24.02.1942
Neðri deild: 4. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í C-deild Alþingistíðinda. (342)

4. mál, frestun bæjarstjórnarkosninganna í Reykjavík

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Aðeins fá orð til andsvara því, sem hv. þm. Seyðf. hélt fram út af ræðu minni hér í d. Hæstv. fjmrh. hefur kallað tölu þessa hv. þm. bláþráðavef, og ég hygg það nokkuð mikið réttnefni á ræðumennsku þessarar tegundar. Í svona málum má alltaf spinna lopann á einn eða annan veg, án þess að gagni komi eða að sök.

Hann réðst á ræður okkar ráðh. í upphafi. Ég hygg sannast að segja, að þessi ummæli fyrst og fremst hafi ekki fallið, nema þá í ræðu eins ráðh. En þó eru þessi ummæli þess verð, að þeim sé veitt athygli. Ég hygg, að frá sjónarmiði þessa hv. þm. sé það verulegur kjarkur að gefa út þessi I. Vitað mál er það, að með því að skrumauglýsa sjálfan sig og stefnu sína í stjórnmálum, boða eitt og annað, sem í svipinn virðist vera hagur fyrir einhverja stétt eða stéttir, þá er á hverjum tíma auðvelt að gera sig vinsælan í svip. En þessar kröfur, sem þannig eru settar fram vegna stéttanna, geta, ef þær fá framgang, haft þær afleiðingar fyrir þær sömu stéttir síðar að verða þeim til hins mesta ógagns. Að gera kröfur um kauphækkun til handa vissum stéttum, verður til að afla vinsælda meðal þeirra stétta. Og þegar sett eru l. um, að ekki megi hækka kaupgjald og verðlag á vörum, þá er það ekki vinsælt. En þó er þetta gert. M.a. barst sú frétt fyrir fáeinum dögum, að jafnaðarmaðurinn Curtis, forsrh. í Ástralíu, hafi gefið út l., að ég hygg, þar sem bönnuð er hækkun á öllu kaupgjaldi og bannað er að hækka vörur. Hann sagði jafnframt: Ég veit, að þetta er ekki vinsælt, en þið verðið að skilja, að þetta er nauðsynlegt til þess að bjarga fjárhag þjóðarinnar eftir styrjöldina. Ég man, að ég las upp í grg. fyrir gerðardómsl. ummæli, sem verkamálaráðh. Kanada lét fylgja l., sem hann setti til að banna hækkun á verðlagi og kaupgjaldi. Hann viðurkenndi, að þessar hömlur væru ekki vinsælar, en þær væru lífsnauðsynlegar fyrir þjóðina. Það er alltaf miklu meiri vandi að flytja mál, sem talar til kaldrar yfirvegunar og sjálfsafneitunar í svipinn, eða svo finnst þessum mönnum, sem ég minntist á, heldur en að æsa upp með stöðugum yfirboðum og segja: Þið getið fengið miklu hærra verð og miklu hærra kaup, það eru aðeins íhaldssamir ráðh., sem standa í vegi fyrir því, að þið fáið þessar kjarabætur. En vitanlega má svo spinna lopabláþráðinn um það, eins og hv. þm. Seyðf. gerði, hvernig við viðurkennum, að lögin séu óvinsæl, og álykta svo í allar áttir um það, hvað þau hljóti þá að vera til mikils skaða, sérstaklega fyrir stéttirnar, sem hlut eiga að máli. En innihaldið í svona ræðum er álíka mikils virði og í því, sem t.d. Alþýðublaðið flytur í dag. Það er ráðizt á stjórnina fyrir að fækka í setuliðsvinnunni um 800 manns nú á næstunni. Það standa uppi, að því er mér er sagt, í Grindavík 15 bátar, sem ekki komast á sjó, það eru engir menn til á þá. Víðar er vitað, að margir bátar standa uppi og ekki hægt að fá menn. Og svo kemur árásargrein í dag út af því að fækka í setuliðsvinnunni. En við ræddum þetta mál í ríkisstj. meðan ráðh. Alþfl. var þar, og hann er búinn að samþ. þessa ráðstöfun, vegna þess að hann veit það sem ábyrgur maður, að hjá þessu verður ekki komizt, ef atvinnulífið í landinu til sjávar og sveita á ekki að falla saman. En sumir álíta það vinsælla í bili að skrifa árásargreinar og það þurfti kjark til að segja fólkinu sannleikann, að ef bátarnir standa uppi og landbúnaðurinn dregst saman, þá muni atvinnuvegirnir eftir styrjöldina ekki vera færir um að halda uppi verkalýðnum, heldur níðast niður vegna þessarar stundaratvinnu, sem þó er lítið eða ekkert betur borguð en atvinnuvegirnir nú bjóða, og hljótast af því hörmungar og atvinnuleysi eftir styrjöldina. En þrátt fyrir allt þetta, sem liggur í augum uppi, finnur Alþýðublaðið nú fyrir bæjarstjórnarkosningarnar hvöt hjá sér til að ráðast á ríkisstj. fyrir það að fækka í setuliðsvinnunni, þó að fleiri verði þó eftir en á sama tíma í fyrra, þegar ekki var eins mikið um framkvæmdir og nú er. En það kann að vera rétt reiknað, að afla megi vinsælda á einhverjum vissum stöðum með því að skrifa svona.

