13.05.1942
Neðri deild: 57. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 847 í B-deild Alþingistíðinda. (2421)

38. mál, stjórnarskipunarlög

*Frsm. minni hl. (Sveinbjörn Högnason):

Herra forseti ! Ég mun nú ekki í upphafi máls míns víkja að rökum þeim, sem hv. frsm. meiri hl. hefur nú borið hér fram, en ég mun geta þeirra síðar.

Eins og nál. ber með sér og þegar hefur verið tekið fram, hefur stjskrn. klofnað um þetta mál. Við afgreiðslu málsins í n. greiddu 4 þm. atkv,. með samþykkt frv., og 4 þm. móti samþ. þess, en form. n., hv. þm. V.- Sk., sat hjá við atkvgr. Nú virðist sem hann hafi við nánari yfirvegun og eftir að málið er afgreitt úr n., fengið betri skilning á því, að því er honum virðist, og hefur hann skrifað undir nál. meiri hl. með fyrrvara. Það kemur ekki í ljós, hver þessi fyrirvari er og á hverju hann byggist. Hv. þm. hafði greinilega afstöðu til málsins, þegar það var í n., og samkv. henni var atkvgr. hans þar. Ég vil strax taka fram, að nál. meiri hl. er gersamlega sneytt öllum rökum fyrir málinu. Það er ekki gerð nokkur minnsta tilraun til að færa rök að því, að nauðsyn sé á að samþ. stórmál þar, sem hér er á ferðinni, og að það verði fremur en öll önnur mál að ná fram að ganga á þessu þingi. Þeir menn, sem skrifa nál. meiri bl. á þskj. 368, færa ekki fram nokkur rök fyrir sínu máli, þó að leitað væri með logandi ljósi á þeim tveim síðum, sem nál. tekur yfir, nema aðeins í einni setningu. Hún er svona, með leyfi hæstv. forseta : „Meiri hl. n. er á eitt sáttur með það, að jafna beri atkvæðisrétt þegnanna: Ég vil skora á hv. frsm. meiri hl. að sýna mér, hvar eru röksemdir í nál. þeirra, sem mæla m,eð samþykkt frv. Ég mun svo síðar víkja að því, hvort frv. það, sem hér liggur fyrir, miðar að því að jafna rétt þegnanna í landinu. Ég sé enga aðra röksemdafærslu í nál., sem mælir með samþ. frv., og engir, sem hlustuðu á framsöguræðu hv. frsm. meiri hl., skilja, hvað veldur því, að nál. færir ekki nokkur rök fram fyrir sínu máli. Frá hinu upphaflega frv., sem samþ. var óbreytt í n., hefur meiri hl. hvikað og borið fram brtt. við það um að fella niður tvö ákvæði, en það var heimild til að stofna tvö ný kjördæmi, annað á Akranesi, en hitt á Norðfirði. Á þessar brtt. var ekki minnzt í n., þegar ég var þar á fundum, enda mun þetta ekki hafa verið ákveðið, fyrr en eftir að atkvgr. hafði farið fram. Það er augljóst, að bak við frv. þetta er ekki þjóðarnauðsyn, heldur flokksverzlun, enda aldrei komið frá þeim alger krafa um þetta mál, meðan þeir áttu nokkurn þm. í tvímenningskjördæmunum. Það mun vera rétt hjá þeim flokkum, er verzla með þetta mál, að þeir geti ekki fengið menn til þess að kjósa sig nema með lögum. Þetta er kjarni málsins, því að það að tala um rétt, er það, hvort þeir hafi réttinn í kjördæmunum. Þeir hafa vissulega sinn rétt, en þá vantar viljann til þess að gera rétt. Þeir halda, að þeir græði atkv. á þessari breyt., þótt meiri hl. sé á móti þeim. Og fyrir það er allt sett á annan endann, tvennar kosningar eða þrennar og þingrof.

