07.05.1942
Efri deild: 51. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í B-deild Alþingistíðinda. (1443)

69. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Erlendur Þorsteinsson:

Herra forseti! Það er rétt, að n. er sammála um, að frv. eigi að fá fljóta og góða afgreiðslu og samþ. þess sé til bóta. Ég er að vísu allóánægður með einstök atriði þess, en að öðru leyti og einkum að því, er snertir upphæð skattsins, hygg ég það mikla bót frá því, sem nú er. Ekki get ég gert mikið úr því, að eigi megi samþ. brtt., þótt svipaðs efnis séu og þær, sem felldar voru í Nd., því að vel gæti Nd. fallizt á þær síðar, þótt henni sýndist ekki að gera það við fyrstu raun, er hún vissi ekki vilja Ed. Þegar varað er við brtt., get ég ekki stillt mig um að vekja athygli á því, sem fram kom hjá hv. frsm. (MJ), að um þetta mál hefði sérstaklega verið samið utan þingsins, svo að þm. hefðu lítið annað að gera en leggja á frv. blessun sína, og hefðu ekkert frjálsræði til að breyta. Mér virðist þingræðið illa komið, þegar þm. eru þannig bundnir þvert ofan í stjórnskipunarlög landsins. Hvað á þá Alþ. að starfa? — Það ætti a.m.k. ekki að þurfa að sitja lengi. Mætti stytta þingtímann allmjög, ef samið er fyrirfram um þingmálin og engu má breyta á Alþ. sjálfu, og þá sérstaklega ef hæstv. ríkisstj. fæst ekki til þess að vera viðstödd og hlusta á rökræður þm. um höfuðmálin.

Alþfl. og Sjálfstfl. ber hér á milli um meginatriði. Sjálfstfl, viðurkennir, að eftir stríðið þurfi að vera fyrir hendi miklir peningar til viðreisnar og nýsköpunar, en óskar eftir, að þeir séu sem allra mest í höndum einstaklinga. Því er Alþfl. mótfallinn og vill draga sem mest af stríðsgróðanum í sameiginlegan sjóð þjóðarinnar til að veita fénu aftur þaðan til atvinnulífsins eftir þörfum. Framsfl. virðist hvorugt þessara sjónarmiða viðurkenna, en vill skipta stríðsgróðanum milli þjóðfélags og einstaklinga, án þess að settar séu fastar reglur um, hvernig verja skuli þessu fé. — Við 1. umr. málsins skýrði ég nánar afstöðu okkar Alþflm. og tók dæmi. Það nær engri átt, að þjóðfélagið láti þann ójöfnuð viðgangast, að tveir dugnaðarmenn, sem vinna t.d. báðir að útgerð, en annar er svo heppinn að hafa umráð yfir stóru fiskiskipi, kannske einu aðeins í stríðsbyrjun og verður stórauðugur, hinn svo óheppinn að hafa smærri skip — jafnvel mörg — og kemur úr stríðinu örsnauður, — að þeir eigi þaðan af, og þeirra niðjar, að vera auðmaður og öreigi. Þar verður að taka í taumana. — Í þessum efnum skilur milli mín og hæstv. viðskmrh. (EystJ), sem heldur því fram, að skattatill. sínar séu svo róttækar, að við Alþflm., vitum ekki, hvernig við eigum að verða róttækari sjálfir. Hann er eins og margir afturhaldssömustu menn í því, að hann skilur aldrei, hversu afturhaldssamur hann er sjálfur.

Í þessu frv. er sérstökum fyrirtækjum og einstaklingum gefið tækífæri til þess m,eð sérhlunnindum að komast yfir stóreignir. Það er auðvitað nákvæmlega sama, þótt svo heiti, að þær eignir séu bundið fé í nýbyggingaskyni, þegar leyft er að nota féð til fasteignakaupa, hvar sem er og í hvaða tilgangi sem er, verðbréfakaupa o.s.frv. Í brtt. á þskj. 336,1,a, legg ég fyrst og fremst til, að eigi sé allt varasjóðstillag félaga þessara skattfrjálst, heldur 3/4 þess, þó eigi hærri fjárhæð en nemur 1/3 af hreinum tekjum, en skattur greiðist þá af 1/4 varasjóðstillagsins. En í frv., 4. málsgr. 3. gr., er alveg horfið frá því, að félögin þurfi að gjalda nokkuð fyrir fríðindin, þau þurfa ekkert að gjalda í varasjóðinn umfram hið skattfrjálsa tillag, og þannig er ýtt undir þau að leggja ekki neitt meira þangað, ýtt undir þau að eyða gróða sínum til unnars. Brtt. mín á að vinna móti því og auka varasjóðstillagið.

