01.04.1942
Efri deild: 26. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í B-deild Alþingistíðinda. (1196)

50. mál, aðstoðarlæknar héraðslækna

*Bjarni Snæbjörnsson:

Eins og hæstv. forseti veit, þá snerist fyrri ræða mín um að fá frestun á málinu, en ég mun nú nota tíma minn til að gera nokkrar athugasemdir við ræðu hv. frsm. Hann sagði, að ég hefði getað komið með brtt. við þetta frv., ef ég hefði viljað. Það er alveg rétt, en ég kæri mig ekki um að koma með brtt. við þetta frv., sem nú er á dagskrá, því að það er í sjálfu sér ekki ásteytingarsteinninn, heldur hitt frv., og þegar hv. frsm. lýsti yfir því, að þetta frv. væri ónýtt, nema hitt væri samþ., þá hef ég slengt þessum málum saman. — En skrifl. brtt. álít ég, að ég geti ekki gert við hitt frv., fyrr en það er komið fram og farið að ræða það. Því að þrátt fyrir það að ég hef neyðzt til að ræða um bæði málin nú, vegna þess að hv. frsm. n. byrjaði á því, þá er ég ekki kominn til þess að segja, að ég steinþegi, þegar næsta mál á dagskránni verður tekið til umr., því að þá er ástæða fyrir mig til að koma með þær brtt., sem ég vildi gera í málinu. En eins og ég tók fram áður, vil ég ekki gera slíkar brtt. eingöngu frá mínu eigin brjósti, heldur í samráði við þá menn, sem þar eiga hlut að máli. Ég hef ekki talað nokkurn hlut við læknanemana um málið fyrir en í gær síðdegis. Og í dag, þegar fundur átti að byrja, voru þeir tveir hér frammi og vildu tala við mig. En ég sagði þeim, að ég ætlaði að fá málið tekið af dagskrá í dag, og þá mundum við fá tækifæri til að ræða um málið, og mér datt sannarlega ekki í hug, að þetta yrði ekki auðvelt. En nú sé ég, að það er ekki svo auðvelt að fá þessu framgengt. En svo hefur það verið, hvort sem það hefur verið mál, sem ég eða aðrir einstakir hv. þm. hafa haft hér í þinginu, hefur það þrásinnis komið fyrir, að málin hafa verið tekin af dagskrá vegna þess, að einhver hefur óskað þess, sem hefur viljað gera brtt. við þau, en ekki verið tilbúinn með þær. Þetta hefur alltaf fengizt, sérstaklega þegar ekki hefur verið mjög liðið á þingtímann. En nú bregður svo við, að þetta á ekki að fást. Hv. frsm. n. segist ekki vilja annað en að málinu verði haldið áfram, og hæstv. forseti gefur úrskurð um það, að úr því að hv. frsm. n. og n. vilji halda málinu áfram, þá álíti hann, að það sé ekki tímabært að bera það undir hv. d. En þó er það ekki n. í heild, sem óskar þessa, vegna þess að einn hv. nm. vantar, og ég býst við, að sá hv. nm. hefði stutt mál mitt um það, að málið verði nú tekið út af dagskrá. Hef ég fulla ástæðu til að ætla það.

En ég vil einnig svara því, er hv. frsm. sagði, að ég hefði borið honum og n. á brýn, að hún bæri frv. fram af fjandskap við læknana. Ég sagði, að sú meðferð þessa frv., að vilja ekki fá samkomulag í málinu, gæfi mér tilefni til þess að álita, að þetta mál væri borið fram af fjandskap við læknana. Því að ég skil það bókstaflega ekki, hvers vegna það eru ekki heppileg vinnubrögð að lofa mér og öðrum í þinghlénu um páskana að tala við n., heldur að láta engan aðila fjalla um málið þann tíma til leiðréttingar í þessu máli. Og þó að ég sé miklu yngri hér á þingi heldur en hv. frsm., þá verð ég að segja, að ég hef alltaf haldið, að það þyrfti að vera búið að skýra frá því í d., að frv. hefði verið sent frá hinni d., áður en hægt hefði verið að taka það til umr. Þetta hefur a.m.k. verið vani hér í d., að áður heldur en frv. hefur verið tekið til meðferðar, þá hefur verið skýrt frá því í forsetastóli, að frv. hafi verið sent til d. Þess vegna er það ekki rétt, sem hv. frsm. sagði, að hægt vær í að taka málið fyrir fyrsta dag eftir páskana í Nd. En ef það er tekið fyrir hér með samkomulagi, þá eru líkindi til þess, að hægt sé að skýra frá því fyrsta þingdag eftir páska, þannig að fundi sé ekki lokið þar, þegar fundi er lokið hér í Ed., að frv. séu send til Nd., og þá er hægt að taka málið fyrir þar strax daginn eftir. Þyrfti því það, að taka frv. af dagskrá nú, ekki að seinka málinu neitt. Hv. frsm. er miklu reyndari í þessum sökum og sennilega öllum flækjum á þingi heldur en ég, svo að hann hlýtur að játa, að þetta er svona.