Við framsóknarmenn erum þess fullvissir, að innan skamms tíma hafi þjóðin komizt að raun um, að fáa óhappamenn hafi hún átt meiri til þess að verja frelsi sitt á erfiðum tímum en þá, er bera nú fram breyt. á stjskr. Það, sem nú er ætlunin með þessari breyt., er, að þeir sterkustu í sveitakjördæmunum skuli verða gerðir áhrifalausir um sín eigin mál. Það er verið að hleypa inn eins konar Þorbirni rindli í þessum málum. Það er sjáanlegt, um hvað þessar kosningar snúast. Þær snúast um það, hvort á að eyðileggja höfuðvígi sveitanna eða ekki. Það er ekki kosið um annað. Og það er vitanlegt, að þeir, sem eiga meiri hl. í þeim kjördæmum, vilja stöðva þetta frv., því að það er ekki eingöngu barizt um þetta mál, heldur um önnur mál jafnframt, lífsstefnur og þjóðvenjur.

Allt okkar stjórnarfyrirkomulag frá fyrstu tíð, allt frá goðorðunum, hefur byggzt á sjálfstæðum heildum, þar sem meiri hl. hefur ráðið. Með breyt. 1933 rofnar fyrst skarð í þetta með uppbótarþingsætunum.

Hv. þm. hafa séð, að við þetta hefur stjórnarfarið í landinu og trúin á lýðræðið veikzt. Eigum við að halda áfram að senda mínni hl. þm. inn á Alþ. og vita, hvort hægt sé að vinna því virðingu á þann hátt?

Hinir 11 uppbótaringmenn, hafa orðið til þess að rýra virðingu þingsins, og nú á að bæta við 6–8 minnihlutaþingmönnum. Fyrir þetta mál á að fórna öllu samstarfi og friði, og um það sameinast hinar mestu andstæður, allt frá svartasta nazisma til rauðasta kommúnisma. þeim degi urðu Heródes og Pílatus vinir. En það væri rétt fyrir þjóðina að athuga, af hverju þeir urðu vinir og á hvaða tíma þeir urðu vinir.

Fyrir þetta á e.t.v. að fórna frelsi, gæfu og gengi þjóðarinnar um ókomin ár. Sé þjóðin ekki samhuga um mál sín, getur það sannarlega varðað hana fjörtjóni og frelsi. Hver dagur, sem líður, ber nú nýtt viðhorf í skauti sínu og viðurhlutamikil mál, sem verður að ráða fram úr með gætni, ró og óhlutdrægni. Ég held því, að það plagg, sem hér liggur fyrir, sé einhver sú blygðunarlausasta flokkaverzlun, sem gera hefur verið á Alþ. Íslendinga, ef þess er gætt, á hvaða tíma hún er gerð. Og það er stofnað til hennar af þeim flíkum, sem eru annars aldri sammála um nokkurt mál. Og svo á að mynda stjórn á þessum tímum um þetta mál með stuðningi þessara flokka, þótt upplýst sé, að enginn flokkurinn styðji hana í rauninni, því að þeir hafa allir keppzt um að þvo hana af sér. Og Alþýðublaðið lýsti yfir því, að enginn flokkur ætlaði að styðja hina nýju stjórn. Það geta verið þeir tímar, er menn hafa ráð á að gamna sér og brosa í kampinn. En ég efast um, að þeir, sem nú brosa, verði eins, er þjóðin fer að dæma verk þeirra. Þeir sinna engu öðru en flokkaverzlun sinni. Hitt skiptir þá ekki neinu, hvernig þjóðinni reiðir af á næstu árum.

Ég skal svo víkja nokkrum orðum að ræðu hv. frsm. meiri hlutans.

Það áttu víst að heita rök, en reyndust það sízt, eins og það, sem kom fram í nál. þeirra. Hann sagði, að málið væri sérstaklega vel undir búið, og svo er það fram borið af honum. Hann ætti að minnast þess 1932, er honum var treyst af flokki sínum til forustu í kjördæmamálinu, en mistókst svo og brást sínum flokki, að enginn vildi treysta honum til forustu, enda hefur hann séð það sjálfur.

