaðanna var ekki hægt að álykta annað en að sterkar líkur væru fyrir því, að samkomulag næðist um málið. Það gat að vísu svo farið, að Alþfl. skærist úr leik, en það átti ekki að þurfa að hindra framgang málsins, þar sem svo var að heyra, að tveir stærstu flokkarnir, Framsfl. og Sjálfstfl., væru sammála um þá nýju leið, sem till. voru komnar fram um, lögfestingu kaupsins og innanlandsverðlagsins. Þessir tveir flokkar höfðu nægan styrk til að koma till. fram og nægan styrk til stjórnarmyndunar, þó að Alþfl. skærist úr leik.

En nú hefur svo farið, að Sjálfstfl. hefur horfið frá að fylgja málinu, og er ýmsu borið við. M. a. er því haldið fram, að lögfesting á kaupinu sé óþörf, en að sama marki sé hægt að ná eftir hinni svo kölluðu frjálsu leið. En þetta er blekking. Kaup hækkar, ef ekkert er að gert. Nokkur verklýðsfélög hafa þegar sagt upp samningum í því skyni að fá fram kauphækkun, og ekki hefur heyrzt, að þessi félög hafi horfið frá slíkum kröfum. Það er viðurkennt í málgögnum Alþfl. og Sjálfstfl., að einstök verklýðsfélög þurfi að fá einhverja leiðréttingu, en það hefur áhrif á dýrtíðina til hækkunar. Allt talið um hina frjálsu leið er því tilraun til að verja undanslátt í þessu máli.

Ein skýringin á undanslætti Sjálfstfl. í þessu máli kom fram í aðalmálgagni hans, Morgunbl., fyrir nokkrum dögum. Einn af forvígismönnum flokksins í Rvík heldur því þar fram, að Sjálfstfl. geti ekki samþ. að ákveða kaupið með 1., vegna þess að hann sé orðinn stærsti verkamannaflokkurinn í landinu, en frv. sé árás í verkamannastéttina. Þetta sýnir, að sem verkamannaflokkur er Sjálfstfl. á sömu leið og Alþfl. og kommúnistar. Blekkingarnar eru af sömu tegund. Í stað þess að reyna að skýra málið fyrir verkamönnum og halda því fram, sem rétt er, að í frv. felst engin árás á þá, er reynt að skapa óánægju í von um pólitískan yl af þeim eldi.

Og nú rignir samþykktunum yfir Alþingi frá stéttarfélögum verkamanna víðsvegar um landið. Allar eru þær með sama svip, hvort sem þær eru úr tillögusmiðjum kommúnista, jafnaðareða sjálfstæðismanna.

Því er haldið fram, að frv. sé árás á verkamenn og aðra launþega, en hins er að engu getið, að í frv. er lagt til, að komið verði í veg fyrir hækkun á kaupi bænda með því að setja fast verð á þeirra vörur. Samt senda bændur engin mótmæli til þingsins. Það sýnir mismuninn á skilningi hinna ýmsu stétta á vandamálum þjóðfélagsins.

Stöðvun dýrtíðarinnar er hagsmunamál allra stétta, en ekki árás á neina stétt, hvorki launþega eða aðra, og þær ráðstafanir, sem þarf að gera, verða ekki framkvæmdar fyrr en sá skilningur er orðinn nægilega almennur hjá þjóð og þingi.

Þm. Alþfl. vilja, að verkamenn í kaupstöðum og kauptúnum geti fengið hækkað sitt kaup, en bændur ekki. Þeir halda því fram, að hækkun á verði landbúnaðarafurða sé orðin meiri en hækkun á kauptöxtum verðlýðsfélaganna. Þar með er ekki nema hálfsögð sagan. Ef fram kæmi í dagsins ljós hið raunverulega kaup verkamanna annars vegar og bænda hins vegar, þ. e. skýrslur um tekjur verkamanna og bænda fyrir og eftir styrjöldina, grunar mig, að Alþfl.-menn mundu sækja lítinn stuðning í þann samanburð. Þannig gæti vitanlega verið ástatt, að ein stétt ætti rétt á launabót, en önnur ekki. En þessu mun ekki til að dreifa eins og nú er, og sízt á þann veg, sem Alþfl.-menn vilja vera láta, og ég vil fullyrða, að það er ekki hægt að stöðva dýrtíðina með því að taka stóran hóp manna út úr og láta hann leika lausum hala. Það er þýðingarlaust fálm. Skiptir ekki máli í því samhandi, hvort það eru verkamenn einir, sem eiga að hafa rétt til að hækka sitt kaup, eins og Alþfl. vill, eða bændurnir einir, eins og fulltrúi Bændafl. vill vera láta.

Eins og ég hef getið um, eru litlar horfur á, að frv. verði samþ. Ég minntist á, að fulltrúar Alþfl. væru mjög einsýnir í þessu máli. Við höfðum búizt við, að ekki væri eins um Sjálfstfl. En það er komið á daginn, að vart er hægt að gera upp á milli þessara flokka. Þeir eru sammála um að leggja til, að frv. verði fellt. Því eru ekki horfur á, að samkomulag geti orðið um stöðvun dýrtíðarinnar fyrst um sinn. Það verður haldið áfram að elta seðlavofuna, og það er þá ekki í fyrsta sinn, sem menn elta vofur hér á landi. Margar sagnir eru um svipi, sem villtu vegfarendur í dimmu á fjallvegum. Ef fleiri voru á ferð saman, komu stundum upp deilur um það, hvaða stefnu bæri að taka. Sumir töldu sig sjá mann á ferð skammt frá, sem í rauninni var aðeins svipur framliðins, og vildu elta hann. Aðrir vildu taka aðra stefnu.

Þessi gamla og þekkta saga er hér að endurtaka sig. Sjálfstæðismenn og Alþfl.-menn ætla að halda áfram að elta vofuna, og þeir gera óp

að þeim samferðamönnum, sem vilja taka aðra stefnu, í áttina til byggða.

Sennilega verður ekki víð þetta ráðið í þetta sinn. Þeir verða að fá að elta vofuna áfram eitthvað lengur. Spurningin er aðeins um það, hve lengi þessir ferðamenn, sem allir kalla sig forsvarsmenn verkamanna, halda áfram að elta vofuna. Elta þeir hana alla leið ofan í gilið, þar sem tortímingin bíður, eða opnast augu þeirra áður en það er orðið of seint?