02.09.1942
Sameinað þing: 12. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í D-deild Alþingistíðinda. (1003)

13. mál, vöru- og farþegaflutningar með ströndum fram og flugleiðis

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. — Þegar þessi þáltill. var fyrst rædd hér í hæstv. Alþ., lýsti ég yfir fylgi mínu við hana og fagnaði jafnframt þeim upplýsingum, sem komu frá hæstv. ríkisstj. um það, að hún hefði haft þessi mál til athugunar. Ég fylgi þessari þáltill., eins og hún er og með þeirri breyt., sem fjvn. hefur gert till. um, en ég vildi leyfa mér að koma fram með viðaukatill. um það, sem ég hygg, að rétt sé að drepa nokkuð á, þegar rætt er um að leysa úr þeim vandkvæðum, sem eru á farþegaflutningum til afskekktra staða á landinu, en það eru flugsamgöngurnar. Það hefur verið haldið uppi farþegaflutningum með fullkominni landflugvél í sumar, sem teljast verða mjög góðar samgöngur, milli Suðurlands og annarra landshluta. En ekki hefur verið hægt nema að litlu leyti að halda uppi flugsamgöngum milli landshluta, vegna þess, að flugvél, sem annars hefði verið notuð til þess, varð að leita að síld. En þeir staðir, sem helzt þyrfti að fá samgöngur við, t. d. Reykjavík, eru Austfirðir og Vestfirðir. Ég hygg, að ríkið eigi greiðan aðgang að Flugfélaginu í þessu efni, þar sem það veitir því nokkurn styrk. Og þar sem vitað er, að nú er langt komið því starfi þeirrar einu sjóflugvélar, sem við höfum, að leita að síld, ber ég fram brtt., sem tekur til bættra samgangna með notkun flugvéla. Hef ég borið þessa brtt. undir einn hv. nm., og hann sér því ekkert til fyrirstöðu, að hún verði samþ.

Vatill. mín er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta : „Jafnframt skorar Alþingi á ríkisstjórnina að athuga möguleika á auknum farþega- og póstflutningi flugleiðis til þeirra landshluta, sem við erfiðust skilyrði búa í þessum efnum. Leiti ríkisstj. um það samvinnu við Flugfél. Íslands.“

Í samræmi við þessa vatill. mætti e. t. v. segja, að nauðsyn væri á að breyta fyrirsögninni, og geri ég till. um, að við fyrirsögn till. bætist: og flugleiðis.

Vil ég svo mælast til þess við hæstv. forseta, að hann leiti afbrigða fyrir þessari brtt.