24.03.1942
Neðri deild: 25. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 843 í B-deild Alþingistíðinda. (2413)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Flm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég skal verða við tilmælum hæstv. forseta og verða stuttorður, en það var a.m.k. eitt atriði hjá hv. fyrri þm. Rang., sem þarfnast leiðréttingar. Ég minnist þess, að við höfum staðið saman á fundi í Rangárvallasýslu í þessu máli. En hins vegar er það misminni hjá honum, að ég hafi sagt, að sveitirnar ættu að hafa meiri rétt en kaupstaðirnir. Við stóðum þá báðir saman á móti stórum kjördæmum og því, að öllu landinu væri dembt í eitt kjördæmi. — Eftir þingrofið, þegar ákveðið var, að við framsóknarþm. skyldum allir bjóða okkur fram aftur, var það með því ákveðna skilyrði af minni hendi, að ég mundi á þingi því, er kæmi saman eftir kosningarnar, fylgja leiðréttingum á kjördæmaskipuninni. Ég fer nú ekki meira út í þetta, þó að margt fleira þyrfti leiðréttingar við. — En ég held, að enginn þurfi að efast um einlægni mína í þessu máli, því að það var nú á sínum tíma ein ástæðan fyrir því, að ég fluttist á milli flokka. Ég er alveg undrandi yfir að heyra hv. þm. vera að tala um, að hlutfallskosningar eyðileggi lýðræðið í löndunum. — Það er eins og sumir hv. þm. hafi ekki áttað sig á því, að það voru ekki hlutfallskosningar í þeim löndum, sem lögðu á braut einræðis, sem varð lýðræðinu að falli, heldur efldust í löndunum öfgaflokkar, sem ekkert vildu af lýðræði vita. Í Þýzkalandi t.d. efldust flokkar kommúnista og nazista, og þeir komu lýðræðinu fyrir kattarnef, en hvorki einmenningskjördæmi né hlutfallskosningar voru þar að verki.

Með þessu frv. er gert ráð fyrir jafnrétti kjósendanna í landinu. Á þann hátt, og þann hátt einan, er skapaður grundvöllur fyrir gifturíku samstarfi og samvinnu meðal þjóðarinnar.