En það, sem er þungamiðjan í þessu máli, nauðsynin á að bæta ástandið í þessu máli frá því sem nú er, erum við sammála um. Og þar sem hv. frsm. segir, að ég hafi hugsað um hag læknanna, en ekki læknislausu héraðanna, þá hlýtur hann þó að skilja, að um leið og maður hugsar um, að vel sé búið að læknum í afskekktum héruðum, þá hugsar maður líka um héruðin, að það fáist læknar í þau. Ef vel er búið að læknunum í afskekktu héruðunum, þá er það trygging fyrir því, að þau verði ekki læknislaus. Og það er eins og hver annar útúrsnúningur, sem hv. frsm. sagði um það, sem ég hefði sagt í þessu sambandi. N. vildi hlusta á þá aðila, sem eru á móti því, að þessi frv. verði samþ. óbreytt, en vildi ekki hlusta á nokkur rök um að taka brtt. til greina. En hv. 2. landsk. lýsti því betur en hv. frsm., að það þyrfti að bæta kjör læknanna.

Hv. frsm. minntist líka á það, og það má vel vera rétt, að ég hefði ekki vandað svo mjög til þessarar löngu ræðu minnar. Þetta má vel vera, því að ég ætlaði mér alls ekki að halda langa ræðu nú, heldur ætlaði ég mér að halda ræðu, þegar brtt. kæmu fram, og byggja ræðu mína á þeim. En þegar slíku offorsi er beitt, eins og hér er komið fram, þá varð ég að koma fram með þau rök, sem ég hafði á takteinum til þess að fá hv. þm. til að samþ. að fresta umr. um málið og athuga það betur í n. Mér þykir náttúrlega mjög illa farið, að ræða mín hefur ekki getað verið skipulegri og skemmtilegar fram sett rökin í henni, því að þá hefði ég kannske getað sannfært einhverja hv. þdm. um það, að málstaður minn er réttur, þó að ég hafi ekki getað sannfært hv. frsm. En það, sem gerir það að verkum, að ég hef verið enn þá harðari á því, að það verði reynt eitthvert samkomulag í þessu máli, eru einmitt læknanemarnir, sem mér finnst undir öllum kringumstæðum, að taka beri tillit til. Og ég hef, því miður, ekki haft tækifæri til að tala neitt við þá, nema þetta lítillega í gær síðdegis og annað ekki. Og þó að n. hafi talað við þá, þá hefði mér þótt viðkunnanlegra, úr því að þeir mæltust til að fá að tala við mig um málið, að ég gæti haft einhver þeirra rök og borið fram hér í hv. d. Og þess vegna er það, sem ég hef farið þess á leit, að frestað yrði 3. umr. málsins og málið tekið af dagskrá nú. Því að það er eins og hver önnur firra, að þeir séu ekki. fúsir til að vinna hvert það starf fyrir þjóðina, sem þjóðin heimtar af þeim, og að þeir álíti, að þjóðin sé til fyrir þá, en þeir séu ekki fyrir þjóðina. Það er síður en svo, að það sé hægt að segja það um læknana eða læknanemana. Því að það er sú skuldbinding, sem þeim er gert að undirskrifa — ég held, að það gildi ekki um neina aðra stétt en læknana — að þeir, þegar þeir taka próf og fara í embætti, þá undirskrifa þeir það, að þeir skuldbindi sig til að vinna sitt starf með jafnmikilli trúmennsku, hver, sem í hlut á, og hvort sem þeir taki eða fái borgun fyrir eða ekki. A.m.k. undirskrifaði ég þetta., og ég býst við, að slíkt gildi enn. Og ég býst ekki við, að læknar spyrji um það, hvort þeir fái borgun fyrir störf sín eða ekki í hverju einstöku tilfelli, heldur vilji starfa fyrir þjóðfélagið sem þjónar þeirra manna, sem þeir vinna hjá. En þeir krefjast þess líka, að það sé sæmilega farið með þá.

Það er ekki nema aths., sem ég hef, sagði hæstv. forseti. Og þó að fyrri ræða mín snerist um annað ýmislegt en þetta mál sérstaklega, sem fyrir liggur, þá vil ég verða við tilmælum hæstv. forseta, enda ætla ég ekki að hafa málþóf um málið. En ég vildi sannfæra sem flesta um það, að það væri eitthvað annað heldur en upp var látið, sem réð því, að ekki gekk greiðlega að fá málinu frestað þangað til fyrsta dag eftir páska.