Það er ákaflega útbreitt slagorð meðal verkamanna í bænum, að það, að banna þeim setuliðsvinnu, sé álíka skynsamlegt og að banna þeim að róa til fiskjar, ef allt væri fullt af fiski fyrir framan landsteinana. Það er einfaldara að flytja málið með svona dæmum heldur en að sýna fram á, að með því að halda áfram að níða niður okkar eigið atvinnulíf, sérstaklega þessa tvo atvinnuvegi, sjávarútveg og landbúnað, þá er fyrirsjáanleg eymd fyrir verkalýðinn og alla þjóðina eftir styrjöldina.

Sömu röksemd var beitt, þegar þessi þm. var að halda fram, að í seinustu styrjöld hefði kaupgjaldið ekki hækkað svo mjög, en hins vegar hefði hækkað verð á öllum vörum. Og það var þá, sem hv. þm. brýndi raustina til að undirstrika stórfengleik þeirra sönnunargagna, sem hann taldi sig hafa lagt hér fram. Því að hann taldi þetta fulla sönnun fyrir því, að það væri ekki kaupgjaldið, sem hefði áhrif á dýrtíðina í seinustu styrjöld. Vitanlega veit hv. þm. það, og þess vegna er þessi hávaði og nasablástur ekki annað en leikaraskapur —, að það er hvort tveggja, verðlagið og kaupgjaldið, sem hefur áhrif á dýrtíðina. En það er vitanlegt, að dýrtíð getur haldið áfram að aukast, þó að kaupgjaldi hækki ekki jafnframt á sama tíma.

Þá sagði hv. þm., að ég hefði alltaf talið einsætt og verið ákveðinn í að fresta kosningunum. Þessi ummæli eru rangt höfð eftir. Ég sagði, að ég hefði alltaf talið rétt að fresta kosningunum og aldrei látið aðra skoðun í ljós, hvorki í flokki mínum né annars staðar. En það er annað en að telja það „einsætt“ og vera „einráðinn“ í því að fresta kosningunum, því að í því liggur; að ég hafi barizt fyrir því frá upphafi. En það voru ekki orð mín.

Enn fremur sagði hann, að ríkisstj. telji sé heimilt að fresta kosningunum þangað til tíminn sé betri fyrir hana, að þær fari fram. Þetta eru látt áfram ósannindi, eins og öllum má vera tjóst. Hver segir, að aðstaða stj. verði betri 15. marz? Kosningunum er frestað þangað til flokkarnir hafa jafna aðstöðu og áður um blaðakost og blöðin hafa komið reglulega út í einn mánuð. Nú hafa blöðin farið að koma reglulega út einum mánuði fyrir 15. marz, svo að þar með ákveðst kosningadagurinn. Það má miklu fremur segja, að það sé algerlega lagt í hendur prentaranna, hvenær kosningadagurinn yrði, því að þeir stóðu fyrir vinnustöðvuninni. Þeir hafa ákveðið þennan dag, en ekki ríkisstj., með því að láta vinnustöðvunina fall niður.

