28.04.1942
Sameinað þing: 9. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í D-deild Alþingistíðinda. (1002)

42. mál, aðstoð við íslenzka námsmenn á Norðurlöndum og í Þýzkalandi

*Héðinn Valdimarsson:

Ég kom með brtt., af því að þessi þáltill. nær eigi lengra en hún nær. Mér þykir ekki rétt að takmarka aðstoðina við námsmenn á Norðurlöndum og í Þýzkalandi. Mér þykir eðlilegt, að Alþ. ákveði kjör þeirra allra sem svipuðust, hvar sem þeir eru, að allir séu styrktir sem nemur helmingi námskostnaðarins. Þetta væri þó vitanlega aðeins heimild handa ríkisstj. Eins væri eðlilegt, að tekið væri tillit til ójafns námskostnaðar í hinum ýmsu löndum, þannig að styrkurinn væri ekki miðaður við ákveðna upphæð, eins og Ameríkustyrkurinn, heldur við ákveðinn hluta af námskostnaðinum (helming), svo að stúdentum sé á þann hátt gert kleift að stunda sérnám sitt þar, sem það er talið rezt, þótt það sé í sumum tilfellum dýrara en þar, sem skilyrði eru lakari til námsins. Náttúrlega er þetta eða væri aðeins heimild fyrir stj.

Frsm. n. hefur ekki komið með nein rök á móti till. minni. En ég vænti þess, að þótt n. hafi ekki viljað fallast á till. mína, þá geri hv. þdm. það.

Þá vil ég gera þá fyrirspurn til hæstv. dómsmrh., eftir hvaða reglum styrkurinn til Ameríku hafi verið veittur. Mér er t.d. kunnugt um kvenstúdent með fyrirtaks einkunn og meðmælum, er var synjað um styrk. Ég vildi spyrja, hvort miðað væri við karlmenn og þá af hverju.