24.04.1942
Neðri deild: 41. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í C-deild Alþingistíðinda. (305)

30. mál, jöfnunarsjóður aflahluta

*Frsm. meiri hl. (Sigurður Kristjánsson):

Herra forseti! Þetta mál hefur verið til meðferðar í sjútvn., og skiptust þar nokkuð leiðir manna, eins og fram er tekið í nál. báðum. N. var sammála um, að málið væri svo mikils virði, að þingið yrði að sýna því einhvern sóma. En til þess hefur Alþ. oft haft tækifæri áður og ætti að vera búið að átta sig á málinu, því að 4 ár eru liðin, síðan ég flutti það hér fyrst. Tveim sinnum áður hefur það komizt gegnum þessa hv. deild, seinna skiptið á þann veg, að því var vísað til ríkisstj. og henni fyrirskipað að undirbúa það rækilegar undir næsta þing, og því hefur hún svo gleymt eða þverskallazt við að gera því nokkurt gagn. Að þessu sinni er frv. komið það áleiðis, að það er komið úr sjútvn., sem um það hefur fjallað.

Það er um þetta frv. sem mörg önnur nýmæli, að fyrirfram verður aldrei að fullu séð, hverjum atriðum kunni að þurfa að breyta síðar. Reynslan ein sker úr því, og verður að eiga á hættu að setja lögin, þótt margt verði ekki séð fyrir. Tveir af nefndarm., hv. þm. A.-Sk. (JÍv) og hv. þm. N.-Þ. (GG), treysta sér ekki til að mæla með samþ. frv. að svo stöddu, en leggja til, að því sé frestað og sett í nefnd til að undirbúa það frekar til næsta þings, svo sem segir á þskj. 215. Við hinir nm. teljum þegar orðinn of mikinn drátt á setningu þessara l. og mælum með samþ. frv. Mikið er um það rætt, að á uppgangstímum sem þessum eigi að leggja áherzlu á að tryggja framtíð atvinnuveganna. Það er markmið frv. Á skattafrv. ríkisstj. er svo að sjá. að henni þyki ríkissjóði bezt til þess trúandi að geyma féð og veita því aftur til atvinnuveganna í þörf. Ýmsir telja þó, að ekki megi taka alla ábyrgð á geymslu fengins fjár af þeim, sér að atvinnuveginum starfa, og með frv. er að því stefnt, að menn, sem útgerðina reka, tryggi sjálfir framleiðslu sína á eigin ábyrgð með því að leggja nokkuð af verði aflahluta í sjóð til að bæta upp hlutina á erfiðum árum.

Minni hl. n. setur það einkum fyrir sig, að óvíst sé, hve mikið ríkissjóður muni þurfa að leggja fram móti hlutarframlagi manna. Vissulega er það óvíst nú á þessum óvissunnar tímum. Þegar ég flutti frv. 1939, fékk ég fiskifélagið til þess að gera áætlun um, hve miklar tekjur sjóðsins yrðu, og var aðallega miðað við skýrslur ársins 1938. Það komst að þeirri niðurstöðu, að þær yrðu um 140 þús. kr., bæði of þorsk- og síldarafla, og hefði þá framlag ríkissjóðs átt að vera annað eins. Núna er ómögulegt að reikna þetta út. Frv. hefur verið sent bæði fiskifélaginu og Landssambandi útgerðarmanna. Fiskiþingið samþ. áskorun til Alþ. um að samþ. þetta frv., og ýmsar deildir fiskifélagsins höfðu áður gert það. Nefndin óskaði, að fiskifélagið freistaði þess að reikna út tekjur sjóðsins, — þótt ég að vísu gerði ráð fyrir, að það reyndist ókleift nú, og hefði heyrt það áður á formanni þess, að hann teldi á því afsakanleg tormerki. Óskuðu sumir nm. eftir reikningum fyrir s.l. 5 ár, en tekjustofnar þeirra eru auðvitað mjög mismiklir, og hlyti slík rannsókn að taka langan tíma. Svar barst bréflega frá félaginu 15. þ. m. og vil ég lesa það, með leyfi hæstv. forseta:

„Eftir móttöku heiðraðs bréfs yðar, dags. 27. í. m., þar sem beiðzt er umsagnar vorrar um, hverjar tekjur jöfnunarsjóður aflahluta (samkv. frv. til l. um jöfnunarsjóð aflahluta á þskj. 37) hefði fengið af aflahlutum s.l. ár, höfum vér athugað, hver tök væru á að afla þeirra upplýsinga, sem nauðsynlegar eru til. að unnt sé að segja með nokkurri vissu um tekjur sjóðsins.