Um misnotkun útvarpsins ætla ég ekki að ræða langt mál. Mér kemur satt að segja einkennilega fyrir það árásarefni, að Stefán Jóh. Stefánsson, fyrrv. félmrh., hafi ekki fengið að flytja sína grg. í útvarpið. —Aðstaða ríkisstj. er sú, þegar hún flytur grg. í útvarpið fyrir brbl., að hún hefur rétt til þess eins og hver sá, sem frv. flytur í Alþingi. Það var talið réttara, að ráðh. tveir læsu þessar grg. upp. Nú var þessi ráðh. ekki meðflytjandi þessa máls í ríkisráði, og þess vegna var ekki eðlilegt, að hann gerði grein fyrir flutningi l., sem hann vildi ekki flytja, en var andstæður. Og þegar talað er um ódrengskap í þessu máli, þá vil ég ekki fara inn á það, hv erjir kynnu að hafa sýnt ódrengskap, og hef enga löngun til að dæma um það. En mér finnst sannast að segja hart, að eftir að Stefán Jóh. Stefánsson fer úr ríkisstj., þar sem hann er búinn að lýsa yfir, að engin sér stök hreyfing sé með kauphækkun hjá félögum Alþýðusambandsins, þegar hann svo um áramótin er kominn í þá aðstöðu, — sjálfsagt fyrir meirihlutasamþykkt hans flokks —, að vela á móti stj., þá beitir hann sér fyrir verkfalli og kauphækkun, þegar um leið er lokað öllum blöðum í bænum fyrir ríkisstj. En blað hans heldur uppi stöðugum árásum á stjórnina í hverju tölublaði. Svo er það kallaður ódrengskapur, þó að ráðh. komi í útvarpið og geri grein fyrir þessum l., í eitt skipti fyrir öll, en sá, sem ekki bar l. fram, sé ekki látinn tala. Ég ætla ekki að dæma um, hvað á að kalla aðstöðu þessa ráðh., en ég segi, að ef okkur hinum má bera á brýn ódrengskap, þá sé óhætt að gefa framkomu þessa ráðh. það nafn líka.

Að lokum vil ég láta það í ljós, að það vekur mjög furðu mína, að nokkur maður, sem hefur verið forseti Sþ., skuli láta sér um munn fara önnur eins ummæli og hv. þm. Seyðf. viðhafði, sem bera vott um hina frámunalegustu vanþekkingu á stjórnarkerfinu. Hann kvað forsrh. hafa ákveðið að banna ekki Alþýðublaðið. Síðan flutti hann langt mál um það, að forsrh. hefði ekki vald til slíks, og blandaði hann saman framkvæmdarvaldi, dómsvaldi og löggjafarvaldi. Það veit nú hvert mannsbarn í þessu landi, að ríkisstj. getur gefið út brbl. Og það er ekkert launungarmál, að mjög margir þm., sem telja sig og eru einhverjir frjálslyndustu þm., töldu tvímælalaust rétt að banna Alþýðublaðið. Ég hafði þess vegna vald til þess sem dómsmrh. að gefa út brbl. og banna Alþýðublaðið, Þetta vald er forsrh. veitt í samræmi við stjórnarskrána. Hitt er annað mál, að hann verður að taka afleiðingunum af lagasetningunni og myndi segja af sér, ef þingið ekki féllist á hana. Hv. þm. finnst það ef til vill bera vott um eitthvert ódæði hjá mér og ríkisstj. að láta sér detta slíkt í hug að banna Alþbl. með l., þegar það var komið í þá aðstöðu að spilla fyrir löggjöf, sem gefin var út af þjóðarnauðsyn og þjóðarnauðsyn var að hlíta. En ég vil þá upplýsa fyrir hv. þm. Seyðf., að lögfræðingur einn í flokki hans var ekki í vafa um, að ég hefði þetta vald. því að það kom till. frá sjálfum Stefáni Jóh. Stefánssyni, sem hann lýsti hér í þinginu, um að banna Þjóðviljann með brbl., vegna þess að hann taldi það blað skrifað þannig, að þjóðhættulegt væri í byrjun styrjaldarinnar. Svo að það eru fleiri menn en sá stórsyndugi forsrh., sem láta sér detta í hug að banna blöð, m.a. ráðh. Alþfl.