Hann sagði, að þetta mál mundi verða deilumál og sjálfstæðismálinu ætti að halda fyrir utan það. En er það leiðin til þess að þyrla upp deilumálunum, áður en sjálfstæðismálið er tekið fyrir til afgreiðslu? Ætli hefði ekki verið happasælla fyrir þjóð og þing að leggja deilumálin í hilluna áður? Ég skil ekki svona hátterni, en það getur verið, að þeir, sem kenndir eru við frið, viti betur, hvernig á að varðveita hann.

Þá sagði hann, að ef fárið væri að ráðum okkar framsóknamnanna og málið sett í mþn., yrðu sennilega að fara fram þrennar kosningar. Þetta er vitanlega herfilegur misskilningur, nema það sé alls ekki rétt, er hann sagði. að sjálfstæðismálið ætluðu þeir að leysa á næsta þingi. En það er sennilegt, að þeir guggni á lýðræðishugmyndinni.

Við viljum engar breyt. á stjórnskipun landsins, nema. þær séu vel undirbúnar, en það er vitanlega ekki svo um þetta mál.

Þá sagði hann, að samkomulag væri með öllum flokkum í n. — að Framsfl. vitanlega undanteknum — um framkvæmd þessa máls. Þetta er ekki rétt. Það liggja fyrir tvær skriflegar sannanir móti því, sem eru brtt. háttv. þm. Borgf. og háttv. þm. V.-Sk. Þetta er því ekki alveg rétt hermt, og ætti þó að sýnast hverjum manni ljóst.

Þá talaði hann um, að gömlu kjördæmin væru lífseig, og virtist harma það, að ekki skyldi vera hægt að ráða niðurlögum þeirra 1931. Já, þau eru lífseig, og kjósendunum er ekkert um þá, er hlaupa milli flokka, eða um það, að verzlað sé um rétt þeirra. Það var óheppilegt að velja þennan mann til forustu í þessu máli, er verður nú að segja, að ekki sé um of, þótt Rvík fái 8 þm. En er hún vildi fá 7 fyrir fáum árum, þótti honum það ófært, og það er fyrir hans tilstilli, að Rvík hefur ekki haft nema 6 þm..eftir breyt. 1933, sem ekki er þó rétt. Þó má segja, að uppbótarþingsætin eigi að jafna það. Það er rétt að geta þess til samanburðar í þessu máli, að Osló hefur aðeins 7 þm., og þar eru hátt á 3. hundrað þúsund íbúar, og enga uppbótarþingmenn hefur hún. Í stjskr. Noregs er enn fremur tekið fram, ekki aðeins um Osló, heldur alla stórbæi í landinu, að þeir megi aldrei fá meira en 1 af tölu allra þingmanna landsins, til móts við dreifbýlið.

Við erum á upplausnarleið Þýzkalands eftir styrjöldina og. á leið Frakklands, eins og þar er nú, er hrundi vegna fjölda flokka og klíkna, er öllu sundurlyndi og glundroða, sem er nauðsynlegur undanfari tortímingarinnar. Það er því ekki að undra, þótt öfgarnar mætist í þessu máli, því að kommúnistar hafa sagt, að betra væri að styðja afturhaldið en miðflokkana. Enda hefur EOl. lýst því yfir fyrir skemmstu í blaði sínu, að réttlætismálið væri hér ekki aðalatriðið, heldur að rjúfa núverandi stjórnarsamvinnu. Þetta er skjalfest. Kommúnistar vilja upplausn í þjóðfélaginu á erfiðum tímum til undirbúnings byltingar.

