08.05.1942
Sameinað þing: 13. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í D-deild Alþingistíðinda. (1080)

77. mál, menntaskólinn í Reykjavík

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Aðalatriðið í sambandi við þessa þáltill. er eðlilega það að fela ríkisstj. að finna hentugan stað fyrir menntaskólann og taka ákvörðun viðvíkjandi byggingu hans. Ég býst við, að allir þm. séu sammála um, að byggður verði nýr menntaskóli og ríkið geri því sínar ráðstafanir til þess. Að því er snertir stað fyrir menntaskólann, er vitanlegt, að ef hann á annað borð á að standa í Reykjavík, þá er heppilegast að hann standi þar, sem hann er nú. Og ríkið á að hafa það í hendi sinni að tryggja sér nægilega stóra lóð þar í kring, til þess að skólinn geti verið fullsæmdur af að vera áfram þar, sem hann hefur verið. Og ég vildi aðeins leggja til í því sambandi, að þegar ríkisstj. lætur fara að athuga uppdrætti að menntaskóla og ákveða stærð hússins, verði gert ráð fyrir vexti þessa skóla. Það má ekki gera ráð fyrir, að sú stefna haldist, sem nú hefur ríkt um nokkurt skeið, að takmarkaður sé — og það nokkuð mikið — inngangur í menntaskólann. Ég álít, að það þurfi að taka tillit til þess við bygginguna, fjárveitingar og aðrar ráðstafanir, að skólanum sé ætlaður ör vöxtur, að húsrúm verði ekki skorið svo við nögl, að hægt verði að nota það seinna sem átyllu til að hindra aðgang manna að skólanum.

Hv. frsm. hefur nú rætt allmikið, bæði í umr. um þetta mál og einnig í þáltill. sinni, um að flytja skólann burt, og er það aðalatriðið, sem veldur ágreiningi. Áður en ég ræði það, vil ég víkja nokkuð að ummælum hv. flm., 1. þm. Skagf., um afstöðu til aðgangs nemenda að skólanum. Hann kvað nauðsynlegt að gera ráðstafanir til þess, að nemendur fengju að komast áfram í skólanum, og virtist leggja þó nokkuð upp úr því, að nemendur séu ekki rifnir út af þeirri braut, sem þeir hafa sjálfir ákveðið að ganga. Nú vil ég hins vegar benda á, að með núverandi fyrirkomulagi eru alveg sér staklega gerðar ráðstafanir til þess að rífa menn út af þessari braut, þar sem ráðstafanir eru gerðar til þess, að þeir, sem standa verr að vígi vegna fátæktar eða annarra slæmra aðstæðna, eiga erfiðara með að komast inn í menntaskólann en ætti að vera. Við vitum, að upp á síðkastið hefur það orðið einkaréttur fyrir börn þeirra efnaðri að fá að komast að menntaskóla, vegna þess að slíkir foreldrar hafa getað séð fyrir nægilegri undirbúningskennslu til að standast þau inntökupróf, sem þarf. Þetta hefur gengið svo langt, að það er komin sérstök stofnun, sem einn af kennurum skólans hefur með að gera, sem tekur að sér að búa menn undir inntökupróf. Og þessa útungunarvél verður fjöldinn allur að ganga í gegnum til þess að komast inn í skólann, og er orðið nokkurs konar skilyrði þess. Þetta fyrirkomulag er alveg ófært. Og þegar sérstaklega er verið að tala um það, að það þurfi að lofa mönnum að komast áfram á námsbrautinni, þá vil ég leggja áherzlu á, að það dugar ekki að láta annað eins og þetta viðgangast. Það verður að opna skólann fyrir fátækari stéttunum og afnema þennan einkarétt, sem komizt hefur á.

