15.04.1942
Neðri deild: 35. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í B-deild Alþingistíðinda. (976)

32. mál, sala Hvanneyrar í Siglufirði

*Finnur Jónsson:

Ég vildi benda hv. 1. þm. Rang. á, að lóðaleigusamningarnir eru yfirleitt þannig úr garði gerðir, að þeir ganga kaupum og sölum og lenda í braski nákvæmlega á sama hátt og um eignarhald væri að ræða, og frv. getur á engan hátt orðið til að ýta undir það brask. heldur er tilætlunin að vinna á móti því. Það er hinn hraparlegasti misskilningur, sem hv. þm. byggir málfærslu sína á, að þetta sé leið til að koma lóðum í brask, en hitt vörn við braski, að láta núverandi ástand haldast. Tveir samflokksmenn hans á Siglufirði eru nú beinlínis orðnir ríkir menn á þessari verzlun með lóðir ríkisins. Það hljómar e.t.v. einkennilega í eyrum hans, en auðvelt að færa fyrir því fullar sannanir. Ég er ekki með þessu að gera neina sérstaka árás á þá menn, sem setið hafa prestar á Hvanneyri, segi bara þessa sögu eins og hún hefur gengið.

Hv. 1. þm. Rang. fullyrti, að sá hefði ekki hag ríkisins fyrir augum, sem mælti með þessu frv. Ef ég á að fara að svara þessu, verð ég að segja, að mér þykir hann höggva nokkuð nærri hæstv. dómsmrh., sem hefur eindregið mælt með þessari sölu til bæjarins. Ég er ekki að mæla með neinu öðru en hann mælir með í bréfi til Alþ. og mælir með fyrirvaralaust. Ég vil þó hafa þann fyrirvara, að rétt megi vera að setja ákvæði í frv. um að banna bænum sölu á lóðum, og get fallizt á, að lóðir síldarverksmiðja ríkisins séu undanskildar kaupunum.