Það var líka mjög réttilega til orða tekið hjá hv. frsm. meiri hl., þegar hann talaði um minni hl. í tvímenningskjördæmunum, að þessi breyt. væri ekki nema það að heimila mönnum að segja sig úr goðorði og í goðorð við aðra. Þetta er alveg rétt, og það er merkilegt, hvað þessi hv. þm. hefur á vitundinni um upplausn þá, sem þessu er samfara. Því að það, að mönnum var heimilt að segja sig úr goðorði og fara í goðorið til annarra, styrkti höfðingjana með því að safna til þeirra mannaforráðum á þann veg. Hið sama er verið að reyna að gera hér, að fá þá, sem úti um sveitirnar búa, til þess að segja sig úr lögum við þá, sem þeir lifa og vinna með, og í flokk með þeim, sem ríkastir eru og sterkastir í landinu, til þess að þeir geti orðið sem sterkastir andstæðingar hinna, sem í sveitunum bú. Það er verið að gera tilraun til þess, að skipulag stjórnarfyrirkomulagsins riðlist, með því að rjúfa þennan gamla grundvöll þess, kjördæmaskipun okkar. Og þessi tilraun hefur verið gerð af þeim mönnum, sem hafa hingað til verið að reyna að koma á þeim sama glundroða hér eins og hefur verið í öðrum löndum, þar sem lýðræðið hefur fallið.

Þá sagði hv. frsm. meiri hl. það enn fremur, að tímarnir væru að vísu alvarlegir, en þó væru þeir í raun og veru ágætir. Það væri hægt að gera margt á svona tímum. Þetta sýnir þá ábyrgðartilfinningu, sem er á bak við þennan málflutning hjá þessum mönnum, sem bera frv. þetta fram. Því miður heldur meiri hl. ljóðarinnar, að öllu sé óhætt, af því að það líður svona hver dagurinn, að ekkert kemur voveiflegt fyrir. En að hv. þm. láti sér til hugar koma, að það sé hægt á þessum tímum að leyfa sér hluti sem þessa, því hefði ég ekki trúað. Hvað hefðum við sagt um forfeður okkar á Sturlungaöld, sem deildu sín á milli, ef þeir hefðu verið eins harðdrægir eins og þeir voru, ef tvö herveldi hefðu verið með heri sína í landinu? Við erum ekki frjálsir ferða okkar hér í þessu landi. Við, sem ferðumst um þjóðvegina og þurfum að framkvæma ýmsa hluti, vitum, að við þurfum að eiga það undir náð þessara herja að komast leiðar okkar. Og við eigum það líka undir náð hins erlenda hers, hvort við getum rekið atvinnu okkar eða ekki. Og þó að peningaflóð sé nú í landinu, þá hygg ég, að það geti komið til, að fátt geti verið jafnhættulegt og það fyrir okkar menningarverðmæti. Sjálfstæði þjóðarinnar miðast við það að varðveita menningarleg verðmæti hennar, þjóðernið og tunguna, og að tryggja framtíð hennar. Sjálfstæði þjóðarinnar miðast ekki við það, hvort mér eða hv. þm. V.- Ísf. líður illa í dag eða á morgun, heldur við það, að við eigum þrótt og manndóm til þess að taka á þeim viðfangsefnum, eins og vera ber, sem nú steðja að okkur, og að við gerum það með tilliti til framtíðarinnar hiklaust og óttalaust, en látum það ekki snúast í þá átt, sem þjóðina skiptir engu máli nú á tímum. Það er þetta, sem framtíð þjóðarinnar skiptir miklu, en framtíð hennar er ekki komin undir öðru eins og því frv., sem hér hefur verið borið fram, og því óheillasambandi, sem um það hefur myndazt.

Ég ætla nú ekki að hafa fleiri orð um þetta að sinni, en aðeins segja hv. frsm. meiri hl. n., að það mun reynast rétt, sem hann sagði, að gömlu kjördæmin væru lífseig. Þeim var sköpuð eldraun árið 1931, en þau hrundu henni af sér að mestu, þrátt fyrir slæma framgöngu hv. þm. V.-Ísf. Og þau munu líka lifa af þessa eldraun.