Þá vík ég aftur að spurningunni um, hvort hinn almenni menntaskóli eigi að vera í Reykjavík eða úti á landi. Við vitum, hverju er haldið fram í því sambandi. Það er bent á gamlar erfðir í sögu okkar. Við því er það að segja, að það var réttmætt á sinni tíð að hafa skólann í Skálholti og miðaðist við þáverandi aðstæður hér á landi og möguleika til að afla sér menntunar. En það þjóðfélag er horfið og kemur vafalaust ekki aftur. Það þjóðfélag, sem við búum við, einkennist af menningu bæjanna og heimtar, að við lögum skólafyrirkomulagið að svo og svo miklu leyti eftir kröfum þeirra. Nú er því haldið fram, að bæjarlífið hafi allmikil spillandi áhrif á skóla okkar, t.d. nemendur menntaskólans. Ég býst við, að það sé ekki einn einasti bær, sízt af öllu höfuðborg, sem ekki er hægt að segja slíkt um. Borgarlífið felur alltaf í sér tvennt: Borgirnar verða miðstöð menningar og um leið stundum allt að því spillingarbæli. Þessir tveir þættir. eru — a.m.k. með núverandi þjóðskipulagi — óaðskiljanlegir. Og það er ómögulegt að ætla að flýja þá hugsanlegu möguleika á spillingu, sem þar kunna að vera. Hins vegar þykir mér rétt að undirstrika þá þýðingu, sem bæirnir hafa, sérstaklega Reykjavík, sem menningarmiðstöð. Við verðum að gá að því, hvernig menningarlífið var á Íslandi, — hvílík barátta það var fyrir þá, sem vildu halda uppi menningu, í þeirri einangrun, sem þá var í landinu. Mönnum hættir nú á tímum til að fegra sveitalífið allt of mikið, en gleyma þeirri andlegu einangrun, sem áður fylgdi sveitalífi á Íslandi, hvað hún var drepandi fyrir andans menn. Það var engin tilviljun, að mörg af okkar beztu skáldum á 19. öld ortu beztu ljóð sín úti í Kaupmannahöfn, og að Jón Sigurðsson, okkar mesti maður í sjálfstæðisbaráttunni, bjó í Kaupmannahöfn nær allan sinn aldur. Það eru þeir menningarstraumar, sem þrífast í stórborgunum, sem gera það að verkum, að mögulegt er að halda sér vakandi, þar sem mönnum hættir við að forpokast í einangruninni, sem sveitin var sérstaklega táknandi fyrir á Íslandi. Og ég verð að segja, að ég álít, að Menntaskólinn í Reykjavik mundi missa stórkostlega við að fara úr Reykjavík. Að ganga hér í menntaskóla, sérstaklega fyrir pilta utan af landi, er ekki bara að læra fögin. Það er meira til. Ég veit það bezt sjálfur, að það var a.m.k. eins mikill þáttur í þeirri menntun, sem ég hlaut hér í menntaskólanum, sem ég gat lesið utan við námsfögin í skólanum, eins og hitt, sem manni var kennt þar. Námsfögin eru að miklu leyti lykill, — ekki sízt tungumálin —, að andlegum fjársjóðum, sem maður síðar notar. Not þessara námsgreina fær maður fyrst og bezt með því að eiga aðgang að verulega miklum bókakosti. Og bókakostur á Íslandi er sérstaklega sameinaður hér í Reykjavík. Og það eru engir smáræðis möguleikar til menntunar, sem nemendur í efri bekkjum menntaskólans væru sviptir. með því að skólinn væri fluttur úr Reykjavík. Það er ekkert spursmál, að sú menntun, sem söfnin hafa þannig upp á að bjóða, er stórkostlegur liður í menntun hvers þess manns, sem á annað borð hefur áhuga fyrir að nota sér þessa menntunarmöguleika. Ég skal ekki dæma um, hvernig þeir nemendur, sem nú ganga í menntaskólann, nota þessa möguleika, en ég leyfi mér að fullyrða, að sé menntaskólinn almennt fyrir íslenzka æsku og efnalegir möguleikar til að stunda nám, þá er hún svo námfús, að hún fari mikils á mis, ef hún ætti ekki kost samtímis námsgreinunum hér að hafa aðgang að söfnunum hér.

En hér er margt fleira en söfnin. Hingað koma fyrst og fremst þeir menningarstraumar, sem berast til Íslands erlendis frá. Bækur og blöð, innlend og útlend, koma fyrst hér fram og ná oft og tíðum ekki lengra. Við vitum, að það koma bækur til Reykjavíkur, sem farnar eru eftir nokkra daga og aldrei sjást úti á landi. Og eins og sakir standa, eru bækur einn aðalboðberinn fyrir hvern þann menningarstraum, sem uppi er í veröldinni. Sama gildir um aðrar greinar, svo sem kvikmyndir, leiklist og annaðslíkt. Það er að vísu hægt að finna margt að kvikmyndalistinni og myndum þeim, sem eru sýndar, og eru sumar til tjóns. En ég býst við, að með vaxandi samkeppni og afskiptum hins opinbera af slíku, standi þetta til bóta. Og síðast en ekki sízt, — hér í Reykjavík eru möguleikar til sambands við þá menn, sem yfirleitt eru að hugsa um hin o þessi mál, sem varða menningu okkar, og flytja um þau erindi. Hér er virkilega sú lifandi menning saman komin. Og nú göngum við út frá, að ekki sé tilætlunin með menntaskóla, að allir far: í háskóla á eftir, svo að þeir þá geti fengið tækifæri til að vera í Reykjavík og afla sér þess, sem þeir fara á mis við í menntaskóla úti í sveit. Ég er þeirrar skoðunar, að gefa eigi sem allra flestum kost á því, sem stúdentsprófið felur í sér, sérstaklega með þeim tengslum, sem eru sérstæð milli menntaskóla og vinnumöguleika, sem hv. frsm. tók fram. Og það þýðir það, að í menntaskólanum fengju nemendur kannske eina tækifærið til að kynnast því menningarlífi, sem er í Reykjavík. Menn tala um spillinguna í Reykjavík, og ekki ætla ég að verja hana. En mönnum hættir til að gleyma, hvað Reykjavík er sem menningarmiðstöð, eða draga úr því, og það álit ég mjög skaðlegt. Ég álít það væri bókstaflega hrekkur við skólamenningu okkar, ef menntaskólinn væri fluttur úr Reykjavík.

Ég held, að hv. flm. hafi komið inn á það, að mörg heimili í Reykjavík, sérstaklega heimili innflutts fólks, væru veik frá uppeldislegu sjónarmiði. Það væri ekki nema eðlilegt, að reykvísk heimili væru laus í sér, því að margt fólk hefur verið slitið upp úr þeim jarðvegi, sem það var í. Spursmálið er þá, hvort við eigum ekki að styrkja þessi heimili og skapa sterkar í bæjarmenningu, eða hvort við eigum að flýja frá því verkefni, flytja skólana og einangra þá í sveitunum, — einangra þá frá þeim menningarstraumum, sem bæirnir hafa upp á að bjóða, og gefast upp við að skapa verulega sterka og rótfasta bæjarmenningu. Ég álít, að þessi rök um veik heimili snúist í raun og veru við, — að okkur beri því fremur að reyna að styrkja heimilin með því að gefa þeim, sem þar vaxa upp, kost á frekari menntun. Nú sem stendur er fjöldinn allur af slíkum heimilum útilokaður frá því að geta sent börn sín á menntaskóla. Ég hygg því, að rétt meðferð á þessari till. sé að fella burt síðari hluta hennar. Hins vegar vil ég að lokum benda á, að þingið þarf að taka að sér það mál að gera ráðstafanir til þess að opna virkilega menntaskólann aftur.