Þá kemur annað atriðið, að frv. heimilar, eins og kunnugt er, mjög víðtæka notkun á því fé sem binda átti með ákvæðum í l. í fyrra, ákvæðum, sem nú eru felld úr gildi að miklu leyti. Ef mönnum er alvara að sporna við verðbólgu, er það hið mesta glapræði að losa þannig um mikið fé og hlýtur að hefna sín. Í stað þess að notkun fjárins átti að vera algerlega bundin við útgerðarfyrirtækin sjálf, er nú heimilt að beina því í allt aðra fjármálastarfsemi eða hús og jarðir eða iðnfyrirtæki. Menn vita, að boðið hefur verið 4—5–falt nafnverð í hlutabréf prentsmiðjunnar Eddu og hluti þeirra seldur a.m.k. þreföldu nafnverði. Ekki væri hægt að því að finna samkv. frv þótt útgerðarfyrirtæki keypti hlutabréf í þessu félagi við a.m.k. ferföldu nafnverði. En hvað mundi leiða gott af því fyrir útgerðina? — Og ekki er nóg, að þannig sé leyft að veita fénu í aðrar greinar og óviðkomandi hluti þjóðfélagsins, heldur er auðsætt, hve útgerðarfyrirtæki, sem ræður yfir 30% af gróða sínum til slíkra hluta, stendur margfalt betur að vígi en önnur fyrirtæki, sem ráða yfir 14% af gróða sínum, til þess að ná undir sig miklum og margvíslegum eignum og ítökum í þjóðfélaginu. Ég óttast, að hér sé vitandi vits verið að gefa fámennri stétt og raunar fáum einstaklingum sérréttindi til stóreignakaupa og brasks. En síðar, þegar erfiðir tímar koma, verða þær stóreignir óseljanlegar, a.m.k. því verði, sem þær voru keyptar fyrir. — Allt situr fast. Og þá koma þessir sömu útgerðarmenn og þurfa að fá nýjar ívilnanir til að fleyta sér og rekstrinum. Ég legg því til að binda notkun þessa fjár á líkan hátt og í gildandi l., — þó skuli leyft að kaupa fyrir það opinber verðbréf, skuldabréf með ríkisábyrgð o.fl., sem telja má jafntryggt og handbært og það fé, sem geymt yrði í peningastofnunum landsins. — C-liður sömu brtt. er afleiðing fyrri liða.

Þá er 2. brtt. á sama þskj. um, að tvær seinustu málsgr. 7. gr. falli niður, en þær ákveða, að hlutabréf skuli telja fram til eingarskatts með nafnverði. Nú er í skattal. gert ráð fyrir, að eigendur telji bréfin fram með matsverði á hverjum tíma eða skattanefndir meti þau til verðs, með hliðsjón af því, hve mikinn arð félögin greiða. Hlutabréf, sem hægt er að selja í dag á 30 þús. kr., eru e.t.v. aðeins þúsund kr. að nafnverði. Í hverra þágu er verið að breyta þessum ákvæðum? Er ekki þarna um að ræða persónulega hagsmuni einstakra manna? Ég spurði um það við 1. umr. þessa máls og sagðist verða að skilja þögnina við spurningunni sama og játun hæstv. ríkisstjórnar. Hún svarar ekki enn og hefur nú játað þetta þannig að fullu. Fyrir stríð var hér fjöldi manna talinn eignalaus í skattskrá, en eftir fyrsta stríðsárið eiga þeir að greiða 4–11 þús. kr. eignarskatt. Þegar að þessu var spurt, kom svarið, að menn þessir hefðu átt verðlaus eða nær verðlaus hlutabréf, sem síðan hefðu hækkað upp úr öllu valdi.

Setjum nú svo, að hlutábréf einhvers þessara manna séu 100 þús. kr. að nafnverði og hann ætti eftir frv. að gjalda skatt af 100 þús. kr. aðeins. Nú selur hann þau á 300 þús. kr. og leggur féð á vöxtu, en eftir það verður hann að gjalda skatt af 300 þús. kr. Hvaða réttlæti er í því að hlífa hlutabréfum mannsins svo við skatti móts við aðrar jafngildar eignir? Og sum hlutabréf ganga í þrítugföldu nafnverði í Ein lítil aths. frá fjhn. Nd. segir, að þetta nýja ákvæði sé til að koma í veg fyrir tvísköttun. Það er ekki rétt, — snertir aðeins framkvæmdaratriði í útreikningi skatts í einstökum tilfellum. — Nei, hér er verið að skapa sérstökum mönnum góða aðstöðu.

Ég vænti þess, að ég hafi gert grein fyrir brtt., en fer annars ekki út í einstök atriði frv., þar sem ríkisstj. er fjarstödd.