Því miður verðum vér að tjá hv. nefnd, að vér höfum ekki skýrslur, sem hægt er að byggja á í þessu sambandi, og ef safna ætti slíkum skýrslum, þá hlyti það að taka a.m.k. nokkra mánuði, svo að þær yrðu fyrirsjáanlega ekki notaðar á Alþ. því, er nú situr.

Ef hv. nefnd. æskir frekari aðstoðar vorrar í sambandi við þetta mál, þá erum vér reiðubúnir til að veita þá aðstoð, sem í voru valdi stendur.“

Hér er það staðfest, sem ég hafði eiginlega búizt við, að fiskifélagið gæti ekki, eins og sakir standa, lagt fram neinar ábyggilegar skýrslur um þetta efni. Var heppilegast að miða við „normal“ árferði, og þar af leiðandi er miðað við sama útreikning og fyrst, þegar frv. var flutt, 1939. Það voru þó a.m.k. tölur, sem hæglega hefði mátt byggja á fyrir það eina ár. Það var erfitt og óvenjulegt ár eins og þessi stríðsár. slíkum árum yrðu útgjöld ríkissjóðs til jöfnunarsjóðsins miklu hærri. Í nál. minni hl. er tekið fram, að þegar frv. var borið fram á þingi 15140, voru teknar inn í það þær breyt., sem næsta þing á undan hafði gert á frv. um sama efni. aðalbreyt. var sú, að þessi trygging skyldi vera frjálsari. Eftir að ég hafði ráðfært mig við sjómenn, útgerðarmenn og félög, sá ég, að ekki mundi annað fært en að láta það sama yfir alla báta ganga. Þetta byggðum við á því, að tryggingin fylgdi bátnum, hver sem ætti hann. Auk þess væri báturinn síður hæfur til útgerðar, ef tryggingin fylgdi honum ekki, og það yrði erfitt að fá fólk á þann bát, sem enga aflahlutatryggingu hefði.

Meiri hl. n. hefur lagt til, að frv. verði samþ. með 3 breyt. Í fyrsta lagi er skýrar kveðið á um það, að uppbót á aflahluta sé miðuð við fullan úthaldstíma. Okkur þótti þetta atriði ekki nógu skýrt í frv., og þessi smávægilega breyt. var nóg til að fyrirbyggja allan misskilning. Það gæti átt sér stað, að bát væri haldið út 1/4 hluta úr vertíð og eigandi bátsins þættist eiga að fá hlutauppbót eftir þeim mælikvarða, sem l. setja, án tillits til þess, hve úthaldstíminn hefur verið stuttur og hluturinn lítill. Brtt. við 3. gr. er annars eðlis og er um það, að verði sérdeildir í sjóðnum, eins og gert er ráð fyrir í frv. fái menn aðeins rétt til að hafa slíkar deildir, að „þeir hafi ákveðið hærri iðgjöld en þau almennu eða aflað sérsjóði sínum annarra tekna“.

Þá höfum við bætt við 5. gr., sem vantar í frv., um það, hver eigi að ákveða formann sjóðstjórnar, og er hér lagt til, að hann sé ákveðinn af ríkisstj.

Minni hl. n. mun að sjálfsögðu gera grein fyrir sínu nál. og sinni rökstuddu dagskrá. En eins og ég tók fram, þá er ég samþykkur minni hl., að fái málið ekki afgreiðslu á þessu þingi, þá láti ríkisstj. rannsaka það og undirbúa undir næsta þing.