01.04.1942
Efri deild: 26. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í C-deild Alþingistíðinda. (779)

64. mál, alþýðutryggingar

Flm. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti! Ég held, að allir, sem til þekkja, séu nú orðnir sammála um það, að með því fyrirkomulagi, sem nú er á l., þá verði aldrei hægt að koma á viðunandi elli- og örorkutryggingum. Þeir, sem nú greiða í lífeyrissjóð, eru í raun og veru ekki að kaupa sjálfum sér elli- og örorkutryggingu, sem talizt geti nokkurs virði. Til þess að greiða elli og örorkulífeyri nokkuð sambærilegt við það, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., þyrfti sjóðurinn að vera um 300 millj. kr. En til þess að sjóðurinn geti orðið svona stór, þyrfti 300 ár með þeim vexti sjóðsins, sem nú er eftir þeim tekjum, sem sjóðurinn á nú að hafa.

Nú er ákaflega fjarri því, að þetta sé fjársjóður, sem hvorki mölur né ryð fá grandað, og ekki er gott að segja, hvers virði hann yrði eftir tvær til þrjár aldir, svo að ég hygg, að réttast mundi að hverfa frá þessari fásinnu.

Það þarf að tryggja gamalmennunum ákveðinn lífeyri, svo háan, að hann geti orðið veruleg hjálp til þess að geta staðið undir fullum framfærslukostnaði þeirra. Og til þess þarf að sjá lífeyrissjóði fyrir nægilegum tekjum, og er það tilgangurinn með þessu frv.

Samkv. frv. yrði framlag úr sjóðnum til einstaklinga í Reykjavík 2745 kr. á ári og 4026 kr. til hjóna, samkv. núverandi verðlagi. Þetta er að vísu knappt til framfærslu, ef engar aðrar tekjur koma til. En strax og aðrar tekjur bætast við, ætti að vera nægilega séð fyrir afkomu þessa fólks. Samkv. IV. kafla I. um alþýðutryggingar koma ekki til frádráttar frá lífeyrinum þær tekjur, sem nema 1/3, af árlegri lífeyrisgreiðslu. En ef tekjurnar eru meiri, skal draga frá lífeyrinum 60% af þeirri upphæð, sem árstekjurnar eru umfram þriðjung fullrar lífeyrisupphæðar. Og af því, sem öryrkjar vinna sér inn sjálfir, skal eiái við ákvörðun teknanna tekið tillit til upphæðar, sem nemur allt að 30% af upphæð fullrar árlegrar lífeyrisgreiðslu. Þetta þýðir það, að gamalmenni, sem hefur 1800 kr. tekjur, mundi hafa rúm 4000 kr. í árstekjur, þegar lífeyrir bætist við samkv. þessu frv.

Þá er að athuga, hvort tekjurnar mundu hrökkva fyrir útgjöldum og hæfilegri aukningu sjóðsins.

Samkv. frv. eiga bæjar- og sveitarsjóðir að greiða lífeyrissjóði upphæð, sem nemi 1/4 af lífeyri einstaklinga, þ.e. gamalmenna 67 ára og eldri og öryrkja, sem hafa misst 50% af starfsorku sinni, og ríkissjóður á að leggja fram jafnháa upphæð og bæjar- og sveitarfélögin samanlagt. Þegar nú er tekið tillit til þess, hve mikill hluti þessa fólks er í hjónabandi, þá verður þetta upphæð, sem mundi nægja til þess að greiða um 60% af öllum gamalmennum og öryrkjum fullan lífeyri. Við þetta bætast siðan iðgjöld og skattur af tekjum skv. núgildandi l., svo að tekjur sjóðsins ættu að hrökkva til að greiða allt að 70% af gamalmennum og öryrkjum fullan lífeyri.

Undanfarin ár hafa 59,7%– 62,6% gamalmenna fengið nokkurn styrk og mikill meiri hluti þeirra aðeins lítilsháttar glaðning samkv. 1. lið 80. gr. alþýðutryggingal. Árið 1941 var úthlutað samtals bæði frá tryggingarstofnuninni og bæjarfélögum 2 millj. kr. til ellilauna og örorkubóta. En samkv. þessu frv. mundi þetta nema yfir 12 millj. kr. á ári í handbærum elli- og örorkulífeyri. Manni virðist því, að það ætti að vera tryggt, að þessar tekjur ættu að hrökkva til þess að standa undir skuldbindingum sjóðsins eftir frv. og geta aukið hann jafnframt. Enda er sjálfsagt, að rífleg sjóðsöfnun ætti sér stað á tímum eins og nú, þegar efnahagur þjóðarinnar stendur með miklum blóma.

Ég hef leitað álits sérfróðra manna um málið. og komust þeir að sömu niðurstöðu. En það þyrfti að endurskoða tekjuliðina, þegar reynsla fengist. En meðan engin reynsla er fengin, er alltaf, hvað snertir tekjuliðina, rennt nokkuð blint í sjóinn.

Vil ég svo leggja til, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og allshn.