19.05.1942
Efri deild: 61. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 724 í B-deild Alþingistíðinda. (2033)

20. mál, framkvæmdasjóður ríkisins

Erlendur Þorsteinsson:

Það er varla hægt að komast hjá því að svara fyrir sig, þegar hv: 1. þm. N.-M. rýkur hér upp í ofsa. Ég lét þau orð falla við 2. umr., að fremur bæri að stofna nýjar framleiðslugreinar fyrir landbúnaðarafurðirnar auka þær, sem fyrir eru, með þeim afleiðingum, að ríkissjóður þarf svo að verðbæta meginhluta framleiðslunnar. Ég veit ekki, hvað hv. 1. þm. N.- M. átti við, er hann var að tala um fyrirframábyrgð. Ef til vill á hann við það, þegar ábyrgzt var fyrir fram, að greiða sjómönnum og útgerðarmönnum 12 kr. fyrir málið af síldinni 1940. Ekki varð ríkissjóður fyrir neinum halla þess vegna, síður en svo. Þegar gert var upp, kom í ljós, að hægt var að greiða kr. 13.60 fyrir hvert mál síldar. Það var ekki sótt um neina fyrirframábyrgð það ár fyrir landbúnaðarvörurnar, en það fengust síðar á árinu 41/2 millj. kr. verðbætur á landbúnaðarafurðir, að vísu ekki beinlinis úr ríkissjóði, en svo gott sem. Og nú stendur þessi hv. þm.till. um að óska eftir nokkrum milljónum úr ríkissjóði til verðuppbóta á landbúnaðarvörur 1941. Eftirágreiðslan til landbúnaðarins virðist því nærgöngulli ríkissjóði en fyrirframábyrgð hans til sjávarútvegsins. Það er hættulegt fyrir þennan hv. þm. að fara út á þessa braut í umr., því að allir vita, hvor þessara tveggja atvinnugreina hefur fengið meira fé úr ríkissjóði. Annars situr sízt á þessum hv. þm. eða hans flokksbræðrum að veitast að okkur Alþfl.-mönnum, fyrir afstöðu okkar til landbúnaðarins, því að við höfum stutt á allan hátt þær till., sem til bóta hafa verið fyrir þennan atvinnuveg.