18.05.1942
Neðri deild: 60. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 926 í B-deild Alþingistíðinda. (2457)

38. mál, stjórnarskipunarlög

*Frsm. minni hl. (Sveinbjörn Högnason):

Ég get ekki látið hjá líða að taka upp orð hv. 2. þm. Skagf. og lýsa undrun minni yfir framkomu hæstv. forsrh. Það fyrsta, sem hann hefur látið til sin heyra við afgreiðslu þessa máls, er það, að Framsfl. sé að beita málþófi, þegar búið er að ræða stutta stund um þetta mál. En mig furðar ekkert á því, þó að hæstv. forsrh. sé fámálugur í þessu máli, þar sem ég þekki forsögu þess, enda mun hann ekki hafa sem beztan málstað. En mig furðar á því, að hæstv. forsrh. skuli tala um málþóf í þessu sambandi, eftir að búið er að tefja þingið með afgreiðslu þessa máls um 5 vikur. Ég vil minna á, hvernig. vinnubrögðin hafa verið með fjárl, á þessu þingi. Það er í fyrsta skipti í sögunni, að fjárl. eru ekki lögð fram, fyrr en þingið hefur setið í 7 vikur, og síðan ekki afgreidd. Það er áreiðanlega ekki Framsfl. að kenna, hversu seint gengur með störf þingsins, og ástæðulaust að ásaka hann um málþóf. Hæstv. forsrh. heldur, að þegar hann sé búinn að koma sér í ráðherrastólinn, geti hann lifað vel og lengi í þeim sessi. Það er eftir að vita, hversu langlífur hann verður þar, og vonandi fer hann ekki lengi með völdin. Og ég er sannfærður um, að með þeim vinnubrögðum, sem hann beitir í þessu máli, verður hann ekki langlífur, stjórnarfarslega séð. Ef hann heldur, að hægt sé að afla sér fylgis og komast til vegs og virðingar með slíkum vinnubrögðum, skjátlast honum hrapallega. Réttarmeðvitund þjóðarinnar lætur ekki slíkt viðgangast. Þetta vildi ég segja, áður en málið yrði afgreitt úr deildinni. Ég held, að ríkisstj. hefði gott af að athuga sinn feril og hvað hefur orðið til þess að skapa henni völdin, sem hún hefur vonandi stutta stund.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða meira um þetta mál við hv. þm. V.-Ísf. Hann vildi halda því fram, að ég hefði sagt, að flokkar ættu að fá þm., þó að þeir hefðu ekki kjósendur. Hv. þm. getur snúið þessu á þann hátt, sem honum þykir þægilegast. En ég sagði, að með þessu frv. væri ætlazt til þess, að vissir menn kæmust að kjördæmunum, þó að þeir hefðu ekki nægilegt kjósendafylgi þar, og gætu þeir fengið atkv. annars staðar. M.ö.o., það er flokksvaldið, sem á að ráða, án tillits til þess, hvort þjóðin vill fela þessum mönnum umboð sín. Kjördæmin fá ekki að ráða sínum þm., heldur eru þeir kosnir annars staðar á landinu, og á þann hátt geta þeir menn orðið fyrir valinu, sem ekki eru hæfir til starfsins.

Hv. þm. V: Ísf. sagði, að hann áliti stjskr. ríkisins því heilagri, því réttlátari sem hún væri. Ég efast um, að hún verði réttlátari eða heilagri, þó að þessi hv. þm. fáist við hana. Hann átti meginþáttinn að þeim breyt., sem gerðar voru á stjskr. 1933, og það lék ekki á tveim tungum hjá þjóðinni, að hún varð henni ekki helgari fyrir þær aðgerðir. Sams konar afleiðingar mundi það hafa, ef hv. þm. fer enn að vinna skemmdarverk á stjskr. ríkisins.

Ég skil ekki, hvers vegna minni hl. í tvímenningskjördæmunum getur tapað vegna rangláts kjördæmaskipulags. Hv. þm. Borgf. sagði, að minni hl. væri eins góðir sveitamenn og meiri hl. Má það rétt vera. En sveitafólk hefur ekki sama skilning á félagsmálum og t.d. verkamenn í Óðni hafa hér, er þeir láta ávallt aðra vinna fyrir sig, — en ég segi afdráttarlaust, að þeir verkamenn hafa ekki þann rétta skilning.

En mergurinn málsins er sá, að Sjálfstfl. sér, að hann er í minni hl. í tvímenningskjördæmunum, en vill láta þennan minni hl. ráða. Á þessu ranglæti situr núverandi ríkisstj., sem hæstv. forsrh. er svo gleiðgosalegur yfir. En spá mín er sú, að hann njóti ekki lengi valdanna og ekki miklu lengur en landi hans, sem hér var um skeið hundadagakonungur.