07.04.1942
Efri deild: 27. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í B-deild Alþingistíðinda. (1609)

55. mál, lækningaleyfi

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti ! Ef maður lítur yfir þessi tvö frv., þetta, sem hér liggur fyrir, sem er 55. mál á þskj. 92 og er til umr., og hitt, nr. 50 á þskj. 80, þá lit ég svo á, að þau séu bæði til þess að bæta úr vissum annmarka, sem komið hefur í ljós á undanförnum árum, sem lýsir sér í því, að af tveimur ástæðum hafa komið til með að standa laus nokkur læknishéruð í landinu, sumpart vegna þess, að læknar hafa farið úr þeim alfarnir, og sumpart vegna þess, að þeir hafa af ýmsum ástæðum þurft að fara úr þeim um stundarsakir vegna veikinda, t.d. til þess að láta skera sig upp, og hafa þá læknishéruðin staðið læknislaus um lengri eða skemmri tíma. Ef við athugum þetta um þrjú ár aftur í tímann, þá sjáum við, að læknishéruð hafa staðið læknislaus sem nemur 24 til 38 mánuðum á ári samanlagt. Sum hafa staðið um hálfan mánuð læknislaus, önnur um langan tíma. Það er þess vegna þörf á að finna leið til þess að finna lækna, sem geta farið út í þessi héruð, af hvaða orsökum sem það svo er, að þau verða læknislaus um tíma. Nú ætlast frv. á þskj. 80 til þess, að fjórir aðstoðarlæknar séu launaðir, til þess að til þeirra megi grípa, ef þörf gerist, allt að fjóra mán. á ári, eins og nánar er tilgreint í frv. Þessi tími samanlagður mundi vera helmingur af þeim tíma, sem héruðin hafa staðið minnst læknislaus síðustu 3 árin. Það frv. bætir ekki úr meiru. En löggjafinn á að ráða bót á því, sem á vantar, með því að setja í l. heimild fyrir því, að menn, sem lokið hafa læknisprófi, verði látnir hlaupa í skörðin samkv. frv. því, sem fyrir liggur á þskj. 92, og þjóna fyrir þá lækna, sem þurfa að fara úr héruðum sínum um lengri eða skemmri tíma, af hvaða ástæðum sem það er. Ég veit ekki, hversu margir kandidatar útskrifast að jafnaði úr læknadeildinni á ári, en geri þó ráð fyrir, að það nægi að binda þetta ákvæði við 4 mánuði, en þurfi ekki að fara með það upp í 6 mánaða skyldu til að þjóna læknishéruðum í slíkum tilfellum. Í frv. er þá líka heimild til að hafa tímann breytilegan.

Mér skilst, að bæði þessi frv. saman gefi dálitla tryggingu fyrir því, að hægt verði að fá menn til að þjóna í héruðunum í bili, t.d. þegar læknir er veikur. En það er ekki auðvelt, ef þarf t.d. að skera upp lækni, sem er austur á Austfjörðum, að fá lækni úr sínum praksís hér í Reykjavík til að þjóna þar eystra á meðan, fara t.d. til Hornafjarðar eða Þórshafnar, en á báðum þeim stöðum hefur nú í vetur orðið læknislaust í bili vegna veikinda læknanna þar. Þess vegna held ég, að það sé nauðsynlegt að samþ. bæði frv. Og þá gæti ég haft von um, að með því fyndist leið til að ná í vinnukraft lækna til þess að láta þá hlaupa í skörðin, þegar læknislaust yrði í héraði að öðrum kosti, þó að ég viðurkenni það, að það er ákaflega ófullnægjandi fyrir héruðin, sem annars um langan tíma verða að vera læknislaus, að fá þjónustu frá slíkum hlaupamönnum. Það fæst með þessu fullnægjandi læknisþjónusta í tvo eða þrjá mánuði fyrir héruðin, sem annars yrðu læknislaus. En fyrir héruð eins og Reykjarfjarðarhérað, sem hefur staðið læknislaust í 3–4 ár, af því að læknar fást ekki til að sækja um það, yrði þetta ófullnægjandi.

Ég álit þess vegna, að það sé sjálfsagt að samþ. frv., sem hér liggur fyrir, og að bæði þessi frv. eigi að samþ., og að með því munum við ekki nema svona nokkurn veginn hafa menn til þess að fara í skörðin fyrir þau héruð, sem verða annars læknislaus tíma á árinu, lengri eða skemmri.